Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 18:42:51 (2066)

[18:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka nú fyrir að þeir ráðherrar sem óskað var eftir að sérstaklega kæmu hér til umræðunnar hafa gert það og ég ætla að byrja á því að beina máli mínu til hæstv. samgrh. og óska eftir því að honum verði gert aðvart þannig að hann geti komið í þingsalinn, ef forseti mundi e.t.v. stöðva klukkuna á meðan svo að ég gangi ekki um of á tíma minn meðan við bíðum eftir hæstv. samgrh. --- Getur hæstv. forseti veitt einhverjar upplýsingar um það hvað . . .
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. samgrh. er að koma.)
    Hann er að koma, þá ætla ég að hinkra þangað til hæstv. ráðherra kemur.
    ( Forseti (SalÞ): Það líður vonandi ekki á löngu áður en hæstv. ráðherra birtist í salnum.)
    Við erum þolinmóð.
     (Forseti (SalÞ): Hv. þm. er heimilt að flytja einhvern annan kafla ræðu sinnar ef hann vill nota tímann.)
    Ef það er löng stund í það, þá gæti ég gert það, beint máli mínu til félmrh. En ég ætlaði reyndar að byrja á þessu í þessari röð, en ( Félmrh.: Byrjaðu bara á mér.) Já, hæstv. félmrh. er sólginn í það að orðum sé beint til hennar og þá er sjálfsagt að verða við því. Reyndar hafa nú aðrir gert það líka í sambandi við vaxtabæturnar.
    Það sem ég ætlaði sérstaklega að inna eftir er viðhorf hæstv. félmrh. til framkvæmdar á vaxtabótunum, sem blasir við okkur á næsta ári, þeirrar skerðingar upp á 400 millj. kr. sem er að verulegu leyti

flöt eins og þetta var útfært á fyrra ári. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það fyrirkomulag sem frv. nú boðar fyrir árið 1995 af þeim augljósu ástæðum að það er tími til stefnu til að skoða þau mál og hugleiða hvernig því yrði best varið en hitt blasir við okkur, þessi skerðing vaxtabótanna nú í hönd farandi ári og ég hlýt að taka það svo að ekkert hefur af þessu máli heyrst annað en það sem fram kemur í frv. að niðurstaða hæstv. félmrh. í því sé engin að ná að einhverju leyti til baka þessari skerðingu á vaxtabótunum. Hæstv. ráðherra hefur gefið það í skyn með yfirlýsingum á undanförnum mánuðum að þetta sé í skoðun og athugun og hún lét á sér skilja trekk í tekk að þessi skerðing vaxtabóta upp á 400 millj. kr. væri ekki endilega endanleg niðurstaða hér á síðasta ári. Þessi staða er auðvitað alveg hörmuleg hjá hæstv. ráðherra sem eins og kunnugt er var hér á árum áður margbúin að lofa því og sverja að aldrei kæmi til þess að vaxtabætur yrðu skertar. Ég tel einnig að það sé óhjákvæmilegt að skoða þessa skerðingu vaxtabótanna í ljósi þess að tekjur hafa fallið í landinu og greiðslubyrði af lánum er því augljóslega hlutfallslega þyngri miðað við laun en hún var þegar til skuldbindinganna var stofnað fyrir kannski einhverjum árum síðan. Og hið svokallaða greiðslumat sem menn gengu í gegnum þá er auðvitað markleysa í dag þegar hvort tveggja gerist að kaupmáttur fellur með þeim hætti sem raun ber vitni og vaxtabætur eru svo skertar ofan í kaupið af hálfu ríkisstjórnar. Þetta er frammistaða sem er slík hörmung fyrir hæstv. félmrh. sem hefur oft gefið sig út fyrir að vera sérstakan vaktmann í þessu sambandi að um það er tæplega hægt að hafa orð.
    Hér hefur einnig verið spurt um það hvað standi til af hálfu hæstv. félmrh. varðandi þann mun sem upp er kominn í húsnæðislánakerfinu með lækkun vaxta á húsbréfum sem áður voru með 6% vexti og gengu á markaði með miklum afföllum og svo aftur þau viðskipti sem nú eiga sér stað. Þarna er alveg augljóslega verið að stofna til nýs misgengishóps, þeirra sem bera hærri vextina og tóku á sig afföllin á sínum tíma og sitja uppi með þau óbætt og þeirra sem fá svo þessi kjör núna.
    Í öðru lagi er það þannig, hæstv. forseti, að það er eðlilegt að beina orðum til hæstv. félmrh. úr því að hér eru ekki aðrir hæstv. ráðherrar Alþfl. staddir. Varðandi frammistöðu Alþfl. í þessum skattamálum og þá á maður auðvitað við ekki síst þær rýtingsstungur í bak verkalýðshreyfingarinnar sem Alþfl. reyndi að reka núna í haust hafandi átt þátt því að gera verkalýðshreyfingunni tilboð um að kjarasamningar yrðu gerðir og innleg í þá samningagjörð yrði lækkun virðisaukaskatts á matvæli og lægra skattþrep þar. Síðan eftir að samningarnir höfðu verið endurnýjaðir gengu þeir af göflunum hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh. og sökuðu forustu verkalýðshreyfingarinnar um það að velja þarna verri kostinn og bera hagsmuni sinna umbjóðenda fyrir borð í reynd með því að halda við þann samning sem gerður hafði verið á grundvelli tilboðs frá ríkisstjórninni. Þetta er einhver allra óheiðarlegasta og lélegasta framkoma sem maður hefur lengi séð í samskiptum af þessu tagi og er þá langt til jafnað þegar Alþfl. á í hlut því að eins og kunnugt er hefur honum ekki verið margt heilagt af þessu tagi.
    Um virðisaukaskatt í tveimur skattþrepum sem hér hefur nokkuð verið nefndur þá vil ég eingöngu segja það að að sjálfsögðu ber að hlusta á rök þeirra sem við skattaeftirlit starfa og ég er jafntilbúinn til þess og aðrir, enda tók ég fram að ég vildi fá að skoða það hvernig að þessu yrði staðið þannig að þetta gengi sem best, en ég bakka ekki með hitt að auðvitað er hægt að innheimta hér virðisaukaskatt í tveimur þrepum á Íslandi eins og í öðrum vestrænum ríkjum, eða hvað? Og ég segi: Menn eiga ekki að tala um þessi skattamál eins og þeir séu með fullkomið kerfi í höndunum þar sem ekki eigi sér stað neitt undanskot. Eða er það tilfellið? Það er að vísu þannig að Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh., hélt hér ræður á 9. áratugnum um það að virðisaukaskattskerfið væri fullkomið, 100%, og það yrði bara allt í himnaríki á jörð í skattamálum þegar það kæmi í einu þrepi eins og með EES og álverið og fleira sem allan vanda átti að leysa. En hvernig er staðan? Hvert er mat stjórnskipaðrar nefndar á því hvernig þetta hefur gengið? Það er að virðisaukaskattskerfið er míglekt og umfang skattsvikanna er síst minna í dag en það var fyrir daga virðisaukaskattskerfisins. Og eru það þá rök gegn breytingu af þessu tagi að það þurfi kannski að auka eftirlit með framkvæmdinni þegar kerfið lekur upp á marga milljara kr. Ég held ekki. Ég held að mönnum væri þá nær að reyna að glíma við það undanskot sem þarna á sér stað nú þegar og ég segi: Hvað með það þó að það þurfi að ráða 30 manns í skatteftirlit, ef þar eru á ferðinni upphæðir sem geta mælst í hálfum eða heilum milljörðum kr. sem hlut eiga? Eru menn þá ekki matvinnungar ef þeir ná að stöðva það undanskot, 30 manna eftirlitssveit? Staðreyndin er sú að að margra dómi er þetta einn auðveldasti hluti eftirlitsins. Það er vörusalan sem að verulegu leyti fer fram í stórmörkuðum og er þar á strimlamerktu kerfi í mörkuðunum og yfirgnæfandi meiri hluta veltunnar í matvöruviðskiptunum er hægt að kontrólera með eftirliti í gegnum það ef menn setja í það mannskap og sá mannskapur getur jafnframt haft eftirlit með öðrum þáttum framkvæmda í skattamálum þannig að hann getur skilað árangri líka til viðbótar því að hafa eftirlit sem tengist tveimur skattþrepum virðisaukaskatti.
    Þá er ég kominn að hæstv. samgrh. Það er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. samgrh. ræði efnislega en fari ekki út í sjóðasukk fyrr á öldinni og annað því um líkt í svörum sínum við þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fyrir hann, t.d. um afkomu innanlandsflugsins og upptöku virðisaukaskatts. Veit hæstv. samgrh. að flugfargjaldið til Vopnafjarðar fer yfir 20 þús. kr. ef virðisaukaskattur upp á 8--9% nettó, þegar inn- og útskattur hafa verið jafnaðir, bætist við um áramótin? Veit hæstv. samgrh. þetta? Telur hann það þolandi ástand fyrir íbúa slíks byggðarlags, sem eru nauðbeygðir að nota sér flugið af ýmsum ástæðum, þeir sem ekki eiga bíl, þeir sem þurfa að leita sér lækninga o.s.frv. Telur hann það innlegg í byggðamálin að

sveitarfélög og aðrir sem þurfa að kosta ferðalög manna, starfsmanna sinna og ýmissa sérfræðinga þurfi að borga slíka skatta? Veit hæstv. samgrh. hvaða áhrif þetta hefur t.d. á möguleika ferðaþjónustunnar í mörgum byggðarlögum, sem hafa verið að byggja hana upp á undanförnum árum, eins og Hornafirði sem er mjög háður fluginu um að flytja ferðalangana til og frá svæðinu. Eða þess vegna Norðurland og Þingeyjarsýslu.
    Hæstv. samgrh. stóð uppi í efri deild vorið 1991 og stöðvaði þá á síðasta stigi frv. til laga um heildarendurskoðun laga um skipan ferðamála. Með hvaða rökum? Með þeim rökum að það væri ekki nóg að gert til að bæta starfskjör og samkeppnisskilyrði ferðaþjónustunnar. Hvar er árangur hæstv. núv. samgrh.? Felst hann í upptöku virðisaukaskatts sem veldur t.d. 8--9% kostnaðarauka í innanlandsflugi?
    Mér er sagt að hæstv. samgrh. hafi uppgötvað það, staddur í Jórdaníu, að þessi skattlagning á innlenda ferðaþjónustu gengi ekki upp. ( Samgrh.: Það var í Egyptalandi.) Var það í Egyptalandi? Sama hvort er. Þær fréttir bárust alla vega heim að einhvers staðar á ferðalagi sínu um Austurlönd hefði hæstv. samgrh. numið þennan vísdóm og komist að þeirri gáfulegu niðurstöðu að þetta gengi auðvitað ekki upp. En ég spyr auðvitað um niðurstöðuna, árangurinn. Er það bara þannig að hæstv. samgrh. ætli áfram að koma í þennan ræðustól og svara eins og hann gerði á dögunum að hann og hæstv. fjmrh. hefðu ekki náð samkomulagi og þess vegna væri ekkert hægt að gera í málinu? Það voru svör hæstv. ráðherra hér í fyrravetur þegar hann var spurður út í þessi efni.
    Ég tek undir það sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson sagði um íþróttahreyfinguna og mætti nefna fleiri slíka aðila sem verða auðvitað mjög harkalega fyrir barðinu á þessu. Síðast en ekki síst vil ég nefna það, að ég hef auðvitað þungar áhyggjur af rekstrarafkomu þeirra aðila sem sinna innanlandsflugi, svæðisflugfélaganna ekki síst sem sinna ómissandi hlutverki í öryggismálum, sjúkraflugi o.s.frv. Það má ekki gerast, hæstv. samgrh., fyrir aumingjaskap þeirra sem eiga að gæta hagsmuna þessarar greinar að þessi skattur, jafnvitlaus og ranglátur og hann er, verði lagður á.