Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:42:14 (2103)


[20:42]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rangt að hæstv. samgrh. hafi verið gagnrýndur hér fyrir það að greina satt og rétt frá því að hann hefði ekki allar upplýsingar og hefði ekki vitað af málinu. Ég tók það einmitt skýrt fram að það væri það eina sem hefði verið í lagi í frammistöðu hæstv. ráðherra, það var sú hreinskilni og hana tek ég gilda. Ég ætla þess vegna ekki að fara að óska eftir því t.d. sem mér hafði komið í hug, hvernig mundu sundurliðast eða reiknast í þessu sambandi annars vegar rekstrarstyrkir og hins vegar stofnstyrkir og hvort það hafi áhrif í þessu sambandi að hæstv. ráðherra hefur nú velt þessu yfir á Vegagerðina sem á að taka þetta á sig án þess að fá aukna tekjustofna á móti. Skiptir þá máli sú breyting sem verður þegar Vegagerðin yfirtekur þennan rekstur í staðinn fyrir að áður kom þetta beint af fjárlögum? Auðvitað var það augljóst mál að rekstrar- og stofnstyrkir sem koma af fjárlögum ríkisins og voru svo skattlagðir í ríkissjóð aftur var náttúrlega út og inn úr sama vasanum. En nú er þetta Vegasjóður með sjálfstæða tekjustofna og það kann að flækja málin nokkuð. Verða þá Vegasjóði lagðir til úr ríkissjóði sambærilegir fjármunir og virðisaukaskattinum nemur á þessa styrki eða verður þetta enn til þess að skerða tekjumöguleika Vegasjóðs? Þetta eru spurningar sem eðlilegt er að bera fram en í ljósi þess að hæstv. samgrh. hefur í hreinskilni játað og viðurkennt að hann hafi ekki vitað um þetta mál, hafi verið erlendis þegar það var ákveðið að skella þessu á og hafi ekki þessar upplýsingar þá skal ég sætta mig við það hvað þetta snertir að bíða eftir þeim svörum. En orðaskiptin við hæstv. samgrh. sem á að heita yfirvald samgöngumála í landinu um hin pólitísku atriði og hluti eins og framtíð innanlandsflugsins eru auðvitað á réttum stað vegna þess að það er verið að tala um íþyngjandi aðgerðir gagnvart þessum rekstri, stórkostlega íþyngjandi aðgerðir, og flugfélögin hafa upplýst að þetta kosti 8--10% í útgjöldum ofan á fargjaldaverðið, hvort sem þau taka það á sig í formi aukins rekstrartaps eða hækka sem því nemur fargjöldin og auðvitað hlýtur það að enda þar að lokum sem sérstakur skattur á það fólk sem notar þessa þjónustu og það er ranglátt.