Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:31:03 (2024)


[16:31]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ég mun vera eini ráðherrann sem hér er til svara, enda fer ég með fjármál ríkisins og þar á meðal skattamálin og það er nú sú venja að sá ráðherra sem leggur fram mál talar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar. Hafi það farið fram hjá einhverjum hv. þm. þá vil ég endurtaka það að ríkisstjórnin ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessu frv. Hún stendur öll að frv. og ég get þess vegna verið talsmaður hennar allrar. Hvað sem svo einstakir ráðherrar segja um álit sitt á þessum breytingum annars staðar en hér á hinu háa Alþingi þá er það ljóst að allir hæstv. ráðherrar standa að frv. Ég óska eindregið eftir því að málið fái rækilega umræðu hér í dag. Þetta er 1. umr. málsins, málið fer til nefndar. Það er enginn þingfundur á morgun, sumir hv. þingmenn hafa kvartað undan því að málið komi of seint fram svo ég vil eindregið mælast til þess ef nokkur kostur er að málið fái eðlilega afgreiðslu, helst sem fyrst og í dag ef nokkur kostur er til þess að hægt sé að nýta tímann í nefndum og koma málum áleiðis með eðlilegum hætti.
    Ég vek athygli á því að 2. umr. er eftir. Hv. þm. sem biður um frest er formaður hv. nefndar sem fjallar um málið og hann hefur öll tök á því að æskja allra þeirra upplýsinga sem hann kærir sig um að fá um málið. Á því hefur hann full völd. Til þess var honum treyst m.a. af þeim sem hér stendur og ekki einungis stjórnarandstöðunni heldur líka stjórnarliðinu og ég veit að hann stendur undir því trausti og mun geta starfað þannig að hann nái í allar þær upplýsingar sem hann vill sem formaður hv. nefndar.