Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:48:42 (2047)


[17:48]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirlýsingar hans um það að skattlagningar séu of háar á atvinnurekstur og þeim mun fráleitara er þá að vera að hækka þær. Við vitum að hver ferðamaður sem kemur til landsins skapar vinnu vegna fjölþættrar þjónustu hér á landi, þannig að það er fátt sem er fljótvirkara til þess að draga úr atvinnuleysi heldur en ef hægt er að fá fleiri ferðamenn til að koma hingað. Og við sjáum hve gífurleg áhrif það hefði, t.d. á afkomu ríkissjóðs beint, ef þarna væri eitthvað hægt að gera, þar sem nýlega er búið að draga það fram að greiðslur ríkissjóðs vegna atvinnuleysisins, beinar greiðslur, muni það sem af er valdatíma þessarar ríkisstjórnar fara að nálgast 20 milljarða. Þannig að það er auðvitað fátt sem væri betra til þess að bæta hag ríkissjóðs, heldur en að fá eitthvað fleiri ferðamenn hingað, sem allir telja að eigi að vera grundvöllur fyrir, þar sem gert er ráð fyrir því að á ótrúlega skömmum tíma muni ferðamennska í heiminum allt að því tvöfaldast. Því þyrftum við ekki að fá nema örlítið brot af þeim fjölda til þess að eyða öllu atvinnuleysi á Íslandi.