Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:39:47 (2045)


[17:39]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég bað um orðið þegar ég sá að hæstv. samgrh. var kominn í salinn af því að ég benti á það fyrr í dag að ég teldi að það væri nauðsynlegt að hann væri hér og segði frá sinni afstöðu til þessa máls. Er hann ekki enn þá viðstaddur?
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill nú láta rannsaka hvort hæstv. samgrh. sé kominn í þinghúsið. --- Hæstv. samgrh. er kominn í þingsalinn.)
    Það hefur komið fram í þessum umræðum í dag að skattlagning á ferðaþjónustu og samgöngur er mjög veigamikill þáttur í þessu frv. Því tel ég nauðsynlegt að hæstv. samgrh. komi hér og skýri sitt viðhorf til þessara atriða, þar sem þetta er mjög þýðingarmikið, ekki aðeins fyrir þennan atvinnuveg heldur landsbyggðina, eins og kallað er, og þjóðfélagið í heild. Ég vitnaði í það hér áðan að hæstv. ráðherra hefði lýst því yfir í upphafi þessa árs að það væri ótækt að hækka álögur á ferðaþjónustu og stjórnvöld yrðu að taka egypsk yfirvöld sér til fyrirmyndar og styðja greinina, t.d. með skattaívilnunum. En hér er verið að ganga í þveröfuga átt og því er það spurningin: Telur ríkisstjórnin að íslensk ferðaþjónusta geti ekki lengur tekið þátt í samkeppni á þessu sviði og aukið og eflt starfsemi sína? Ég ætla ekki að tefja tímann á að endurtaka það sem ég sagði í minni fyrri ræðu, en benda á að Svíar lögðu virðisaukaskatt á ferðaþjónustu fyrir fáum árum og þá hrapaði þessi atvinnugrein svo ótrúlega mikið niður þar að þeir sáu að þetta stefndi í hreinar ógöngur og reyndu að snúa við blaðinu. En að sjálfsögðu verður það ekki gert í einu að byggja upp það sem búið er að brjóta niður.
    Í 28. gr. frv. er gert ráð fyrir því að veitingasala fái endurgreiðslu sem nemur 93,75% af þeim innskatti sem hún greiðir af matvælum. Með þessu móti á að koma til móts við það að á veitinga- og gistihúsum er 24,5% virðisaukaskattur en aðeins 14% á tilbúnum mat út úr verslunum. En að mati sérfræðinga sem samtök veitinga- og gisthúsaeigenda hafa látið athuga þetta þá munar miklu að þetta jafni þennan mun og þannig er um fjölmörg fleiri atriði í þessu frv.
    Það hefur verið rækilega undirstrikað hér af mörgum að virðisaukaskatturinn á ferðalög er hreinn landsbyggðarskattur. Hann bitnar langþyngst á þeim sem þurfa að sækja sína þjónustu hingað til Reykjavíkur og er því ranglátur. Söluskattinum gamla var breytt í flugvallargjald á sínum tíma þar sem allir greiddu jafnt, en spurningin er þá þessi: Nú þegar virðisaukaskattur er settur á ferðaþjónustuna á þá að afnema flugvallargjaldið innan lands til þess að draga þó aðeins þar úr?
    Ég fékk ekki svar frá hæstv. fjmrh. við því hvort í þessu frv. felst að framlög til flóabáta verði skattlögð með virðisaukaskatti. Það virðist vera eftir orðanna hljóðan að svo sé og ég fékk heldur ekki svar við því hvort það væri þá gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. Ég trúi ekki öðru en hæstv. samgrh. finnist það

ósanngjarnt ef á að skattleggja Grímseyinga og Vestmanneyinga þannig sérstaklega og því gangi ekki þessi stefna sem er í frv.