Lánsfjárlög 1993

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:48:43 (2126)

[21:48]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist á meðferð þessa frv. í fjárln. og efh.- og viðskn. Ég vil í því sambandi að það komi fram að ég gerði á fundi fjárln. þá ábendingu hvort ekki væri eðlilegt að efh.- og viðskn. hefði á sínum snærum framsögu í þessu máli þangað til endanlega væri gengið frá samskiptum fagnefnda og fjárln. Meiri hluta fjárln. fannst ekki rétt að standa svo að málum og fjárln. ætti að hafa framsögu í málinu eða formaður hennar og það varð svo. Þá var að mínu frumkvæði kallað í þá aðila sem greint er frá í nál., því mér finnst náttúrulega alveg út í hött að nefnd sem á að fara með málið hér inni í þingið og bera ábyrgð á því, kalli ekki í þá aðila sem málið varðar. Og ég vorkenni embættismönnunum ekkert að koma á fund tveggja nefnda. Þeir voru vanir því, a.m.k. meðan hér voru tvær deildir í þinginu, að mæta á fundi í efri deild og neðri deild. En ég get sparað tímann með því að segja það í þessu andsvari að minn fyrirvari við málið varðar tengsl lánsfjárlaganna við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar almennt og er af því sprottinn.