Tekjuskattur og eignarskattur

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:50:40 (1991)


[16:50]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, einkum að því er lýtur að skattlagningu fyrirtækja. Má geta í því sambandi að tekjuskattshlutfall fyrirtækja hefur frá því á árinu 1990 verið lækkað úr 50% niður í 33% og ýmsar aðrar breytingar verið gerðar til þess að liðka til fyrir atvinnulífinu. Er þetta mál sem hefur margoft verið rætt í sölum hins háa Alþingis. Í því frv. sem nú liggur fyrir á hinu háa Alþingi er áfram haldið og þar er fjallað um skatthlutföll, vaxtabætur o.s.frv.
    Fyrir skömmu skipaði ég nefnd til þess að fara yfir bæði reglugerð og löggjöf um skattamál og þó einkum og sér í lagi tekjuskatt og eignarskatt. Verkefni nefndarinnar er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar að endurskoða reglugerð sem að stofni til er frá 1963 þar sem mið verður tekið af breytingu á lögum og breyttum aðstæðum, en í starfi sínu ber nefndinni að hafa til hliðsjónar úrskurði sem felldir hafa verið og breyttar viðskiptavenjur. Þetta er auðvitað flókið og tímafrekt verkefni, en það er ætlast til þess að nefndin fjalli á fyrstu stigum starfs síns einkum um atriði í reglugerð frá 1963 nr. 245, sem snerta risnu, ferðakostnað, hlunnindi og atriði sem fjalla um styrki og framlög til félaga og fleira. Hins vegar er nefndinni einnig ætlað að endurskoða ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt að því er tekur til lífeyrismála, gjaldfærslu eftirlaunaskuldbindinga, frádráttarbærni iðgjalda umfram lögbundið lágmark, iðgjöld í séreignasjóði o.fl. Ég lagði til í erindisbréfi til nefndarmanna að verkefni nefndarinnar væri æskilegt að skipta í áfanga þannig að tilteknar breytingar á reglum og lögum gætu öðlast gildi allt eftir því sem starfinu vindur fram. Í þessari nefnd eiga sæti Indriði H. Þorláksson, sem er formaður nefndarinnar, skrifstofustjóri í fjmrn., tveir endurskoðendur, þeir Tryggvi Jónsson og Árni Tómasson, en hann er einn af höfundum þeirrar skýrslu sem hér var vitnað til, þ.e. skýrslu Félags löggiltra endurskoðenda. Þá starfa í nefndinni Friðleifur Jóhannesson, forstöðumaður hjá ríkisskattstjóra, og Sigmundur Stefánsson skattstjóri. Með nefndinni starfa síðan Bragi Gunnarsson, lögfræðingur í fjmrn., og Elín Alma Arthúrsdóttir, viðskiptafræðingur hjá embætti ríkisskattstjóra.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að lög og reglur sem snerta tekjuskatt og eignarskatt hafa verið nokkuð gagnrýndar upp á síðkastið, einkum og sér í lagi vegna stórherts eftirlits með framtali og vegna endurskoðunar á framtölum fyrirtækja. Gagnrýnt hefur verið, eins og kom fram hjá hv. þm., að rekstrarkostnaðarhugtakið sé túlkað of þröngt, m.a. vegna starfsmannakostnaðar, risnu, félagsgjalda, fundakostnaðar, tapaðra viðskiptakrafna o.s.frv. En lagaatriði eru ekki heldur nægilega skýr sem snerta t.d.

tap á sölu hlutabréfa, lífeyrisiðgjöld og eftirlaunaskuldbindingar, skattlagningu verðbréfafyrirtækja, eins og hv. þm. minntist á, skattalega meðferð aflaheimilda, sem reyndar fékkst nokkur skýring á fyrir Hæstarétti nýlega, skattalega meðferð á arði, þá á ég við jöfnunarhlutabréf, skatthlutfall lögaðila, þar eru ákveðin vandræði uppi vegna sameignarfélaga og annarra félaga með ótakmarkaða ábyrgð, þeirra sem að þeim standa, málsmeðferðarreglur ýmiss konar, kærufresti o.s.frv. Þessi mál verða til skoðunar í nefndinni og ég á von á því að fyrsti skammturinn komi núna fyrir jólin og þá verði hægt að breyta reglugerðinni og senda til hv. nefndar í þinginu ýmsar brtt. sem ég tel eðlilegt að verði gerðar sem allra fyrst. Ég tel ekki ráðlegt nú að gera heildarbreytingu á þessum skattalögum. Það mun taka verulegan tíma. Við vitum nokkurn veginn hvar vandamálin eru og að því er unnið, af þessari nefnd og öðrum, að setja skattalögin, lög um tekjuskatt og eignarskatt, í nútímalegan búning þannig að þau þjóni sem allra best þeim tilgangi sem þeim er ætlaður.