Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:28:48 (2077)


[19:28]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil hér í lok umræðnanna gera tilraun til þess að svara nokkrum fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint og fjalla örlítið um nokkur mál sem ræðumönnum hafa verið hugleikin við þessa umræðu. Fyrst vil ég beina máli mínu til hv. þm. vegna ræðu hv. 18. þm. Reykv. sem sagði réttilega að skattalækkun sú sem nú ætti sér stað væri í raun og veru ávísun á framtíðina. Mig langar til þess að koma að því máli, gæti reyndar gert það nú strax, en hv. þm. Jóhannes Geir benti nefnilega jafnframt á það að bilið milli gjalda og tekna væri mjög mikið.
    Nú er það ekki rétt að bilið sé að vaxa. Bilið var mjög mikið árið 1991 og dróst mikið saman 1992, er heldur meira í ár en þó stefnir ekki í það að vera eins mikið og 1991 og vonandi tekst okkur sæmilega til á næsta ári, enda er að því stefnt. Þetta er hins vegar alveg rétt og kannski hafa allt of fáir ræðumenn og við allt of sjaldan rætt um það hve hættulegt það er að bil myndist milli gjalda og tekna þegar gjöldin eru hærri en tekjurnar.
    Ég ætla ekkert að afsaka það hér og nú að þetta hefur gerst hér á landi. Það er auðvitað alvarlegt því að skuldir safnast upp og af skuldum þarf að greiða vexti og vextir eru ríkisútgjöld sem gera það enn erfiðara í framtíðinni að brúa þetta bil eins og allir hljóta að sjá. Hitt er svo annað mál að þetta er alþjóðlegt vandamál og einmitt núna um helgina kom út ritið Economist og þar var fjallað um þessi mál, hvernig þau standa innan Evrópubandalagsins. Og svo að ég vitni til tímaritsins, þá kemur í ljós að halli á ríkisfjármálum þessara landa að meðaltali, Evrópubandalagslandanna, hefur breyst frá 3% af vergri landsframleiðslu árið 1989 í 7% á þessu ári. Ég nefni þetta til sögunnar því að halli hér á landi hefur tiltölulega lítið vaxið ef nokkuð, jafnvel dregist saman þrátt fyrir mikla efnahagserfiðleika hér á landi. Ég nefni þetta til sögunnar hér vegna þess að þetta er talið okkur til sérstaks gildis þegar verið er að meta lánshæfni Íslendinga, að okkur hefur tekist betur en nágrannaþjóðunum að þessu leytinu til.
    Ég nefni í þessu sambandi að á yfirstandandi fjárlagaári eru Svíar að fást við fjárlagahalla upp á 15% af vergri landsframleiðslu. Ég bendi mönnum á að landsframleiðslan hér á landi er um 400 milljarðar. Þetta eru margir tugir milljarða sem þeir eru að fást við á íslenskan mælikvarða og 7% eins og er að meðaltali í Evrópubandalagslöndunum þýðir að það eru tæplega 30 milljarðar á íslenskan mælikvarða. Við erum þó að berjast við þetta einhvers staðar í kringum 10 milljarðana eins og menn vita. Þetta segi ég hér til þess að sýna að þetta er ekki séríslenskt vandamál sem við erum að fást við. Þetta er vandamál sem Evrópuþjóðirnar þurfa að glíma við og er ekkert léttara fyrir það, en sýnir að við erum ekki ein á báti.
    Ég er ekki með þessu að víkjast undan ábyrgð í þessu máli og ég tel það sjálfsagt að hv. þm. beini einmitt spjótum sínum að þessu. En þá verða menn líka að taka afleiðingunum. Og hverjar eru þær? Þær hljóta að vera þær að hjálpa til við að draga úr ríkisútgjöldunum. Það er það sem þjóðirnar hafa verið að reyna að gera sem bestum árangri hafa náð. Um þetta snýst þetta mál. Og ég vek athygli á þessu að þessu gefna tilefni en vil jafnframt viðurkenna það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og fyrir mína hönd að með því að skilja eftir útgjöld umfram tekjur erum við að ávísa vandanum fram í tímann. Sá er þó kosturinn hjá okkur nú að við eigum verulega möguleika á að bæta þetta upp síðar vegna þess að það er gert ráð fyrir því að veltusamdráttur hér af efnahagsástæðum sé mjög mikill. Ég get nefnt í því sambandi að ef við nytum lífskjaranna, nytum þeirra kjara sem við höfðum 1991, þá mundi skattkerfið á næsta ári gefa líklega 7 milljörðum meiri tekjur en við getum gert ráð fyrir. Þannig að bara af efnahagslegum ástæðum, bara af hagrænum ástæðum gætum við gert ráð fyrir 7 milljarða kr. bata. En það nægir ekki til að brúa bilið. En þegar við berum þetta þó saman við það sem er að gerast í nágrannalöndunum og í Evrópulöndunum, þá segir í þessu sama riti sem býr yfir ágætum fróðleik og upplýsingum að einungis þriðjungur af hallanum í Evrópubandalagsríkjunum sé af hagrænum toga. Hinn hlutinn er fyrst og fremst ,,strúktúr``-vandi, þ.e. kerfislægur vandi sem menn hafa komið sér upp. Á þetta vil ég benda því að þrátt fyrir allt stöndum við heldur betur hér á landi en víða annars staðar þó við þurfum að gera betur. Það sem er að hjá okkur kannski fyrst og fremst er að erlend lántaka er talsverð og talsvert meiri en víðast annars staðar. Þó er svo komið í íslensku þjóðfélagi nú að erlendar skuldir þjóðarbúsins munu samkvæmt spám ekki vaxa að raungildi á næsta ári, nettó erlend lán, þegar búið er að draga frá gjaldeyrisvarasjóðinn og eignir Íslendinga erlendis. Þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli og sýna að við höfum náð árangri. En það breytir ekki því að ríkið heldur áfram að skulda og auka skuldir sínar.
    Það hefur nokkuð verið rætt hérna um skatteftirlit og til mín var beint spurningum um það mál, hvort það stæði til að ráða 26--28 starfsmenn vegna kerfisbreytinganna. Ég vil svara því til að þetta mál er í sérstakri skoðun. Ég á ekki von á því að það verði ráðnir svo margir menn, en það verða án efa ráðnir nokkrir menn til viðbótar og fjmrn. mun taka það mál upp við fjárln. nú þegar ljóst er hvaða kerfi á að taka upp í þessum málum. Þetta var ekki í fjárlagafrv. Það var ekki gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrv. en

ég gerði sérstaklega grein fyrir þessu í minni framsöguræðu.
    Hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, spurði að því hvort skattsvik mundu aukast um 500 millj. eins og hann hafði heyrt og séð hugmyndir um, m.a. frá opinberum aðilum. Af því tilefni vil ég aðeins segja þetta: Það er eingöngu mat sem menn verða að leggja til grundvallar þegar menn telja að skattsvik aukist um tiltekna upphæð. Það sem er hins vegar rétt og við vitum af erlendri reynslu er að það eru meiri líkur fyrir því að skattsvik geti átt sér stað ef í sömu verslunum og sömu fyrirtækjum er verið að selja vörur og þjónustu sem bera tvö eða jafnvel þrjú stig í skatti Þetta vita allir. En matið á því hvort það eru 500 millj., 100 millj. eða milljarður er persónulegt mat hvers og eins að sjálfsögðu.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um 16. gr. þess frv. sem við erum að ræða. Af því tilefni vil ég segja þetta: Hér er um það að ræða að það sé jafnræði á milli opinberra aðila og einkaaðila, það sé jafnræði á milli þeirra sem njóta styrks frá opinberum aðilum og hinna. Það er engin ákvörðun í þessu frv. tekin um það hver á endanlega að greiða þennan mun. Og þegar nefndar eru til sögunnar ferjurnar, þá veit hver einasti Íslendingur að það er ríkissjóður sem auðvitað ber kostnaðinn af ferjunum og hefur gert að langsamlega stærstum hluta. Það var ekki núv. ríkisstjórn sem álpaðist út í ferjukaup sem voru kannski allt of dýr heldur geta sumir menn sem hafa verið spyrja hér litið í eigin barm þegar um þau mál er talað.
    Það er hins vegar eitt vandamál sem kemur upp sem er til skoðunar í þessu efni þegar við tökum upp skatta á fólksflutninga, hvort sem það er á legi, láði eða lofti, þá kemur upp sá vandi hvernig skattleggja skuli t.d. fólksbifreiðar um borð í ferjunum og í hvaða þrepi það eigi að vera því að auðvitað eru vöruflutningarnir skattlagðir 24,5%. Það vita allir. Það var líka í tíð síðustu ríkisstjórnar. En það hefur verið um það rætt að ef bifreiðar eiga að koma inn með farþega, þá sé jafnvel spurning hvort ekki eigi að hafa þær bifreiðar líka í sama skattflokki og fólkið sem í þeim er eða 14% flokknum. Þessi mál þarf auðvitað að taka fyrir og skoða vandlega í nefndinni, en menn verða að horfa á alla myndina. Það er ekki eingöngu verið að tala um flugið. Það er verið að tala um fólksflutninga í ferjum, það er verið að tala um fólksflutninga á landi. Það er verið að víkka og breikka þennan stofn.
    Það hefur verið nokkuð minnst hér á grein Indriða H. Þorlákssonar og það er margt gott í þeirri grein að sjálfsögðu, enda er ekkert nema gott um hana að segja. Ég vek athygli á því að þetta er sá sami Indriði H. Þorláksson sem er formaður þeirrar nefndar sem nú er að endurskoða skattalög og reglur um skatta þannig að honum er nú fenginn heldur betur trúnaður til þess að vinna að breytingum á skattkerfinu og þá notar hann að sjálfsögðu sína ágætu þekkingu sem hv. stjórnarandstæðingar hafa verið að mæra svo mjög á þessum fundi og skal ég koma þeim skilaboðum til hans að menn hafi mikla trú á því sem hann er að segja. Ég hef það líka. Þess vegna var hann skipaður formaður nefndarinnar.
    Þegar talað er um eftirlit skattstofanna og hvort það sé ekki hægt að fylgjast betur með eignamyndun fólks hér og hvar á landsbyggðinni skal það sagt að augað getur stundum blekkt. Eignir eru nefnilega sumar skattlausar og aðrar skattskyldar. Það er hægt að búa í húsi sem maður á á pappírnum en skuldar kannski miklu, miklu meira en húsið. Og ef menn eiga nú ekki hús heldur leigja í stóru og miklu húsi, þá geta þessir sömu menn átt milljónatugi í ríkispappírum t.d. sem bera enga skatta. Það sést nefnilega ekki alltaf á ytra byrði. Auðvitað á að fylgjast með því og það er gert eftir skattframtölum hvort menn hafa eðlilegan lífeyri o.s.frv. En ég held að það sé ákaflega erfitt eins og sumir stjórnmálaflokkar jafnvel eða fyrirliðar stjórnmálaflokka eru að leggja til að fara í einhverja stórkostlega eignakönnun til þess að kanna hvort menn hafi svikið undan skatti og er ég ekki að segja þetta vegna þess að ég telji ekki að það þurfi að bæta skattasiðferði Íslendinga, síður en svo.
    Það var rætt um fjármagnstekjuskattinn hérna. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel eðlilegt að leggja á fjármagnstekjuskatt. Það eru þrjár leiðir sem koma til greina, svona meginleiðir. Það er sú leið sem var uppi á borðinu fyrir einu og hálfu ári síðan. Það var sú leið sem kölluð hefur verið staðgreiðsluleið á vöxtum, vaxtaskatti. Og það er þriðja leiðin sem er hægt að fara og það er breikkun á eignarskattsstofninum og taka þá fjármagn, þ.e. eignina í fjármagninu, og leggja það til grundvallar í eignarskattinum eins og gert er við aðrar eignir. Að þessum málum verður áfram unnið þó að ekki hafi verið talið heppilegt á nákvæmlega þessu augnabliki að efna til þessarar skattheimtu. En ég vil lýsa því yfir hér að ég styð það að fjármagnstekjur séu allar skattlagðar. Ég styð það.
    Það var spurt um þungaskatta á dísilbíla þó að það hafi ekki verið til umræðu beinlínis í þessu frv., þá hefur sú ákvörðun verið tekin og að því er unnið. Því miður, og það er rétt að það komi fram enda held ég að hv. þm. skilji það mætavel, hafa allar þessar skattabreytingar auðvitað tekið nokkurn tíma fyrir tekjuskrifstofu og lagaskrifstofu ráðuneytisins og þetta er næsta verkefni sem vonandi er hægt að komast í af fullum þunga eftir áramótin.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson sagði þegar hann ræddi um fortíðarvandann, að við hefðum verið að hverfa frá einföldu og skilvirku skattkerfi og velja annað verra. Ég bendi á í þessu sambandi að stjórnarandstæðingar, fulltrúar Alþb. sem hafa talað annars vegar og fulltrúar Framsfl. hins vegar, hafa sagt algerlega sitt hvað í þessum efnum og ég þarf ekki annað en vísa til ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Í henni var svar við þessari fyrirspurn hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar. Þeir eru bara á öndverðum meiði sem auðvitað segir okkur að það eru a.m.k. tvær hliðar á þessu máli. (Gripið fram í.) Formaður þingflokks Alþfl. hefur þegar talað fyrir hans hönd.
    Ég hefði getað tekið hérna til ýmislegt fleira. Tími minn er reyndar nokkurn veginn á þrotum. Ég

vil þakka hv. þm. fyrir það að hafa rætt þetta mál ítarlega og málefnalega og þrátt fyrir hnútur sem hafa gengið hér á milli manna í dag, þá vil ég lýsa því yfir að að sjálfsögðu þurfa menn að ræða þetta hérna, allir að vera við þá umræðu sem þurfa að vera við umræðuna en ég vil enn einu sinni segja að ég treysti hv. 1. þm. Austurl. vel fyrir nefndarstörfum og satt að segja vænti þess að hann liðki til við þær skattabreytingar sem þurfa að eiga sér stað núna fyrir jólin þó að ég skilji mætavel að hann geti ekki staðið að þeim breytingum að sjálfsögðu vegna þess að þær fara gegn hans hugmyndum í þessu máli. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég kýs að hafa þá mál mitt ekki lengra, enda ógerlegt þar sem tíma mínum er lokið.