Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:44:26 (2104)


[20:44]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst hálfundarlegt að fyrrv. samgrh., hv. 4. þm. Norðurl. e., skuli vera að láta hér svo sem hann hefði gert Alþingi grein fyrir því hver væri fjárhagsstaða flóabáta meðan hann var samgrh. Það var nú síður en svo. Það lágu aldrei fyrir raunhæfar áætlanir um flóabáta í hans tíð sem samgrh. Það var ekki greitt af lánum sem höfðu verið tekin og lágu uppi í Ríkisábyrgðasjóði og þess var vandlega gætt frá einu ári til annars að reyna að draga upp falska mynd af ástandinu í þeim efnum.
    Það sem ég sagði hér var það að ég skýrði frá því að ég hefði ekki upplýsingar um það hvaða áhrif þessi lagagrein hefði á rekstrarstöðu ferja og flóabáta. Ég man ekki eftir því þegar hv. 1. þm. Austurl. var hér í ríkisstjórn og skattafrumvarp var lagt fram að Alþingi hafi samtímis verið gefin nákvæm útlistun á því hvaða áhrif hvert einstakt atriði þeirra skattalaga hefði á einstaka tekjuliði fjárlaga, svo ég taki dæmi. Þannig að það sem ég er að tala um er að það er auðvitað eðlilegt þegar mál koma fyrir þingið að einstakir ráðherrar geri þingnefndum og öðrum grein fyrir því hvaða áhrif þau hafa á fjárlögin þegar svo hittist á að verið er að afgreiða fjárlög í sömu svifum og frumvörpin eru lögð fram. Þess vegna get ég alls ekki skilið það þegar stjórnarandstæðingar eru hér að hneykslast á vinnubrögðum af því tagi. Þvert á móti ættu þeir, eins og þeir raunar öðrum þræði gera, að láta í ljósi þá skoðun að það væri kannski gagnlegt að fá upplýsingarnar.