Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:10:41 (2040)


[17:10]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Svo sem fram hefur komið hér í dag, þá erum við að fjalla hér um frv. sem að stofni og meginefni til hefur verið höndlað um úti í bæ. Það er sem sagt niðurstaða þeirra aðila vinnumarkaðarins sem gátu knúið fram ákveðnar breytingar sem margar hverjar, skal ég taka undir, eru jákvæðar, en þeir þurfa að sækja þær breytingar á kjörum sínum til ríkisstjórnarinnar.
    Nú vil ég taka það fram að ég tel að vissulega eigi aðilar vinnumarkaðarins að geta gert kröfu á stjórnvöld eins og aðra í samfélaginu en mér finnst það heldur óviðkunnanlegt þegar það er orðið þannig að það er ljóst þegar að vori hvernig frv. haustsins munu líta út og það er ekki ákveðið af framkvæmdarvaldinu nema að hluta, það er ekki ákveðið á Alþingi nema að Alþingi muni breyta einhverju og Alþingi gerir sér vel grein fyrir því að það er nokkuð sem er í rauninni ekki í valdi þingsins, ekki nema einhverjum smáatriðum. Það mun reyna á það vissulega ef þingmenn kysu að fara aðra leið og meiri hluti reyndist hér á Alþingi til þess. Þetta vil ég taka fram sem almennar athugasemdir.
    Það er ljóst að samkvæmt þessu frv. munu tekjur ríkisins lækka og það hlýtur að vera álitamál hvernig þeim lækkunum verður mætt og þá er fyrst og fremst mikilsvert að þar ríki réttlæti. Ég tel það ekki réttlæti að bíða enn og aftur með það að leggja skatt á vexti eða fjármagnstekjur. Ég skil ekki hvers vegna fjármagnstekjur eru sérstaklega friðhelgar. Ég skil ekki heldur að ekki skuli frekar vera leitað þeirra leiða að leggja á sérstakan hátekjuskatt umfram það sem gert var tímabundið á sl. ári í stað þess að vera að hækka skatta á almenning og hækka aðrar álögur á almenning. Ég skil það heldur ekki hvers vegna í ósköpunum það vefst svo mjög fyrir stjórnvöldum að leggja skatta á það sem ekki telst nauðþurftir. Þá er ég að nefna þá leið sem fjöldamargar Evrópuþjóðir hafa farið, og það með góðum árangri, að hafa skattþrep sérstaklega fyrir munaðarvöru eða ákveðnar álögur, það er misjöfn útfærsla.
    Nú lifum við í þannig landi, í þannig sveitarfélögum og við þannig aðstæður að við getum trauðla talið bíla til munaðarvöru. Því miður eru þeir það fyrir suma. En það eru til t.d. bílategundir sem útilokað er annað en kalla lúxus. Ég held að ég þurfi ekki að rifja upp jeppaumræðuna sem varð hér í sumar. Þarna er hægt frekar að sækja fé heldur en í skattlagningu á nauðþurftir.
    Matarskatturinn hefur verið mikið eitur í beinum okkar kvennalistakvenna og við mótmæltum harðlega þegar hann var tekinn upp og ég vona að það sé fólki enn í minni vegna þess að þar var barátta sem því miður bar ekki árangur að svo stöddu. Núna er hins vegar ljóst að það er ekki mjög mikið fé sem verður lagt til þess að bæta hag launafólks og það er því brýnt, og brýnna en nokkru sinni fyrr, að þeim peningum verði mjög vel varið og það verður að líta mjög skýrt á það dæmi og taka allar ábendingar inn í reikninginn. Því miður fáum við þetta frv. á okkar borð bæði seint og án þeirra skýringa sem nauðsynlegar eru, án útreiknaðra dæma sem við þyrftum að hafa. Við vitum að við höfum fengið misvísandi upplýsingar um það hvað mundi gagnast launafólki best. Helst vildi ég sjá þennan matarskatt á núlli og það strax og ég held að það mundi spara býsna mikið í útgjöldum bæði við innheimtu skattsins og auðvitað og ekki síður það sem mikilvægast er hjá útgjöldum fjölskyldna.
    Það kemur fram í skýringum með þessu frv. að matvara er að jafnaði fimmtungur útgjalda barnafjölskyldna og þar er þá verið að tala um meðaltal. Fyrir láglaunafjölskyldur með börn er þetta hlutfall miklu hærra þannig að vissulega er mjög mikilvægt fyrir þessar fjölskyldur að lækka matarskatt en spurningin er: Hvernig kemur þetta út varðandi önnur kjör? Hvernig kemur þetta út hjá barnmörgum fjölskyldum, tiltölulega tekjulágum, sem samt sem áður eru með aukna skattbyrði? Ég bendi á það að útsvarið fer upp um leið og tekjuskattur fer niður og það eru vissulega álögur sem við verðum að líta á. Ég bendi líka á það að þetta kunna að vera sömu aðilar og aðrar álögur eru lagðar á eins og ríkisstjórnin hefur gert með þjónustugjöldum. Þannig er að þarna einfaldlega um mjög flókið dæmi að ræða og ég ætla mér ekki að halda því fram að það verði allt leyst með umfjöllun um þetta tiltekna frv. En ég vil benda á að þetta verður að skoða í heild.
    Þessi atriði er varða lífskjör fólks finnst mér að skipti mestu máli er við ræðum um þetta frv. og alltaf þegar verið er að gera skattabreytingar.
    Næsta atriði sem þarf að athuga sérstaklega er að greina á milli efnislegra breytinga eðlilegra lagfæringa þar sem beinlínis er hægt að tala um ákveðið réttlætismál. Þá vil ég sérstaklega benda á t.d. atriði sem kemur fram á 18. síðu í frv., í skýringum þar sem talað er um að réttur til vaxtabóta verði rýmkaður þannig að vaxtagjöld verði einnig greidd niður vegna lána sem veitt er í húsbréfakerfinu til endurbóta

á íbúðarhúsnæði. Þetta finnst mér út af fyrir sig líta út fyrir að vera bæði eðlileg og réttlát leiðrétting svo framarlega sem þetta þýðir ekki það að sama heildarupphæð fari í vaxtabætur og einhvers staðar verði að skera niður á móti, svo framarlega sem það er ekki svo. En ekki ef sú verður raunin, og því miður verður það stundum þannig að ef viðbótarhlutverki í ákveðnum málaflokki er velt yfir á t.d. málasvið ákveðins ráðherra, þá er ætlast til að það sé skorið niður annars staðar. Í sumum tilvikum er sjálfsagt hægt að gera það sársaukalítið, í öðrum tilfellum ekki. Og málaflokkar hæstv. félmrh. eru því miður þess eðlis að þar er ekki alltaf svigrúm og það varðar húsnæðismálin sérstaklega.
    Ég óttast það líka þegar verið er að reikna það að bótaþegum vaxtabóta fækki, eins og talað er um í skýringum við frv., því haldið fram að þarna sé aðeins um lækkun að ræða hjá þeim sem eru tekjuháir en ég óttast að þessar háu tekjur séu býsna lágar. Við höfum séð það áður í mati hæstv. ríkisstjórnar á því hvað séu háar tekjur og lágar, hverjir þurfi minna á stuðningi að halda en áður eða séu jafnvel aflögufærir. En ég var að taka það fram að það þyrfti að gera greinarmun á endurbótum á vaxtabótakerfinu og svo hins vegar þessu eilífa hringli sem er bæði ómarkvisst og dýrt og á stundum veitir það fólki lítið öryggi í áætlunum sínum. Og það er býsna alvarlegt þegar fólk er að gera eftir bestu vitund áætlanir sem eiga að standast, fjárhagsáætlanir hugsanlega langt fram í tímann. Við vitum alveg hvernig það er þegar ungt fólk er að koma sér þaki yfir höfuðið að það má lítið út af bera til þess að í alvarlegan vanda sé komið og við sjáum það vel á því hlutverki sem sífellt er að verða ríkara hjá húsnæðislánakerfinu að það þarf að veita fyrirgreiðslu og lán vegna þess að áætlanir fyrri tíma hafa ekki staðist. Vissulega er ekki hægt að sýkna lántakendur í þessu. En í sumum tilvikum er hreinlega búið að riðla svo áætlunum fólks að það getur ekki, þótt það fegið vildi og þótt það hafi lagt með tiltölulega ábyrga hugsun af stað út í svo mikla fjárfestingu sem öflun húsnæðis er, það getur ekki í raun staðið við áætlanir vegna hringlandaháttar og breytinga og breyttra aðstæðna, ekki síst í húsnæðislánakerfinu.
    Þegar þar við bætist, eins og hv. seinasti ræðumaður benti á og hv. 18. þm. Reykv. fyrr í sinni ræðu, að námslánakerfð muni í framtíðinni kalla á það að ungt fólk sem nýsloppið er úr námi verður að afla sér býsna mikilla tekna bara til þess að skrimta og geta staðið í skilum, þá sé ég einfaldlega ekki hvernig þetta mál er hugsað. Og með þeim samdrætti sem orðið hefur í vinnu --- sem út af fyrir sig væri ágætt mál ef fólk gæti framfleytt sér á dagvinnunni tómri --- þá sé ég ekki annað en að það sverfi að hjá sífellt fleirum. Enda er það núna fyrir jólin mjög augljóst og verður kannski sýnilegra en á mörgum árstímanum öðrum að það eru afskaplega margir hér á landi sem þurfa að leita á náðir Hjálparstofnunar kirkjunnar t.d., mæðrastyrksnefndar og fleiri aðila sem hingað til hafa fyrst og fremst sinnt neyðarhjálp. Það er jafnvel farið að tala um að þarna sé fjöldi á borð við það sem var mörgum áratugum fyrr hér á landi. Þetta finnst mér full ástæða til að taka inn í umræðuna þar sem hér er verið að gera breytingar enn og aftur á skattkerfinu. Það er verið að sauma að fólki, kannski ekkert óskaplega mikið í hverju máli fyrir sig. Þessar tölur láta ekki mikið yfir sér sem við sjáum hér, en samanlagt --- fyrir fólk sem á nú þegar ekkert til skiptanna --- getur þetta skipt sköpum um það hvort fólk hefur möguleika á því að framfleyta sér og sínum með fullri reisn. Og þá er ég að tala um fjölskyldur þar sem hjónin eru yfirleitt bæði fullvinnandi, hafa haft möguleika á því að afla sér húsnæðis ef við tökum hópinn sem fær vaxtabæturnar, og svo hins vegar þennan stóra hóp sem hefur þó einhverjar tekjur, kannski annar aðili af tveimur fyrirvinnum, ef þeim er til að dreifa, sem er gert að taka auknar álögur. Hækkun skatta ætti auðvitað að velta á hátekjufólkið en ekki þá sem lágar tekjur hafa.
    Hæstv. fjmrh. svaraði hér og var nokkuð ánægður með stöðuna og það hvað ætti að gera varðandi skattsvik. Ég vona að það viti á gott og ég vona sannarlega að þessar aðgerðir sem hann gat um í andsvari sínu hér fyrr í dag muni virka, að það sé bæði virkara eftirlit með almennum skattframtölum og eins að það verði tekið sérstaklega á þeim, ekki síst þeirri þjónustustarfsemi sem sérstaklega er talað um í þeirri skýrslu sem kom út núna á þessu ári um umfang skattsvika og tillögur um aðgerðir gegn þeim. En við höfum því miður mjög oft heyrt þessi loforð án þess að það hafi orðið mikið um efndir og virðist vera tvennu um að kenna. Í fyrsta lagi er hugarfar fólks hér á landi kannski með nokkuð öðrum hætti heldur en gerist í a.m.k. sumum nágrannalanda okkar. Það þykir ekki svo óskaplega alvarlegt að svíkja undan skatti. En þeir sem svíkja undan skatti eru ómagar á framfæri annarra í samfélaginu og ekkert annað þannig að ég held að það væri full ástæða til þess að fara að líta á hvort ekki væri hægt með áróðri og slíku að taka á þessum þætti með hugarfarið. Hins vegar finnst mér skorta á framkvæmd, mér finnst skorta á getu, held ég --- frekar en vilja --- kerfisins til að taka á augljósu misræmi milli eyðslu og tekna. Og mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna ekki er hægt að gera þetta. Ég held að við stæðum ekki frammi fyrir því að vera að hækka tekjuskatt þegar við ættum að vera að lækka hann og að vera að möndla með það hvort matvörur beri hærri eða lægri skatt, nauðþurftir okkar. Ég held að við værum einfaldlega að tala um það að við hefðum efni á því að hafa eins og í mörgum öðrum Evrópulöndum skattfríar nauðþurftir ef það væri betri skattheimta í samfélaginu. Og ég held að þrátt fyrir þá upptalningu sem við heyrðum frá hæstv. fjmrh. í dag, þá getum við ekki varpað ábyrgðinni frá ráðuneytinu og sagt: Það er verið að vinna að þessu, heldur þurfi að líta á þetta sem verkefni sem ætlað er að skili ákveðnum tekjum rétt eins og einstökum ráðherrum er gert að halda sig innan ákveðins ramma og afla ákveðinna sértekna. Þá er kannski verið að gera stofnunum sem hafa ekki nokkurn möguleika á því að afla sér tekna að ná þeim inn. Ég er ekki segja að við eigum að setja það á skattheimtu að þeir afli ákveðinnar prósentu sem einhvers konar sértekna því að

auðvitað eru þetta bara tekjur sem eiga að skila sér í ríkissjóð og það má ekki misskilja orð mín svo að ég vilji líkja þessu saman. En ég vil að það sé gerð sú krafa og sett ákveðið markmið og reynt að standa við það til þess að eitthvað fari að gerast. Ég segi þetta vegna þess að við fengum í hendurnar skýrslu um umfang skattsvika að ég held 1986. Síðan eru 7 ár. Í skýrslunni voru margar alveg ljómandi góðar ábendingar. Það hefur lítið miðað, allt of lítið, og ég vona það sannarlega að þær aðgerðir og sá vilji sem hæstv. fjmrh. lýsti hér í andsvari sínu í dag muni leiða til ákveðinna aðgerða og muni leiða til ákveðins árangurs því annars munum við standa í því að vera að rukka lágtekjufólk og millitekjufólk sem er ekki of sælt af sínum launum um þann skerf sem aðrir sleppa við að borga til samfélagsins.
    Ég get ekki lokið máli mínu hér svo, hæstv. forseti, að ég víki ekki aðeins að einu máli enn en það er almennt það sem fram undan er og kannski getur breytt skattheimtudæminu, en það eru aukatekjur ríkissjóðs. Þar kennir margra grasa og ég ætla svo sem ekki að fara að hleypa þeirri umræðu af stað núna en ég held að það væri víða hægt að gera betur við það að auka tekjur ríkissjóðs. Ég nefni þar sérstaklega t.d. vínveitingaleyfi sem hægt er að fá fyrir lítið fé, bæði langtíma- og skammtímaleyfi, og eins er fleira þarna sem virðist hafa sloppið við eðlilega skattheimtu á meðan aðrir þurfa að borga, eins og foreldrar sem eru að borga fyrir ökupróf barnanna sinna, því sjaldan geta 17 ára unglingar staðið undir þeim kostnaði sjálfir. Þarna er verið að sækja fé. En svo eru kannski veitingastaðir sem velta býsna miklu sem hægt er að setja á laggirnar án þess að þurfa að leggja svo mikið til og ég ætla ekki að hætta mér út í umræðu um feril sumra þeirra veitingastaða.