Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:08:11 (2038)


[17:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst eðlilegt að ég segi nokkur orð hér. Hæstv. félmrh. mun að sjálfsögðu tala síðar í umræðunni en eins og allir vita gat hún ekki verið viðstödd þegar hv. þm. flutti sína ræðu. Ég vil að það komi hér strax fram að það var nefnd á vegum beggja ráðuneytanna, fjármála og félagsmála, sem gerði þær tillögur um vaxtabætur sem finnast í því frv. sem hér er til umræðu. Meginatriðið er að þær ganga nú, vaxtabæturnar, fremur til hinna tekjulægri en áður var. Og ég vil bæta því við vegna orða hv. þm. um leigu og leigumarkaðinn að það hefur verið gerð könnun á því að ástandið á leigumarkaðnum nú er betra en það hefur verið um margra ára bil vegna þess að byggðar hafa veri fleiri félagslegar leiguíbúðir sem sveitarfélögin eiga og geta síðan leigt út til þeirra sem þurfa á slíkum íbúðum að halda. Ég held að það sé mikilvægt að þessar upplýsingar komist strax til skila í þessari umræðu hér.