Fundur í Þingvallabænum 1. desember

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 13:43:48 (2001)


[13:43]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Eins og menn vita, ekki síst fyrrv. ráðherra, eru alger skipti á milli húsa þarna þó að það séu samliggjandi burstir þannig að embættisbústaður eða sumarhús forsætisráðherra kemur ekkert inn í þessa mynd og hefur ekkert verið rætt.
    Það sem ég vil leggja áherslu á í þessu sambandi og gerði kannski ekki nógu skýrt áðan, er að ég lít þannig á að hér sé um að ræða fyrst og fremst heimili þjóðgarðsvarðarins. Þjóðgarðsvörður getur haldið þar fundi. Þjóðgarðsvörður getur til að mynda heimilað hreppsnefndinni eða hreppsbúum að koma þarna til fundar. Það er ákvörðun þjóðgarðsvarðarins að mínu viti. Ef þjóðgarðsvörður á að fara að ákveða það hvort hún heimilar auglýstan fund um stjórnmálaefni og bera það undir Þingvallanefnd eða forsrn. eða einhverja aðra slíka, þá á það að gerast líka um alla aðra fundi. Ég segi: Við eigum að virða það að þetta er heimili þjóðgarðsvarðar. Ef þjóðgarðsvörður vill opna sín heimkynni fyrir fundahald af því að ekki er í önnur hús að venda í sveitinni, þá finnst mér að við eigum ekki að vera agnúast út í það eða gera það að stórmáli. Ég segi fyrir mig, ég sé ekkert á móti því að ef Samtök herstöðvaandstæðinga til að mynda, ef þau eru enn þá til, vildu hitta menn þarna úr sveitinni og þjóðgarðsvörður mundi vilja opna heimili sitt fyrir þeim samtökum. Það er hennar mál að mínu viti. Ég sé ekkert á móti því og ég held að það sé út í bláinn að upphefja þetta með þessum hætti, tengja það 1. des. sérstaklega og draga embætti forseta þingsins inn í þetta sérstaklega. Hún er þarna auðvitað fyrst og fremst sem stjórnmálamaður, þingmaður eins og við öll hin.