Útboð í landpóstaþjónustu

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:25:12 (1983)


[16:25]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Póst- og símamálastjóri svarar þessari fyrirspurn svo:
    ,,Landpóstaþjónusta frá Paterksfirði, þ.e. í Barðastrandar- og Rauðasandshreppi, var boðin út til tveggja ára 21. sept. sl., með fresti til 18. okt. 1993. Tilboð bárust frá eftirfarandi aðilum: Guðna Jónassyni, Miðgarði, 6 millj. 110 þús. 660 kr., Hauki Valssyni, Bölum 6, Patreksfirði, 7. millj. 501 þús. 650 kr., Sigríði Sigurðardóttur, Brunnum 6, Patreksfirði, 5 millj. 720 þús., Sæmundi Jóhannssyni, Hjöllum 23, Patreksfirði, 6 millj. 976 þús. 330 kr. Ákveðið var að taka tilboði Guðna Jónassonar, Miðgarði.
    Ástæður þess að tilboði hans var tekið en ekki því lægsta voru þær að Guðni bauð fram bifreið sem metin var betur búin til erfiðs vetraraksturs ásamt snjósleða og varabifreið, einnig vel búna til aksturs í vetrarófærð. Enn fremur verða tveir starfsmenn hjá Guðna og þriðji aðili til afleysinga ef á þarf að halda. Sigríður nefndi aftur á móti sem afleysingamann eiginmann sinn, en hann er í föstu opinberu starfi og því vart tiltækur fyrirvaralaust eða lítið ef á þyrfti að halda. Einnig bauð hún fram sem varabifreið ótilgreindan bílaleigubíl.
    Rétt er að fram komi að um mjög erfitt svæði er að ræða til vetrarferða svo að góður búnaður skiptir öllu máli.
    Þá skal enn fremur tekið fram að í þessu útboði, sem öðrum slíkum, var áskilinn réttur til að taka hvaða tilboði sem er. Í því sambandi má upplýsa að ekki hefur verið algilt að tekið væri lægsta tilboði í landpóstaþjónustu, enda tekið mið af fleiri þáttum en kostnaði við slíka ákvörðun.
    Við þetta vil ég svo aðeins bæta að eins og fram kemur í svarinu er þar ekki minnst á kynferði og ég hef ekki sjálfur haft frumkvæði að því að spyrja um slík atriði sérstaklega, þannig að ég er svolítið óviðbúinn að svara slíku.
    Í öðru lagi vil ég segja að það er síður en svo einsdæmi að ekki sé tekið lægsta tilboði, eins og hv. þm. er kunnugt. Má m.a. nefna útboð á sama svæði og hér um ræðir í því sambandi, en það var gert til þess að reyna að styrkja atvinnulíf á Patreksfirði, sem ég hygg að hv. þm. viti um, eins og ég sagði. Fleiri dæmi er um slíkt, einnig hjá Pósti og síma. Ég man ekki betur en sú hafi t.d. orðið niðurstaðan þegar ákveðið var hver fengi póstleiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur, án þess að ég þori þó að fullyrða það. Á það ber að líta í þessu sambandi að póstinum ber fyrst og fremst að reyna að tryggja að það sé öryggi í hans þjónustu. Það er höfuðtilgangur póstþjónustunnar að hafa öryggi í ferðum, en reyna um leið að draga úr kostnaði. Ég hef ekki haft það fyrir sið að setja mig inn í sérstök tilboð af þessu tagi og hef treyst því að Póstur og sími reyni hverju sinni að haga sér í samræmi við það sem hann teldi skynsamlegast og samrýmast best hagsmunum viðskiptavina Pósts og síma í bráð og lengd.