Fundur í Þingvallabænum 1. desember

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 13:37:06 (1997)


[13:37]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að ég er ósammála sjónarmiðum hæstv. forsrh. í þessu máli. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að setja reglur í málum af þessu tagi úr því að þetta stendur til á annað borð. Ef túlkun hæstv. forsrh. yrði regla hér með opinberar byggingar, þá er þess væntanlega ekki langt að bíða að forsrh. samþykki að Sjálfstfl. auglýsi almenna stjórnmálafundi í Stjórnarráði Íslands við Lækjartorg eða í fjmrn. við Arnarhvál eða í Sölvhóli. Ég tel að þessi túlkun forsrh. sé fullkomlega óeðlileg og ég skora á hann að beita sér fyrir því að settar verði reglur til að koma í veg fyrir misnotkun eða ranga notkun opinberra bygginga með þeim hætti sem hér er verið auglýsa. Og ég skora einnig á hv. 3. þm. Reykv. sem er formaður Þingvallanefndar að beita sér fyrir því að settar verði reglur sem sátt verður um um notkun mannvirkja á Þingvöllum. Ég er sannfærður um að það getur aldrei orðið sátt um það að stjórnmálaflokkarnir, jafnvel þó að þeir allir fengju að komast að, fái að auglýsa fundi í Þingvallabænum.