Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:24:48 (2019)


[16:24]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var aðeins eitt atriði, ég kem að öðrum seinna, sem ég vil nefna í þessu andsvari mínu og það snertir það sem hv. þm. ræddi í upphafi síns máls um það að ríkisstjórnin hefði sagt að það væri lítill vandi að hækka skatta á sumum tegundum vöru og þjónustu úr 0% í 14% en nú horfði málið öðruvísi við frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar því að nú væri allt í einu mikill vandi að lækka skatta úr 24,5% í 14%. Og þetta er rétt, þetta er í raun og veru auðskilið ef menn vilja reyna að skilja það. Það er nefnilega ekki mikill munur fyrir innheimtumennina ef skatturinn er enginn eða er 14% því að það er í raun og veru annað þrep en hið venjulega. Yfirleitt var um að ræða vörur sem hægt var að innheimta skatt af án þess að það ruglaðist saman við bókhald annarra vara eða þjónustu eða þá að um var að ræða vöru sem bar 0% eins og íslenskar bækur sem voru seldar með erlendum bókum sem báru 24,5% skatt. Það var enginn munur á því, ekkert meiri vandi að gera ráð fyrir 14% heldur en 0%. Vandinn er ekkert meiri eða minni. En þegar kemur að því að matvörur sem fást í sömu verslunum bera annaðhvort 14% eða 24,5%, þá er vandinn auðvitað heilmikill og miklu meiri og ég vil taka undir það sem margir hafa sagt hér í sínum ræðum að þetta veldur vandræðum í skattkerfinu og það hefur verið viðurkennt af öllum þótt sú leið hafi verið valin nú til þess að ná fram öðrum mikilvægum markmiðum í efnahagsmálum.
    Þetta vildi ég að kæmi hér strax fram þannig að það ylli ekki misskilningi.