Landgræðslustörf bænda

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:44:17 (1989)


[16:44]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þegar ég kom úr landbrn. í morgum hitti ég mann sem hefur haft það gæluverkefni að gera við bíla undanfarin ár og er alveg að kafna í gömlum bílum vegna þess að hann hefur lagt slíka alúð einmitt við sitt gæluverkefni. Ég held að það sé skrýtin máltilfinning að skilja orðið gæluverkefni þannig að það sé neikvætt um það verkefni (Gripið fram í.) að menn vilji ekki leggja rækt við það sem er þeirra gæluverkefni. Það er auðvitað mikill misskilningur og getum við rifjað upp ýmsa bændur einmitt í sambandi við það. Við getum talað, ef við viljum endilega vera fyrir norðan, um þann ágæta þingmann Sjálfstfl., Kára Sigurjónsson á Hallbjarnarstöðum, sem hafði náttúrufræði og steinasöfnun sem gæluverkefni og náði þar miklum og góðum árangri. Þannig að ég get alveg ítrekað að það má vel segja um mig að mér þyki bæði gott og gaman að hafa gróðurvernd og landgræðslu að gæluverkefni.
    Á hinn bóginn verð ég því miður að segja að á þessari stundu get ég ekki gefið vonir um það að svigrúm gefist til þess að auka fé til landgræðslustarfa og skal vera hreinskilinn í þeim efnum. Það á sér auðvitað þá skýringu að ríkissjóður stendur ekki vel um þessar mundir og hér hefur verið lægð í atvinnumálum sem mjög hefur dregið úr því að tekjustofnar ríkissjóðs gefi það sama og áður. Það dregur á hinn bóginn ekki úr nauðsyn þess að halda sitt strik í sambandi við uppgræðslu lands og gróðurvernd og er auðvitað hörmulegt til þess að vita ef Alþingi hefur ekki möguleika til þess eða telur sig ekki hafa möguleika til þess að standa við þá þál. sem samþykkt var á vordögum 1991, að stöðva landeyðingu á þessari öld.