Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:06:10 (2091)


[20:06]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta eru nú útúrsnúningar hjá hv. þm. Hv. þm. veit mætavel hvernig þetta kerfi var til komið. Það var um langar biðraðir að ræða þegar húsbréfakerfið tók við og það var alveg ljóst að það var ekki vilji fyrir öðru en að afnema þetta kerfi í áföngum. Það var alveg ljóst og m.a. lögðu framsóknarmenn áherslu á það. Og húsbréfakerfið fór hægt af stað á meðan eins og við vitum.
    Varðandi afföllin og hvernig vaxtabótakerfið mætir þeim, þá er um það að ræða að þetta er yfirleitt á pari þegar um er að ræða að húsbréfin ganga upp í kaup á næstu eign. Afföllin eru þegar verið er að selja bréfin á markaði. Það gerist í þeim tilvikum þegar fólk er t.d. að byggja sjálft en þá er því þó til að svara að í eldra kerfi þurfti að bíða það lengi eftir láni að það þurfti að taka kannski allt sitt byggingarefni eða það sem það þurfti til þess að koma sinni íbúð upp að láni en þarna fékk það þó húsbréfin strax og gat staðgreitt viðkomandi byggingarefni o.s.frv.
    Varðandi afföllin, þá eru þau í gegnum vaxtabótakerfið bætt á 25 árum, þ.e. 1 / 25 á hverju ári hjá þeim sem byggja sjálfir sína eigin íbúð og það gerist líka hjá þeim sem hafa fengið greiðsluerfiðleikalán í gegnum húsbréfakerfið.