Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:34:06 (2042)


[17:34]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þetta síðastnefnda, þau vínveitingaleyfi sem ég var að ræða. Það er annars vegar það leyfi sem þarf til þess að geta komið vínveitingastað á laggirnar. Ég vil viðra það hér að ég tel að það gæti líka orðið hemill á að sumir þeir veitingastaðir sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur og því miður skilið eftir sig slóða, bæði af óuppgerðum launaskuldum og ýmsu öðru sem sumt hefur kannski verið undir yfirborðinu og annað er þekkt, m.a. hjá stéttarfélögum, þeim sem eiga við. Ég held að það gæti orðið ákveðinn hemill á að sífellt væri hægt að stofna nýtt og nýtt fyrirtæki þar, ef það væru hærri gjöld sem væru lögð á þá sem voru að hefja veitingarekstur og það væru kannski þar ákveðnar bremsur á að sumir þeirra sem mest hafa gert út á ,,svarta atvinnustarfsemi`` í þessum bransa færu af stað.
    Ég tek hins vegar heils hugar undir með hæstv. ráðherra að þarna er um mjög erfitt mál að ræða en að mínu mati engan veginn óleysanlegt og þessi glíma --- ég óska ráðuneytinu góðs gengis í þeirri glímu.