Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:03:50 (2108)


[21:03]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst að hæstv. fjmrh. ætti að taka þingmanninn á orðinu, ég veit að hann er röskur til verka þegar hann tekur sig til. Um hitt vil ég segja að auðvitað er það rétt ef greitt er fullt fargjald milli Norðurlands og Suðurlands eða Austurlands og Suðurlands, þá eru ekki þessi svokölluðu Apex-fargjöld eða afsláttarfargjöld í gildi. En eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá eru þau rétt ríflega helmingur fulls fargjalds þannig að við erum auðvitað að tala um miklu, miklu lægri fjárhæðir. Ég skal ekki um það segja hvort afsláttarfargjald fram og til baka til Akureyrar kosti um 7.000 kr. ef pantað er með einhverjum fyrirvara, þriggja eða fjögurra daga fyrirvara. Ég man þetta ekki. Þannig að við erum að tala um lægri fargjöld en var mögulegt að fá fyrir nokkrum árum.
    Ég vil líka að það komi alveg ljóst þegar við tölum um innanlandsflugið að ef um beint innanlandsflug er að ræða í framhaldi af flugi milli landa þá leggst þessi virðisaukaskattur ekki á, þannig að það er algjörlega ljóst að flugfélögin fá endurgreiddan innskatt sem þau ekki fengu áður, fyrirtæki sem eiga viðskipti við flugfélögin geta fengið virðisaukaskattinn endurgreiddan. Það liggur fyrir að flugfélögin hafa tekið upp afsláttarfargjöld sem koma launþegum eða þeim aðilum sem ekki eru með virðisaukaskattsnúmer til góða þannig að þetta er í báðar áttir. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að vegna þess að Flugleiðir eru hlutafélag þá hef ég áhyggjur af því hversu lengi Flugleiðir og önnur flugfélög einnig hér á landi geta haldið uppi þjónustu sem þau nú gera. Við vitum að það hefur verið nauðsynlegt að hlaupa undir bagga hjá flugfélögum úti á landi, bæði á Austurlandi og Vesturlandi, og kemur það auðvitað ekki því við sem við erum að tala um í framtíðinni.