Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:34:30 (2120)


[21:34]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vill nú svo til að ég hef hér undir höndum lista yfir smáaðgerðir sem eru greiddar af Tryggingastofnun ríkisins. Þær hafa dregist saman um 23% samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu, sem eru frá 23. nóv. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í febrúar 1993 gengu í gildi nýjar reglur sem auka kostnaðarþátttöku sjúklinga í aðgerðum á stofu. Athugað var hver áhrif þetta kynni að hafa haft á aðgerðir framkvæmdar á stofu fyrstu 6 mánuði ársins 1993, miðað við fyrstu 6 mánuði áranna 1991 og 1992.
    Augljós fækkun hefur orðið með örfáum undantekningum, eins og sjá má á yfirliti yfir nokkra helstu aðgerðarflokkana. Spurning er hvort þessar aðgerðir hafi aftur færst inn á sjúkrahúsin sem er ólíklegt að mati yfirmanna. Önnur skýring er sú að hinir efnaminni láti eiga sig að fara í þessar aðgerðir sem að jafnaði eru ekki lífsnauðsynlegar. Þriðja skýringin er sú, innan gæsalappa, að of mikið hafi verið gert

af þessum aðgerðum þegar þær voru nánast ókeypis.`` --- En þegar talað er um of mikið þá eru hér m.a. æðahnútaaðgerðir, kviðslitsaðgerðir o.fl. Það er nú frekar ótrúlegt að menn fari að láta laga á sér kviðslit að ástæðulausu, að gamni sínu, vegna þess að það er ókeypis. Þannig að mér þætti líklegt að sú skýring, að þetta sé einfaldlega búið að ganga þarna of langt, eigi við rök að styðjast. En það væri verðugt rannsóknarefni.