Lánsfjárlög 1993

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:43:00 (2125)


[21:43]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa um þetta mál mörg orð. Því var, eins og þingsköp gera ráð fyrir, vísað í upphafi til fjárln. sem síðan vísaði því til efh.- og viðskn. Ég vil vekja athygli á því að á síðasta ári, reyndar tveim síðustu árum, hefur sá háttur verið hafður á að efh.- og viðskn. hefur skilað áliti við 2. umr. hér inn í þingið. Það hefur ekki farið þennan hring aftur inn í fjárln. Ég vil í þessu sambandi benda á það að þegar umræða hefur farið fram um lánsfjárlög þá hafa það verið efnahags- og viðskiptanefndarmenn sem hafa vaktað þá umræðu og tekið þátt í henni.
    Ég vil einnig nefna eitt sem mér finnst afar sérstakt í þessu máli. Nú vildi þannig til að sá sem hér stendur og talar, ég veit ekki hvort ég á að orða það svo, það hefur dæmst á hann að vera í forsvari fyrir efh.- og viðskn. í fjarveru bæði formanns og varaformanns, þegar þetta mál er tekið fyrir. Það er á þriðju viku síðan, ef ég man rétt, að lögð var á það afar mikil áhersla af hálfu fjmrh. að nefndin afgreiddi þetta hratt og vel, því það gæti verið að í húfi væri hvorki meira né minna heldur en vaxtastefna ríkisstjórnarinnar. Efh.- og viðskn. varð við þessu og afgreiddi þetta daginn eftir. En það skýtur hins vegar mjög skökku við að síðan skuli málið liggja á þriðju viku inni hjá fjárln. áður en það kemur hér inn í þingið og ég sé hér að hv. fjárln. hefur séð ástæðu til þess að kalla til sömu aðilana og var búið að kalla til hjá efh.- og viðskn. Og svo vill nú svo skemmtilega til í þessu tilfelli að að nokkru leyti skrifa sömu aðilarnir, þ.e. sömu persónurnar, undir álitið frá efh.- og viðskn. og nál. frá fjárln.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Fyrirvari minn og okkar fulltrúa Framsfl. við álitið frá efh.- og viðskn. byggist ekki á efnisþáttum þessa frv. Hann byggist eingöngu á því að þó að við skrifum undir þetta frv., vegna þess að við þekkjum og skiljum nauðsyn þess að loka fjárlagagatinu sem varð miklu meira heldur en ríkisstjórnin hafði reiknað með, þá viljum við ekki að það verði á nokkurn hátt túlkað sem svo að við berum ábyrgð á þeim gjörningi, þ.e. ríkisfjármálunum og þeim stóraukna halla sem þar hefur orðið.
    Í öðru lagi nefni ég það að við kölluðum til forsvarsmenn Spalar, en þarna er einnig heimild um 50 millj. kr. lán til þess fyrirtækis fyrir undirbúningsrannsóknir vegna ganga undir Hvalfjörð. Við fórum yfir það mál með þeim og sömuleiðis ,,fulltrúa`` Vegagerðarinnar. Sá maður, Jón Birgir Jónsson, er nú orðinn ráðuneytisstjóri í samgn., en var talinn þekkja þetta mál best af þeim sem höfðu unnið í ráðuneytinu.
    Ég vil segja það hér að að mínu mati hefur verið staðið vel að undirbúningsframkvæmdum gagnvart þessari hugsanlegu framkvæmd og það er að öllu leyti til fyrirmyndar að undirbyggja svo stóra framkvæmd sem best áður en ákveðið er hvort í hana verði ráðist. Það kom einnig fram hjá fulltrúa ráðuneytisins, fyrrv. starfsmanni Vegagerðarinnar, að þarna væri um að ræða framkvæmd sem gæti sparað Vegagerðinni nokkuð í annarri vegagerð og brúargerð, hvað snertir vegagerð fyrir Hvalfjörð. En það kom reyndar einnig fram að ef í þetta verður ráðist þá er hæstv. ríkisstjórn búin að skuldbinda sig til vegagerðar upp á 600 millj. í tengslum við þessa framkvæmd, sem væntanlega kemur til viðbótar við þá 3,5 milljarða sem búið er að nefna áður í kvöld og ríkisstjórnin er búin að skuldbinda framtíðina fyrir í vegamálum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en hlýt hins vegar að vona og beina því til hæstv. fjmrh. hvort þessi töf hafi nokkuð orðið til þess að vaxtastefna ríkisstjórnarinnar hafi riðlast.