Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:55:49 (2086)


[19:55]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Viðbrögð hæstv. fjmrh. við þeim sjónarmiðum, sem ég setti hér fram í minni seinni ræðu þess efnis að núv. ríkisstjórn mundi væntanlega takast á sínum ferli að brjóta niður það til þess að gera einfalda og skilvirka skattkerfi sem hún tók við, voru vægast sagt afar sérstök. Hann svaraði algjörlega út í hött í þá veru að Framsfl. og Alþfl. og Alþb. væru ekki algjörlega samstiga hvað þetta snerti í stjórnarandstöðu núna. Það kemur bara málinu ekki nokkurn skapaðan hlut við. Og ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra beint: Getur hann ekki tekið undir þau sjónarmið sem komu fram í títtnefndri grein Indriða H. Þorlákssonar að þær skattabreytingar sem gerðar voru á síðsta ári hafi unnið á móti þeim til þess að gera einföldu og skýru markmiðum sem þær ríkisstjórnir sem Framsfl. átti aðild að höfðu sett sér.