Tekjuskattur og eignarskattur

46. fundur
Mánudaginn 29. nóvember 1993, kl. 16:58:04 (1993)


[16:58]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil bæta því við það sem ég sagði hér áðan, að vinnu nefndarinnar verður hagað þannig að hún skiptir vinnunni upp og mun skila jafnóðum tillögum til ráðuneytisins og ég mun hafa gott samstarf við þingnefndina um þau atriði sem snúa að sjálfum lögunum, en reglugerðinni verður breytt af ráðuneytinu.
    Varðandi þá mismunun sem kemur fram í skýrslu löggiltra endurskoðenda á milli skattumdæma, þá er þetta að sjálfsögðu mál sem þarf að taka á og það er unnið að því að gera reglurnar skarpari og að menn séu betur meðvitandi um það hvernig túlka skuli lögin hverju sinni.
    Varðandi jafnræði sem hv. þm. minntist á, þá er það rétt að við skiljum eftir sameignarfélögin og samlagsfélögin, þ.e. þau félög sem eru líkust einstaklingsrekstrinum, því það er mjög erfitt að gera mun á slíkum rekstri þegar um er að ræða félög með ábyrgð sem er ótakmörkuð og þegar einstaklingar geta tekið út úr félögunum sem þeim sýnist og framtölin eru með svipuðum hætti og hjá einstaklingum. Þetta vandamál hefur komið upp. Það verður til umræðu í nefndinni sem fjallar um skattabandorminn sem nú er til skoðunar hér í þinginu og verður til 1. umr. á morgun.
    Það er líka annað jafnræðismál sem ég vil minnast á. Það er jafnræðismál milli ríkis annars vegar og skattaðila hins vegar, þar sem um er að ræða ójafnan leik, þar sem ríkið tekur alltaf miklu hærri vexti heldur en skattaðilarnir. Þetta er annað atriði sem þarf að taka á. Ég minni á að í þessari títtnefndu skýrslu, sem hv. þm. fjallaði um í sínu máli, kemur fram á bls. 19 að Indriði H. Þorláksson skrifstofustjóri, sem er formaður nefndarinnar, sýnir þessu máli mikinn skilning, með sama hætti og kom fram hjá hv. þm. Ég þakka hv. þm. fyrir að hafa komið með þessa fyrirspurn og gefið mér tækifæri til þess að svara.