Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:01:17 (2069)


[19:01]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af síðustu orðum hv. þm. um það að ég hefði sagt það hér þegar skerðing á vaxtabótum um 400 millj. var til umræðu fyrir ári síðan að ég ætlaði að hafa áhrif á breytingu í þá veru að það yrði minna sem mundi skerðast í krónum talið, þá er það rangt. Það eina sem ég hélt fram er að ég mundi hafa áhrif á það að útfærslan yrði með þeim hætti að hún mundi gagnast betur því fólk sem væri með lágar tekjur og meðaltekjur og það er það sem við erum að fjalla um hér. Og ég minni enn og aftur á að ríkisstjórnin er að koma til móts við það fólk sem hefur þurft að búa við mikið atvinnuleysi og auðvitað gagnast það líka fólki sem er með miklar skuldir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til til lækkunar vöxtum.