Fundur í Þingvallabænum 1. desember

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 13:41:29 (2000)


[13:41]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Formaður Þingvallanefndar tók þannig til orða hér áðan að honum fyndist ekki óeðlilegt að þjóðgarðsvörður gæti heimilað afnot af Þingvallabæ til fundahalda, þeim hluta hússins sem notaður væri til opinberrar móttöku. Eitthvað á þessa leið tók ég eftir orðum hv. 3. þm. Reykv., Björns Bjarnasonar. Mér var ekki ljóst að neinn sérstakur hluti af bústað þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum væri talinn opinber hluti og ég held að nauðsynlegt sé að fá það upplýst hvort um sé að ræða fundahald í syðsta hluta bæjarins sem er bústaður forsrh.
    Varðandi málið að öðru leyti tel ég það mjög óheppilegt ef það ætti að verða regla að efnt er til stjórnmálafunda í Þingvallabænum. Ég held að það sé ekki aðeins óviðeigandi almennt séð, heldur sé það óheppilegt fyrir húsráðendur þar að þurfa að fara að taka við fundum stjórnmálaflokka eins og hér var vísað til að ekki væri óeðlilegt að bærinn væri opinn fyrir alla stjórnmálaflokka til fundahalda. Það teldi ég mjög óæskilegt að yrði að einhverri reglu og ég hvet Þingvallanefnd til þess að hafa afskipti af málinu og

setja reglur um þetta efni. Mér finnst það alveg nauðsynlegt og e.t.v. þarf að fara yfir málið í víðara samhengi eins og hér var að vikið.