Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:37:46 (2028)


[16:37]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég kem hér til þess að taka undir og ítreka óskir um að þeir ráðherrar sem fara með málaflokka sem beinlínis tengjast efni þessa frv. komi og verði viðstaddir umræðuna svo fremi sem þeir hafi ekki fjarvistarleyfi eða séu löglega forfallaðir þannig að þeir fái ekki komist til fundar. Hér er í fyrsta lagi um að ræða bandorm mikinn sem breyta á ákvæðum í sjö mismunandi lögum og ég tel að stjórnarandstaðan sýni þó nokkurn skilning og þolinmæði gagnvart m.a. þeirri málsmeðferð þó það bætist nú ekki við að ekki sé orðið við réttmætum og hógværum óskum um að hægt sé að eiga hér orðastað við ráðherra og eða forustumenn annars stjórnarflokksins út af pólitískum atriðum. Í raun hefði mátt setja hér á langar ræður og mikla rekistefnu um það að ríkisstjórnin væri að stytta sér leið með því að velja það að leggja þessi mál fram í bandormi í staðinn fyrir að flytja sjö aðskilin frumvörp sem hefði þá þýtt m.a. sjö sinnum lengri ræðutíma við 1. umr. málsins. Það er ekki hægt að mæla á móti því að félmrh. t.d. fer með mál sem um er fjallað í viðamiklum kafla þessa frv., vaxtabæturnar. Samgrh. með það sem lýtur að samgöngum og virðisaukaskatti á ferðaþjónustu og er það þá atvinnugrein. Sömuleiðis hafa foringjar Alþfl. gefið miklar pólitískar yfirlýsingar um þetta mál og með fullri virðingu fyrir hæstv. fjmrh. get ég bara engan veginn ætlast til þess að hann tali fyrir hönd Alþfl. í þeim efnum þó það sé út af fyrir sig skiljanlegt að ráðherrar Alþfl. vilji halda sig fjarri vettvangi um þessar mundir.
    Svo kemur hæstv. viðskrh. hingað í mýflugumynd. Það náðist varla að kasta á hann kveðju þá er hann rokinn aftur. Þetta er auðvitað engin frammistaða, hæstv. forseti. Ég tel að hæstv. forseta beri skylda til þess að rökstyðja það betur ef á nú að ljúka þessari umræðu og menn þurfa að nota sinn seinni ræðutíma án þess að þessir ráðherrar hafi komið og hægt sé þá að leggja fyrir þá spurningar.
    Auk þess verð ég að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst vera hér að eiga sér stað mjög undarleg þróun svo að ekki sé meira sagt í þá veru að menn virðast vera farnir að ganga út frá því, forsetar þingsins þar með taldir, að ráðherrum beri ekki að sinna þingskyldum sínum, þ.e. það er talað um það sem eðlilegan hlut og sjálfsagðan liggur mér við að segja að ráðherrar séu bara víðs fjarri og menn eigi nánast enga heimtingu á því að þeir séu hér í þinginu, en þeir eru þingmenn allir með tölu sem nú gegna

ráðherraembættum og þeim ber sama lögboðna skyldan til að sinna þingskyldum sínum og öðrum þingmönnum ef þeir hafa ekki fjarvistarleyfi. Menn hafa svo sem oft sýnt á því skilning gegnum tíðina að þeir geta verið uppteknir, mennirnir, en það var alla vega ekki mikill skilningurinn, sem sýndur var á því af hálfu þingmanna Sjálfstfl. þegar m.a. undirritaður var vakinn upp kl. 3 að nóttu til þess að mæta hingað á fundi í efri deild til þess að sá sem óskina bar fram um að ég mætti þar mundi hlæja að mér. Það var hæstv. núv. samgrh., svona til upprifjunar fyrir forseta.