Útboð í landpóstaþjónustu

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:31:12 (1985)


[16:31]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hv. þm. er óánægður með niðurstöðu Póst- og símamálastofnunarinnar, en ég vil á hinn bóginn alls ekki fallast á það sjónarmið hv. þm. að um sé hentistefnu og mismunun að ræða í þessu tilviki. Mér finnst satt að segja ósæmilegt að hv. þm. sé að gera því skóna að embættismenn Pósts og síma hafi hér verið að gera sér leik að því að einhver einn skyldi fá þetta starf frekar en annar. Sannleikurinn er sá ef menn vilja vera sanngjarnir og horfa til þess hvernig boðið hefur verið í opinbera þjónustu og opinber verk, þá hefur oft komið fyrir að þar eru aðilar sem hafa verið illa undirbúnir og undir sumum kringumstæðum með öllu vanhæfir til að gegna viðkomandi starfi. Má raunar rekja slóðann í sumum byggðarlögum eftir verktaka sem ekki hafa getað staðið í skilum við undirverktakana, án þess að ég sé að gefa neitt slíkt í skyn um þann sérstaka mann eða konu, ef maður vill kyngreina þá sem bjóða í þjónustu, þá er ég ekki að gefa neitt í skyn um hana. Ég stóð einungis upp til þess að mótmæla þeim ummælum hv. þm. að hér væri um einhverja mismunun að ræða sem mér skildist að væri af einhverjum annarlegum hvötum, sem ekki er. Hitt er auðvitað mikill ábyrgðarhluti að reka stofnun eins og Póst- og símamálastofunina og menn verða stundum að taka ákvarðanir sem eru erfiðari heldur en það að velja alltaf auðveldustu leiðina. Menn verða að standa ábyrgir fyrir sínum verkum, fyrir þeirri þjónustu sem stofnunin á að inna af hendi. Þetta varð sú niðurstaða sem Póst- og símamálastofnun komst að og ég hef enga ástæðu til að ætla að hún hafi þar misfarið með vald sitt.