Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:32:11 (2041)


[17:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er í annað sinn sem hv. þm. úr röðum Kvennalistans kemur hér í þessari umræðu og ræðir um skattsvik sem stórfellt vandamál og ég vil taka undir það. En ég vil enn á ný segja að aldrei fyrr hefur verið tekið jafnfast á skattsvikum og einmitt nú í tíð þessarar ríkisstjórnar. Og ég vil minna á að sú skattsvikaskýrsla sem vitnað er til var unnin undir forustu ráðuneytisins og menn mega ekki misskilja niðurstöður þessarar skýrslu vegna þess að það er útilokað í þjóðfélagi eins og íslenska þjóðfélaginu að koma í veg fyrir öll skattsvik, þó auðvitað megi koma í veg fyrir talsverðan hluta þeirra.
    Það er alveg hárrétt sem hv. þm. sagði að það er óheppilegt, líka fyrir skattsvikin í þjóðfélaginu, þegar skattalög taka sífelldum breytingum. Ég er fyllilega sammála því. En ég bendi á að við erfið efnahagsskilyrði neyðast stjórnvöld oft til þess að gera breytingar á skattalögum til þess að færa til peninga í þjóðfélaginu í því skyni að halda vinnufrið og stöðugleika, því að þá er ekki til að dreifa fjármunum sem hægt er að láta renna frá atvinnurekstri og til launþega. Við slík skilyrði, ekki einungis nú heldur oft áður, hefur þurft að koma til kasta stjórnvalda til að breyta skattalögum og ná fram mikilvægum markmiðum í þjóðfélaginu.
    Ég þakka hv. þm. fyrir ábendinguna varðandi aukatekjur ríkissjóðs og vínveitingaleyfin, en einmitt það er dæmi, sem nefnt er í skattsvikaskýrslunni, að er erfitt viðureignar því þarna eru skattsvikin m.a. mest og mjög erfitt að fylgjast með. Það mætti þess vegna búast við að hærri aukatekjur vegna vínveitingaleyfa mundu færa meira af starfseminni undir yfirborðið, svo ég nefni eitt gott dæmi um það hvaða starfsemi það er sem er undir yfirborðinu og er kölluð ,,svört atvinnustarfsemi``.