Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 16:50:16 (2037)


[16:50]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hér hjá nokkrum hv. þm. að það hefði verið eðlilegt að hæstv. ráðherrar hefðu verið hér viðstaddir og það er auðvitað mjög erfitt að tala um þetta frv. án þess að hæstv. ráðherrar séu hér á staðnum. Það er að vísu rétt að stjórnskipulega heyra þessi mál undir hæstv. fjmrh. Þó eru mjög veigamiklir þættir í þessu frv. sem tilheyra öðrum ráðherrum beinlínis. Þá er ég ekki að tala um þá þætti sem tilheyra öðrum ráðherrum vegna þess að þeir hafi verið með sverar yfirlýsingar um það hvað þetta mál sé vitlaust eins og hæstv. ráðherrar Alþfl., heldur er ég að tala hér um málaflokk eins og vaxtabæturnar sem eru hluti af húsnæðisstefnunni og hæstv. félmrh. hefur gefið um það mál mjög afdráttarlausar yfirlýsingar. Ég vil því endilega óska eftir því að það verði allt gert sem hægt er til þess að kalla hingað hæstv. félmrh. og að fjmrh. beiti sér í þeim efnum, öllu því afli sem hann kann að hafa vegna þess að það er augljóst mál að hann getur ekki svarað um einstök atriði í sambandi við vaxtabæturnar og nú mun ég rökstyðja það nokkru nánar.
    Fyrir nokkru, þ.e. á þriðjudaginn í næstliðinni viku, var hér óundirbúinn fyrirspurnatími. Þá óskaði ég eftir því að hæstv. félmrh. gerði grein fyrir því hvað hún ætlaði að gera með vaxtaútgjöld þeirra einstaklinga sem eru nú með gömul húsbréf með 6% vöxtum upp á marga tugi milljarða kr. samtals úti í þjóðfélaginu andspænis hinum sem nú eru að fá ný húsbréf með 5% vöxtum. Ég rökstuddi það þannig að það yrði að taka á málum þessa fólks vegna þess að ella blasir það við að það mun fram á næstu öld vera með margfalt þyngri og erfiðari vaxtabyrði heldur en við er að búast að verði í eðlilegri efnahagsþróun og það er óeðlilegur hlutur að láta þetta fólk vera með þessar byrðar á bakinu með þessum hætti og ég spurði þá hæstv. félmrh.: Hvað ætlar ráðherrann að gera til þess að koma til móts við þetta fólk? Hæstv. félmrh. kom hér í stólinn og sagði að hún ætlaði að athuga þessi mál, fara yfir stöðu þessa fólks sérstaklega og sagði að hún mundi greina frá athugun sinni og niðurstöðum hennar hér í þessari virðulegu stofnun, á hv. Alþingi. Það hefur hins vegar ekki verið gert. En hæstv. félmrh. stendur að flutningi frv., þessa hér, um að lækka vaxtabætur á næsta ári, um að lækka vaxtabætur frá og með árinu 1995 mjög verulega frá því sem var þannig að hún ætlar ekki þrátt fyrir þessar breytingar á vöxtum að taka til baka þá skerðingu á vaxtabótum sem ákveðin var af ríkisstjórninni fyrir 2--3 missirum eða svo.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa að félmrh. er á leiðinni hingað til þings og samgrh. er bundinn á fundi en kemur von bráðar. Verið er að reyna að ná sambandi við hæstv. forsrh.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir greinargóðar upplýsingar og vænti þess að hæstv. ráðherrar komist hér til fundar áður en mínum ræðutíma er lokið.
    Hér er með öðrum orðum flutt frv. sem felur það í sér að staðfesta þá vaxtabótaskerðingu sem

ákveðin var fyrir 2--3 missirum, að vísu að haga henni með tilteknum hætti eins og þarna er gerð tillaga um og ég mun svo koma að hér á eftir, þannig að ég á það erindi við hæstv. félmrh. að spyrja: Stendur hún að þessu frv. fyrirvaralaust? Mun hún beita sér fyrir því að það verði gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að koma til móts við það fólk sem er núna með húsbréf með 6% vöxtum úti í þjóðfélaginu og er að sligast undan þeim?
    Ég vil aðeins víkja nánar að þeim hugmyndum sem hér eru uppi varðandi breytingu á vaxtabótum og segja eins og er að mér finnst að það hefði verið skynsamlegt að setja upp dæmi um það hvernig þessar mismunandi vaxtabótagreiðslur koma út. Ég sé þau ekki hér. Ég held að ég hafi skoðað málið vandlega. Ég sé hér um heildargreiðslur vaxtabóta samkvæmt tillögum nefndarinnar samanborið við samþykktar breytingar 1992 á bls. 19, en ég hefði viljað sjá hvernig þetta kemur út í útreikningi fyrir tiltekna einstaklinga. Það er í raun og veru mjög nauðsynlegt að gera það vegna þess að dæmið er frekar flókið af því að í því eru þrjár breytur.
    Í fyrsta lagi er hér tillaga um það í 2. mgr. þessarar aðalvaxtabótagreinar að það verði miðað við 7% af skuldum sem hámark þegar það er reiknað út, hversu miklar vaxtabætur viðkomandi einstaklingur getur fengið. Og svo er sett þak á þetta. Þessi breyta gildir ekki í gegn vegna þess að það er sett auk þess þak á hana þannig að þetta getur aldrei farið hærra en í 643.235 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Það þýðir með öðrum orðum samkvæmt lauslegum útreikningum mínum, ég tek það fram að ég hef ekkert annað fyrir mér í því, að þarna sé verið að tala um að skuldir sem séu upp á um 9,2 millj. kr., eða 9.189.100 kr. samkvæmt því sem ég var að slá inn hjá mér áðan. ( Fjmrh.: Ef þú gefur þér vaxtastigið.) Já, ef ég gef mér vaxtastigið.
    Í öðru lagi er sú breyta þarna inni að það er miðað við tekjur og þetta er mismunandi eftir tekjum. Það segir:
    ,,Vaxtabætur skal ákvarða þannig að frá vaxtagjöldum eins og þau eru skilgreind í 3. mgr.,`` --- þ.e. það sem ég var að tala um hér á undan --- ,,skal draga fjárhæð er svarar til 6% af tekjum . . . ``
    Í þriðja lagi segir að það eigi líka að miða við eignir sem geti farið í 5 millj. tæpar hjá hjónum að hámarki plús 60% áður en vaxtabæturnar deyja að fullu út. Þannig sýnist mér að ef um væri að ræða einstakling sem passaði inn í tekjumyndina og vaxtaprósentan passaði inn í forsendurnar þá séu menn þarna að tala um að vaxtabótamöguleikinn deyi út við hreina eign upp á u.þ.b. 8 millj. kr. eða svo, þ.e. 4,9 millj. plús 60% hjá hjónum eða sambýlisfólki. Hér er í raun og veru um tiltölulega flókið dæmi að ræða og þegar lagt er fram stjfrv. af því tagi sem hér er á ferðinni, þá finnst mér að það eigi að setja það upp með þeim hætti að það sé sæmilega læsilegt og skiljanlegt fyrir þingmenn, flesta þingmenn og helst alla þingmenn. Ég vil finna að því að þetta skuli ekki vera gert með skýrari hætti þó að ég viðurkenni að með lítils háttar kunnáttu í reikningsbók Elíasar Bjarnasonar sem við lærðum báðir hér fyrr á öldinni, ég og hæstv. fjmrh., þá er hægt krafla sig í gegnum þetta. En allt um það, þá er aðalatriðið í raun og veru það að hér er verið að staðfesta þá lækkun á vaxtabótum sem hæstv. ríkisstjórn ákvað fyrir 2--3 missirum.
    Mér skilst að það hafi lengi verið stefna Sjálfstfl., eða ég las það einhvers staðar í einhverjum ritum og heyrði það hér fyrr meir að Sjálfstfl. vildi eiginhúsnæðisstefnu, að allir ættu að eignast sitt eigið húsnæði. Ég heyrði leiðtoga Sjálfstfl. útskýra þetta þjóðfélag þannig að það ætti að vera þjóðfélag eignamanna ,,þar sem öllum gefst kostur á að eignast eitthvað``, orðrétt vitnað í einn af leiðtogum Sjálfstfl. Nú er það hins vegar þannig að þetta ,,eitthvað`` er orðið alveg hroðalega lítið sem menn geta eignast og það eru ofboðslegir vextir af því þannig að í rauninni er það svo að þessi stefna sem fylgt hefur verið núna hefur útilokað það að fólk geti eignast sitt eigið húsnæði. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér fyrir allmörgum árum var það auðvitað í fyrsta lagi verðbólgan sem tók niður húsnæðiskostnaðinn, það var verðbólgan. Í öðru lagi voru það tiltölulega mjög lágir vextir eða jafnvel neikvæðir vextir. Og í þriðja lagi var það ofboðsleg þensla í þjóðfélaginu, mikil yfirvinna, miklar yfirborganir og mikill hagvöxtur. Allt þetta hjálpaðist að við að gera það að verkum að fólk eignaðist hér húsnæði, verkafólk, jafnvel opinberir starfsmenn eignuðust húsnæði, jafnvel kennarar eignuðust húsnæði. Þó þetta fólk væri með tiltölulega lágar tekjur miðað við heildina þá gat það eignast húsnæði. Sjálfstfl. miklaðist af því á fundum og mannamótum að á Íslandi eiga menn húsnæðið. Það er einhver munur eða þar sem kratarnir stjórna í Skandinavíu, þar sem menn eru allir í húsaleigu. Og ekkert vissi Sjálfstfl. fyrirlitlegra heldur en svona hlutaíbúðir, búseturéttaríbúðir, ,,andelslejligheder`` eins og það heitir á skandinavísku. Ekkert vissi Sjálfstfl. eins hryllilegt og að búa í leiguhúsnæði. Það var ömurlegt og það var alveg greinilegt á andlitum leiðtoga Sjálfstfl. á þeim tíma að það setti að þeim alveg stórkostlegar innantökur þegar þeir hugsuðu um það að þeir þyrftu kannski einhvern tíma að leigja. Að leigja! Það var ofboðslegt.
    Nú er Sjálfstfl. hins vegar búinn að leika þjóðfélagið þannig, ráða þessu þjóðfélagi í meginatriðum núna á undanförnum árum þó einn og einn maður eins og ráðherrar Alþb. og fleiri góðir menn hafi komið að þessu, Sjálfstfl. hefur ráðið þessu í grófum dráttum. Nú er staðan þannig að verðtryggingin er komin á allar fjárskuldbindingar og vextir voru gefnir frjálsir sumarið 1984 í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, Framsfl. og Sjálfstfl., þannig að vaxtaokrið skrúfaði þetta allt upp. Í þriðja lagi hefur það svo gerst núna í seinni tíð að einstaklingarnir í þessu þjóðfélagi eru farnir að missa tekjur, kaupmáttur er að lækka, vinnan er að minnka, yfirtíðin er að minnka, yfirborganirnar eru að minnka og fólk er að verða atvinnulaust. Og hvernig á þá fólk að ná sér í húsnæði? Húsnæði er frumþörf. Maður sér það t.d. hér á Alþingishúsinu. Annars mundum við halda stöðuga útifundi. Við neyðumst til þess að hafa hér hús til þess a.m.k. að þeim sem eru að hlusta verði ekki kalt þó ræðumennirnir geti haldið á sér hita. (Gripið fram í.) Og svo er það sem hv. þm. bendir á sem er að vísu sagnfræðingur þannig að hún er ekki alveg hlutlaus aðili í þessu máli og vildi greinilega gjarnan fara á Þingvöll. En það er í rauninni engra kosta völ í þessu efni fyrir almenning. Eiginhúsnæðisstefnan er úr sögunni nema fyrir þá sem eru forríkir. Þá kemur félagslega íbúðabyggingakerfið. Staðreyndin er sú að svo er komið fjárhag fátæks fólks í landinu að fjöldinn allur af þeim sem eru að sækja um félagslegar íbúðir núna, t.d. hér í Reykjavík, nær ekki upp í lágmarkstekjumarkið, nær ekki upp í tekjumarkið. Svo er nú komið. Þannig er verið að vísa frá hundruðum einstaklinga hér í Reykjavík núna sem eru að sækja um í félagslega kerfinu sem hafa ekki tekjur til að komast upp í þetta lága tekjumark. Og hvað er þá eftir í raun og veru? Það er búið að útrýma eignaríbúðum með venjulegum hætti. Félagslega kerfið er of veikt Hvað er þá eftir? Það er alveg augljóst mál að það er bara ein leið til í þessu máli til þess að allir geti haft húsnæði og hún er sú að skapa hér í landinu virkan leiguhúsnæðismarkað með húsaleigu- og húsnæðisbótum með einhverjum hætti sem tengjast hinu almenna skattkerfi. Og þá kem ég aftur að hæstv. félmrh. og sakna nú enn vinar í stað, ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég sé hæstv. félmrh. hvergi. ( Gripið fram í: Hún kemur.) En hún kemur, segir hv. þm.
    Hvað ætli hæstv. félmrh. sé oft búin að lofa þessum húsaleigubótum? Ég hef því miður ekki tölu á því. Það er búið að hóta því að sprengja ríkisstjórnir nokkuð oft út af þessu máli, að það eigi að taka upp húsaleigubætur. Það er búið að hóta því við samsetningu fjárlaga haust eftir haust eftir haust að ef ekki komi húsaleigubætur árið eftir, þá sé bara ráðherrann hlaupinn á dyr. Aldrei hleypur ráðherrann á dyr eins og kunnugt er, ekki úr ríkisstjórninni. Að vísu úr varaformennsku í Alþfl. en það hefur nú verið leyst með sérstökum hætti sem er utan við þennan ræðutíma.
    Hvorugt liggur þá fyrir, hvorki ákvörðun um það að taka aftur skerðingu vaxtabóta, sem ætti auðvitað að gera, né heldur um húsaleigubætur. Staðreyndin er sú og staðan í landinu núna er þannig að það eru þúsundir og aftur þúsundir af ungu fólki sem eru í þann veginn að missa húsnæði eða nýbúið að missa og er að leita sér að plássi hjá nánustu aðstandendum þegar um allt annað þrýtur. Biðlistarnir hjá félagsmálastofnununum hafa aldrei verið lengri og svo heldur hæstv. félmrh. að hún geti komist upp með það að hóta því bara að sprengja einhverja íhaldsstjórn á hverju hausti og halda sér dýrlegri í augum þjóðarinnar með því, þegar hún svarar ekki fyrir sínar eigin gerðir á Alþingi Íslendinga vegna þess að hún er aðili að þessu frv. Eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti hér áðan, þá er hæstv. félmrh. aðili að þessu frv.
    Þess vegna tel ég alveg óhjákvæmilegt að hæstv. félmrh. verði kallaður til þessarar umræðu. Það er alveg útilokað annað. Það getur ekki gengið að hæstv. félmrh. komist upp með það að vera ekki viðstaddur þegar þessi umræða er í gangi. Sérstaklega er hæstv. félmrh. boðinn velkomin á þennan fund. Ég tel ástæðu til að þess verði getið í þingtíðindum rækilega.
    Hér er um að ræða mál sem snýr alveg sérstaklega að hæstv. félmrh. sem hefur aftur og aftur lofað því að taka upp húsaleigubætur, húsnæðisbætur, hefur aftur og aftur lofað því að taka sérstaklega til athugunar vanda þess fólks sem býr við vaxtaokur vegna allt of hárra vaxta af húsbréfum, sem lýsti því yfir hér í þessum ræðustól fyrir tveimur til þremur vikum að hún mundi taka sérstaklega á vanda þess fólks sem er með 6% vexti af gömlum húsbréfum. Það er útilokað annað en að vandi þessa fólks verði skoðaður í tengslum við þetta frv. Þess vegna er ekki hægt að láta hæstv. félmrh. sleppa með að vera fjarverandi meðan verið er að ræða þetta mál.
    Ég endurtek því þá spurningu sem ég hef áður borið fram í ræðu minni sem er senn komin á tíma og hún er þessi: Hvað hyggst hæstv. félmrh. gera til þess að koma til móts við það fólk sem er hér með ofurþunga vaxtabyrði, m.a. af húsbréfum? Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að skerðingin á vaxtabótum sem hún samþykkti í fyrra verði að einhverju leyti afturkölluð? Hæstv. félmrh. verður að svara þessari spurningu í þessari umræðu.