Útboð í landpóstaþjónustu

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:28:46 (1984)


[16:28]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er alveg rétt hjá honum að það er ekkert einsdæmi í mínu kjördæmi að tekið sé tilboðum sem ekki eru lægst og hefur það stundum verið gagnrýnt á Alþingi.
    Hann ræddi um að líklega hefði verið metið vænlegra og öruggara tilboð hjá þeim sem ekki var lægstbjóðandi í þessu tilfelli. Þegar lægstbjóðandi hafði samband við umdæmisstjóra Pósts og síma á Ísafirði spurði hann um ákveðin atriði sem hún gat gefið fullkomnar skýringar á. Þannig var ekki hægt að líta svo á að hennar tilboð væri með neinum þeim ágöllum sem gerði að verkum að frekar væri tekið næstlægsta tilboði. Í tilboðum er gjarnan farið eftir íslenskum staðli 30, og í grein 4.1.1.9 segir að tilgreina skuli hvort niðurstöðutala útboðs skuli ein vera bindandi fyrir bjóðanda eða tilgreint einingarverð og/eða millisummur, eins og segir. En það er einnig sagt, með leyfi forseta:
    ,,Venjan er sú að verkkaupi endurreikni öll tilboð áður en einu þeirra er tekið og leiðrétti reiknivillur og aðrar skekkjur sem kunna að finnast í tilboðsskrá. Við frekari skoðun tilboða og við samningsgerð er síðan tekið mið af þessum endurreiknuðu niðurstöðutölum.``
    Eins og ég segi var því ekki til að dreifa í þessu tilfelli. Það hefur a.m.k. hvergi komið fram og var ekki tilkynnt.
    Ég vil einnig benda á að í IX. kafla íslensks staðals 30 segir um val á tilboði: ,,Það er rétt að ítreka mikilvægi þess að farið sé að settum reglum. Frávik frá reglum rýrir traust manna á útboðsforminu og heiðarlegum samskiptum verkkaupa og verktaka yfirleitt.``
    Enn fremur segir: ,,Hin almenna venja er að taka tilboði lægstbjóðanda ef hann er fjárhagslega og tæknilega talinn hæfur til að leysa verkið af hendi og býður hagstæðar tæknilegar lausnir``.
    Í þessu tilfelli held ég að það sé athugandi fyrir hæstv. ráðherra og ég hygg að það sé ekki vænlegt til stuðnings við útboðs- og einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar að hentistefna og mismunun ráði vali á því hvaða tilboði er tekið hverju sinni.