Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:19:52 (2114)


[21:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef mjög skamman tíma og ætlaði að reyna að svara örfáum fyrirspurnum, sérstaklega frá hv. 14. þm. Reykv., sem reyndar er ekki í þingsalnum eins og er en væntanlega er von á þingmanninum innan tíðar. Meðan beðið er eftir hv. þm. þá vil ég rétt fjalla um sértekjur því það var rætt um það áðan að skattar hefðu hækkað m.a. í formi sértekna. Sértekjur fara lækkandi og munu lækka á næsta ári og hafa reyndar verið mjög misjafnar frá ári til árs þannig að það er rangt að það sé verið að auka þau þjónustugjöld sem kölluð eru sértekjur.
    En máli mínu vildi ég fyrst og fremst beina til þingmanna svörum við ýmsum fyrirspurnum frá hv. 14. þm. Reykv. Hv. þm. flutti hér eina af sínum ræðum um ríkisfjármál og ég vil byrja á því að taka undir það með hæstv. samgrh. að það er auðvitað fagnaðarefni þegar okkur berst sá liðsauki að hv. þm. ætli að ausa úr viskubrunni sínum og hjálpa okkur við að skera niður ríkisfjármálin. Okkur veitir ekkert af slíkri hjálp eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu.
    Hv. þm. las síðan úr skýrslunni um endurskoðun ríkisreiknings 1992, sá upplestur var upp úr skýrslu sem fjmrn. lét gera þannig að það er ekkert nýtt um skattsvikamálin og það hefur margoft komið fram í dag þegar við höfum rætt um skattsvikamálin og ég hef staðhæft það, það er ekki hægt að mótmæla því, að engin ríkisstjórn hefur tekið meira á þeim málum en einmitt sú sem nú situr.
    Varðandi barnabæturnar og barnabótaaukann þá er það þannig að barnabætur eru greiddar út. Það

var grundvallaratriði að þvæla þeim ekki inn í skattkerfið með neikvæðum tekjuskatti eða með því að draga frá tekjuskattinum. Hins vegar er barnabótaaukinn, sem er miklu stærri hluti af þessu tvennu, greiddur út með þeim hætti að hann er dreginn frá sköttum ef um þá er að ræða en mismunurinn kemur síðan til skila. Í mörgum tilvikum er það svo að fjölskyldur með lágar tekjur sem borga enga skatta fá verulega viðbót og ég bendi á í því sambandi að Alþýðusamband Íslands var einmitt að greina frá því um daginn að hjón með 100 þús. kr. tekjur, 2 börn, ef ég man rétt, hafa 117 þús. kr. ráðstöfunartekjur af því að þessi hjón fá mikinn barnabótaauka. Þetta byggist á því að í mörgum tilvikum greiðir þetta fólk ekki skatta. (Gripið fram í.) Ég skal taka undir það að ég hef viljað fella niður barnabæturnar hreint og beint. Mér finnst t.d. dálítið sérkennilegt að fjmrh. séu sendar annað slagið 1.100 kr. en á það hefur verið bent að það sé dálítið stílbrot á þessu kerfi okkar eins og það hefur verið byggt upp.
    Fyrirspurn um gjaldþrot verður að sjálfsögðu svarað en það er ekkert einfalt mál því fyrirspurnin er þannig að það er spurt um tjón ríkissjóðs, ríkisbanka og sjóða í eigu hins opinbera, ekki eitt ár heldur 1990, 1991 og 1992 og ekki nóg með það að það eigi að koma einhverjar heildartölur heldur á að sundurliða þetta niður á fyrirtæki. Þannig að það hljóta allir að sjá að það tekur nokkurn tíma að svara fyrirspurninni, en að því er unnið. Ég get því miður ekki á þessari stundu lofað því að það gerist í næstu viku eða þarnæstu.
    Loks hefur það stundum gerst í okkar viðræðum, okkar hv. þm. í þingsölum, að við höfum deilt um bókfærsluatriði. Ég ætla ekki að byrja á því en ég vil taka það fram vegna orða þingmannsins að 4 milljarða endurgreiðslan til sveitarstjórnanna helgaðist af því, fór ekki inn sem skattauki eða auknar tekjur í ríkissjóð vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið með leiðbeiningar í þessum efnum. Þetta er bráðabirgðaúrræði, þetta eru skatttekjur sem runnu beint til sveitarfélaganna og eftir að hafa þrælskoðað málið var þetta niðurstaðan. Það getur vel verið að Ríkisendurskoðun sé á öðru máli en það skiptir ekki máli. ( GHelg: Hún er það.) Já, já.
    Í öðru lagi, þá veit auðvitað hv. þm. að stuðningurinn við Landsbankann er á þá leið að það er ekki verið að greiða Landsbankanum peninga. Það er verið að leggja inn skuldabréf og það kemur að sjálfsögðu til greiðslu ef það fer út úr ríkissjóði um leitt og greitt er af skuldabréfinu. Þannig að þetta eru gamlar deilur um það hvort það eigi að gera upp fjárlög og fjáraukalög og loks ríkisreikning á reikningsgrunni eða greiðslugrunni. Það hélt ég að ég og hv. þm. vissum að hefur löngum verið deilumál á milli fjmrn. og Ríkisendurskoðunar.