Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:53:38 (2084)


[19:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að hv. þm. hafi ekki tekið nefndan og títtnefndan Indriða H. Þorláksson í guðatölu hefur núv. fjmrh. treyst honum fyrir að endurskoða lög um tekjuskatt og eignarskatt og þær reglugerðir sem að því máli lúta þannig að með því er sýndur sá hugur sem fjmrh. ber til Indriða og mun reyna að nýta sér alla þá góðu kosti sem hann hefur og þær ágætu skoðanir sem hann hefur látið frá sér fara, m.a. í því riti sem gefið var út af löggiltum endurskoðendum þótt stundum viðri þannig í íslenskum stjórnmálum að taka verði tillit til fleiri sjónarmiða en þeirra sem maður kannski helst vildi þá stundina því að maður ræður ekki veðri og vindum og það gerir nefndur Indriði ekki heldur þó að hann hafi verið nefndur í sömu setningunni og guð hjá hv. þm.