Tekjuskattur og eignarskattur

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:55:42 (1992)


[16:55]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég heyri það að hann hefur mikinn og góðan skilning á þessu vandamáli. Þess er einnig að vænta að vinna þeirrar nefndar sem hann hefur skipað leiði til þess að réttlátari úrskurður fáist um þessi mál og samræmdari og skýrari reglur um þetta, því það er raunverulega það sem hefur vantað líka. Hann nefndi hér ýmis atriði. Því miður er tíminn svo stuttur sem maður hefur í fyrirspurnatíma, en ég vildi þó aðeins nefna hér eitt til viðbótar, sem er t.d. í kaflanum þar sem rætt er um jafnræði milli skattaðila, það eru skatthlutföllin. Tekjuskattur hlutafélaga og samvinnufélaga er núna 33% en tekjuskattur sameignarfélaga og allra annarra félaga og stofnana er 41%, þannig að þarna hafa hlutafélögin og samvinnufélögin allmikið forskot á einstaklinga og sameignarfélög.
    Það er líka svolítið merkilegt að komast að raun um þegar skoðað er hverjir skila best sínum sköttum og standa sig best við að greiða sínar skuldir þá eru það einmitt einstaklingar og sameignarfélög, vegna þess að í sameignarfélögum hafa einstaklingarnir jafna ábyrgð, en sú ábyrgð er ekki eins mikil í hlutafélögum. Þarna tel ég að einmitt sé verið að mismuna þeim sem taka á sig ábyrgðina.
    En ég vil enn og aftur endurtaka það sem ég hef áður sagt, að allar breytingar á skattalögum eiga að hafa nokkurn aðdraganda og kynningu áður en þær verða að lögum og ég tel óásættanlegt að kasta fram frv. um breytingar á skattalögum nokkru fyrir jól sem síðan eiga að taka gildi um áramót. Slíkt skapar einnig óeðlilegt vinnuálag og ég held að menn hafi ótrú á stjórnvöldum sem stunda slík vinnubrögð.
    En ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir svörin og vænti góðs af þeirri vinnu sem hann hefur hér sagt að muni fara fram.