Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 17:53:25 (2049)


[17:53]
     Jón Helgason (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ég var ekki að ræða um það að lækka skatta. Ég var að tala um það að hækka ekki skatta á ferðaþjónustu og það er tvennt ólíkt. En ég var einmitt að benda á hvaða afleiðingar það hefur þegar þjóðarframleiðslan dregst saman. Það eru þessir milljarðatugir sem fara í atvinnuleysisbætur, vegna þess að fólkið vantar vinnu, fyrir utan allt annað tjón og margfalt tjón sem af því er. Og því væri það svo skaðlegt og bara til þess að margfalda vandann að leggja á skatta. Og það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra að það sé allt í góðu gengi bara ef ekki eru hækkaðir skattar á millilandafluginu. En það fer að sjálfsögðu eftir kostnaði á þjónustunni innan lands hvort ferðamenn koma eða ekki, og vera afgerandi um samkeppnisstöðu okkar á því sviði. Ég nefndi það hér áðan, í fyrri ræðu minni, að skattlagningin á gistingu veldur 7,2% hækkun á þeirri starfsemi hjá gistihúsum sem þetta var skoðað, miðað við árið 1991. Það er þetta sem ég er að gagnrýna og það er þessi stefna sem veldur þeim vandræðum sem þjóðin er að lenda í, stefna hæstv. núv. ríkisstjórnar.