Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:02:13 (2070)

[19:02]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Ég vek athygli á því að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til enn þá í þeim efnum eru nú fyrst og fremst 1% lækkun vaxta við útgáfu húsbréfa. Það sem ríkisstjórnin hefur gert að öðru leyti í vaxtamálum stendur enn og er hækkun á vöxtum bæði í félagslega húsnæðiskerfinu og í Byggingarsjóði ríkisins því að eins og kunnugt er þá beitti þessi ríkisstjórn sér fyrir því að hækka vextina á grundvelli heimildar sem var í skuldabréfum allt aftur til ársins 1984. Sú vaxtahækkun stendur enn. Mér er ekki kunnugt um að því hafi verið breytt. Eru ekki vextirnir en í Byggingarsjóði ríkisins þau 4,9% sem hæstv. félmrh. hækkaði þá uppi í? Ég held að hæstv. ráðherra ætti að fara varlega í það að hæla ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar stórkostlega gagnvart því fólki sem erfiðast á varðandi greiðslubyrði af húsnæðislánum en það er það fólk sem hefur verið að koma yfir sig húsnæði nú sl. 10 ár eða svo. Það er auðvitað alveg augljóst mál.
    Ég vil svo jafnframt segja það um málflutning Alþfl. í þessum virðisaukaskattsmálum að menn geta haft viss rök fyrir sínu máli og komið þeim fram. En óheiðarleiki af því tagi sem Alþfl. sýndi í samskiptum við verkalýðshreyfinguna á þessu hausti er með eindæmum og ég held að menn hafi sjaldan launað jafnilla þá þolinmæði og í raun og veru ótrúlega þolinmæði sem verkalýðshreyfingin hefur sýnt þessari ríkisstjórn, m.a. með því að hafa ekki fyrir löngu skorið upp herör gegn henni almennt og reynt að koma henni frá því að þetta er auðvitað einhver versta ríkisstjórn sem við höfum setið uppi með um áratuga skeið og það á ekki síst við um framgöngu hennar í fjölmörgum málum gagnvart þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Nægir þar að nefna ýmiss konar skatta og skítaskatta og gjöld í heilbrigðismálum, menntamálum og víðar. Og það gerir hlut hæstv. félmrh. ekkert merkilegri þó að hún hafi af og til hótað því, hæstv. félmrh., að ganga út úr þessari stjórn en sýnir svo ekkert fararsnið á sér þegar á hólminn er komið, ekki nú frekar en venjulega.