Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:52:23 (2083)


[19:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna þess að hæstv. fjmrh. vitnaði í ummæli okkar sem byggðu á grein Indriða Þorlákssonar, skrifstofustjóra ráðuneytisins, þá vil ég bara að það liggi ljóst fyrir hvað mig sjálfan varðar að ég hef ekki þar með tekið nefndan Indriða í guðatölu þó að ég hafi leyft mér að vitna í hans orð. Ég tel hins vegar að það sé rétt að hlusta á þann mann og sérstaklega þegar hann segir eitthvað skynsamlegt og það gerir hann í þessari grein. Það eru mörg skynsamleg sjónarmið sett þarna fram en gallinn er einmitt sá að það sem hann segir gáfulegast hefur ríkisstjórnin að engu því hann segir hér á bls. 5 um tilfærslu skatta yfir á einstaklinga:
    ,,Svo verulegur tilflutningur skatta yfir á einstaklinga er ekki gerlegur án þess að fara á svig við ýmis meginsjónarmið í skattlagningu þeirri sem reynt hefur verið að halda á lofti.``
    Þannig er nú í einu lagi hækkaður jaðarskattur, skattleysismörk lækkuð og tekið upp annað tekjuskattsþrep. Og svo kemur hækkunin vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins þarna til viðbótar. Ég held að ríkisstjórnin ætti þá að vera sjálfri sér samkvæm í því og hæstv. fjmrh. (Forseti hringir.) og hlusta á það sem nefndur Indriði leggur skynsamlegt til ekkert síður en við í stjórnarandstöðunni gerum því að við tökum skynsamlegum rökum hvaðan sem þau koma.