Framkvæmdir og rekstur á Egilsstaðaflugvelli

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:18:24 (1980)


[16:18]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. þau svör sem hann hefur veitt hér og þau sýna að það er unnið að því að afla tækja til þess að reka þetta góða mannvirki sem komið er upp á Egilsstöðum. Ég vil undirstrika í því sambandi að það er auðvitað nauðsynlegt að búa flugvöllinn sem allra fyrst þannig úr garði að hann þjóni sem millilandavöllur og varavöllur fyrir millilandaflug og það hefur mikla þýðingu í þeirri viðleitni sem áhugi er á Austurlandi og víðar, að reyna að nýta þá miklu fjárfestingu sem þarna er og hefur verið lagt í á undaförnum árum til að sækja fram til vaxandi flugsamgangna.
    Ég vil hvetja til þess að gert verði átak í þessum efnum, en geri mér auðvitað grein fyrir því að þessi mál koma til kasta Alþingis og samgn. þegar flugmálaáætlun verður lögð fyrir. En ég vil koma hér fram þeim sjónarmiðum að það er náttúrlega afar mikilvægt að völlurinn verði sem fyrst raunverulegur völlur, því lengd flugbrauta er ekki það eina sem skiptir máli í því sambandi, heldur er það sá búnaður og þær vaktir sem eru á þessum flugvelli.