Framkvæmdir og rekstur á Egilsstaðaflugvelli

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:15:02 (1979)

[16:15]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég skildi það svo á ræðu fyrirspyrjanda að honum væri kunnugt um það að ýmis öryggistæki vanti á flugvelli úti á landi. Ástæðan er auðvitað sú að á undanförnum árum hefur verið lögð meiri áhersla á aðra hluti, sem ég skal ekki rekja hér, og má auðvitað telja upp ýmis tæki í því sambandi, ekki aðeins á Egilsstaðaflugvelli heldur í öðrum landsfjórðungum einnig.
    Fyrstu spurningunni svarar Flugmálastjórn svo: Fyrirspyrjandi á væntanlega við aukinn tækjabúnað vegna snjóhreinsunar og brunavarna til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru fyrir millilandaflug með stærri þotum allan ársins hring. Snjóhreinsibúnaður sem þarf að lágmarki að vera fyrir hendi er eftirfarandi:
    Flugbrautarsópar, 15 millj. kr., tillaga um fjárveitingu 1993 stendur hér. Snjóblásari, 17 millj., 1995. Dráttarbifreið, 10 millj., 1995. Snjótönn, 3 millj., 1995. Samtals 45 millj. kr.
    Keyptur hefur verið nýr flugbrautarsópur sem er á leið til landsins. Samið hefur verið um leigu á nýjum snjóblása til 15. janúar 1995 með kauprétti eftir það og kemur tækið til landsins í desember nk. Flugmálastjóri hefur til athugunar leigu á dráttarbifreið, vörubifreið, þar til fjárveiting 1995 leyfir kaup. Flugmálastjórn hefur einnig til athugunar hvernig hægt er að fjármagna kaup á nýrri snjótönn jafnvel á þessu ári. Gömlu tækin sem nú eru fyrir hendi á flugvellinum verða einnig notuð að hluta, en þó aðallega sem varatæki.

    Eins og að ofan getur er um að ræða lágmarksbúnað. Mjög æskilegt er að allur snjóhreinsibúnaður sé tvöfaldur. Því þyrfti að útvega annan flugbrautarsóp þannig að hægt sé að hreinsa brautina þótt annað tækið bili.
    Þær auknu brunavarnir sem til þarf við komu stærri farþegaþotu eru í dag leystar með viðbótartækjabúnaði frá brunavörum Fljótsdalshéraðs í hverju tilfelli. Enn fremur standa yfir viðræður milli Flugmálastjórnar og brunavarna Fljótsdalshéraðs um rekstur sameiginlegs slökkviliðs þessara aðila sem staðsett yrði á Egilsstaðaflugvelli.
    Ég vil síðan bæta því við að mér mun á allra næstu dögum, jafnvel strax á morgun, berast tillaga Flugmálastjórnar um flugmálaáætlun næstu ára sem síðan verður lögð fyrir Alþingi.
    Síðari spurningin er svohljóðandi: ,,Hvað líður áformum um sólarhringsvakt á Egilsstaðaflugvelli?``
    Þetta mál hefur líka verið til athugunar og umræðu. Hér erum við ekki að spyrja um hvort sólarhringsvakt verði tekin upp á Egilsstöðum heldur hvenær.