Lánsfjárlög 1993

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:59:52 (2131)

[21:59]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Vegna þess frv. sem hér er til umræðu vil ég segja að auðvitað ber að fagna því að lánsfjárlög þessa árs skuli ekki hafa þurft að taka meiri breytingum en raun ber vitni og fram kemur í því nál. og þeim brtt. sem hér eru til umræðu og eru flutt. Það vekur kannski fremur en annað athygli á því að það hefur vissulega tekist að ná góðum tökum á ríkisfjármálunum og því ber að fagna.
    Ég vil vekja athygli á því sem kemur fram í frv. að þar er heimild til þess að veita Speli hf. lán vegna þeirra rannsókna sem þarf að gera á væntanlegum og fyrirhuguðum framkvæmdum við jarðgöng undir Hvalfjörð. Ég vil sérstaklega fagna því að svo langt skuli þeim undirbúningi vera komið að unnið sé að rannsóknum á þessu mikilvæga viðfangsefni og mikilvæga verkefni á sviði vegagerðar.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, en ég fagna því sannarlega að þetta frv. skuli vera hér til meðferðar og það sýnir, eins og ég sagði fyrr, að ríkisfjármálin eru sennilega í betra horfi en ýmsir höfðu reiknað með, m.a. í stjórnarandstöðu og fagna ég því svo sannarlega.