Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 11:31:13 (2135)


[11:31]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil áður en ég hef mína framsöguræðu fyrir áliti minni hluta fjárln. þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þá tillitssemi sem hann sýnir og virðingu við þingið að sitja við þessa umræðu en ég lýsi jafnframt yfir því að auðvitað ætlumst við til, a.m.k. sem skipum minni hluta fjárln., að fjmrh. sé við þessa umræðu og við ætlumst líka til þess auðvitað að forsrh. sé við þessa umræðu. Hér er verið að fjalla um einn stærsta þáttinn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og ef þetta væri allt saman í góðu lagi þá væri náttúrlega hægt að líða það að hæstv. ráðherrar væru utan húss en ég held að þetta plagg sem hér er til umræðu sé með þeim hætti að það veiti ekki af að þeir séu viðstaddir.
    Einnig vil ég beina því til hæstv. forseta að ég vil í þessari umræðu eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. og óska eftir því að hann verði aðvaraður einnig. Ég sé nú að hæstv. fjmrh. er kominn.
    ( Forseti (SalÞ): Hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. eru báðir í húsinu. Hæstv. sjútvrh. er enn veðurtepptur í Vestmannaeyjum eftir því sem best er vitað, en væntanlega á hann eftir að koma hér í dag.)
    Mér þykir það nú afar slæmt að hæstv. sjútvrh. er ekki við þessa umræðu því að mikilvægur þáttur þessara mála snertir einmitt starfssvið hans en eigi að síður vonast ég til að það gefist tækifæri til þess

að eiga við hann orðastað um málið og vil spyrja hæstv. forseta hvort veðurútlit sé þannig að hann sé yfirleitt væntanlegur. Hefur hæstv. forseti eitthvert mat á því?
    ( Forseti (SalÞ): Nú á forseti erfitt með að upplýsa með veðurútlit á þessari stundu. Hins vegar heyrði forseti í fréttum í morgun að von væri á því að veðrið lagaðist um hádegisbilið, en segir þetta algerlega án ábyrgðar. En vonandi gerist það og þá greiðist væntanlega úr því að hæstv. sjútvrh. komist til lands.)
    Þetta verð ég að telja nægilega veðurspá af hendi hæstv. forseta og mun þá hefja framsögu mína fyrir nál. minni hluta fjárln. sem er að finna á þskj. 305.
    Það fjáraukalagafrv. sem hér er til umræðu er prófsteinn á stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Minni hluti fjárln. tekur ekki ábyrgð á þeirri stefnu sem fjáraukalagafrv. er afleiðing af.
    ( Forseti (SalÞ): Forseti vill skjóta hér inn gleðifréttum fyrir hv. 2. þm. Austurl. því að hæstv. sjútvrh. mun vera á leiðinni með Herjólfi.)
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir og Herjólfur er traust skip enda kemur hann mjög við sögu í starfi fjárln. Við könnumst við sjóhæfni hans og verðlag á því skipi þannig að ég treysti því að hæstv. sjútvrh. komist klakklaust til lands með því góða skipi og þakka fyrir.
    Ég var kominn þar að minni hluti fjárln. tekur ekki ábyrgð á þeirri stefnu sem fjáraukalagafrv. er afleiðing af og skilar því séráliti. Í frv. er sótt um heimild til viðbótarútgjalda upp á 4,1 milljarð kr. og brtt. þær sem meiri hlutinn hefur lagt fram, útgjaldaaukinn við þær er 335 millj. kr. Samkvæmt áætlun dragast heildartekjur ríkissjóðs saman um 3,2 milljarða kr. og halli ríkissjóðs á árinu 1993 verður því samkvæmt áætlun 13,8 milljarðar kr. í stað 6,2 milljarðar kr. sem fjárlög gerðu ráð fyrir þegar þau voru samþykkt. Að mati minni hluta fjárln. valda hér einkum ákvarðanir ríkisstjórnar og meiri hluta Alþingis við fjárlagagerð fyrir yfirstandandi ár en ljóst var að þessar ákvarðanir stæðust ekki. Það ættu þeir að muna sem tóku þátt í fjárlagaumræðunni fyrir síðasta ár. Þessi atriði voru afdrifaríkust í því efni:
    Þegar fjárlög voru samþykkt voru kjarasamningar lausir og það var alveg ljóst að ríkissjóður mundi verða fyrir útgjöldum vegna þeirra. Þessi útgjöld eru um 2 milljarðar kr., þar af 1 milljarður kr. í framkvæmdir. Eins og fram kemur í yfirliti sem fylgir fjáraukalagafrv. eru 558 millj. kr. yfirfærsla frá árinu 1992 af ónýttum heimildum, en nýjar heimildir upp á 487 millj. kr. Það var ekkert samráð á frumstigi haft við fjárln. um skiptingu þessa fjár og mótmælir minni hlutinn því þessum vinnubrögðum harðlega. Og þrátt fyrir að atvinnuleysi sé mun meira meðal kvenna en karla eru aðeins 60 millj. kr. af þessari upphæð til atvinnusköpunar fyrir konur. Þar sem hlutaðeigandi aðilum hefur fyrir löngu verið tilkynnt um þessa skiptingu og hafa gert ráðstafanir í samræmi við hana í góðri trú til undirbúningsverka telur minni hlutinn ekki fært, þó að við mótmælum þessum vinnubrögðum harðlega, að flytja brtt. varðandi þessa skiptingu.
    Í forsendum fjárlaga var atvinnuleysi áætlað 3% en það verður a.m.k. 4,5% á yfirstandandi ári. Þetta þýðir viðbótarútgjöld um 1,2 milljarða kr. Þetta atvinnuleysi er nú langmesti vandi ríkisfjármálanna. Það sýnir bæði fjárlagafrv. fyrir næsta ár og fjáraukalagafrv. því að áhrifa þess gætir bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga og auk viðbótarframlags sem fjáraukalögin gera ráð fyrir í Atvinnuleysistryggingasjóð er sjóðnum gert og hefur verið gert að ganga á sínar eignir.
    Ríkisstjórnarákvarðanir sem knúðar voru í gegn við afgreiðslu fjárlaga og hafa ekki gengið eftir eru ein höfuðorsökin fyrir þeim viðbótarheimildum til útgjalda sem nú þarf að sækja um. Þar má í fyrsta lagi nefna að áform um víðtæka einkavæðingu og sölu ríkisfyrirtækja hafa ekki náð fram að ganga. Reiknað var með tekjum vegna sölu ríkisfyrirtækja um 1.500 millj. kr., en samkvæmt áætlun nú verða tekjurnar 100 millj. kr. vegna þessara aðgerða. Ég kem nánar að þessu máli síðar. Hætt var við sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins sem þýðir að fjáraukalögin gera ráð fyrir viðbótarframlagi til Hafrannsóknastofnunar um 300 millj. kr. Boðað hefur verið að með frv. um þróunarsjóð sjávarútvegsins verði ákvæði til að úthluta aflaheimildum sjóðsins án endurgjalds. Nú má telja ólíklegt að þessi frumvörp komi til afgreiðslu á yfirstandandi ári en samkvæmt lögum er skylt að bjóða aflaheimildir sjóðsins á yfirstandandi fiskveiðiári til sölu. Það er því alls óvíst hver verður niðurstaðan í þessu máli og hefur ekki fengist upplýst í meðförum fjárln. Ég mun einnig koma að þessu máli aðeins síðar í ræðu minni og reyndar þarf að eiga orðastað um það við hæstv. sjútvrh.
    Samkvæmt fjárlagafrv. má rekja 2 milljarða kr. tekjutap ríkissjóðs til aukins efnahagssamdráttar. Af þessu má ljóst vera að tveir meginþættir í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa brugðist. Atvinnuleysi hefur aukist og efnahagssamdrátturinn og tekjutapið af þeim sökum bætist við þann útgjaldavanda sem af því leiðir.
    Að öðru leyti en hér hefur verið rakið að framan flytur meiri hlutinn nokkrar brtt. við fjáraukalagafrv. Minni hlutinn gerir ekki sérstakar athugasemdir við þorra þeirra brtt., en vill þó taka fram varðandi 20 millj. kr. framlag til eflingar heimilis- og listiðnaði sem undir umsjón forsrn. að eðlilegt væri að framlög til þessara mála, sem eru auðvitað þörf og góð, væru ekki dreifð um mörg ráðuneyti og haft sé samráð við fjárln. Alþingis um úthlutun á þessu fé. Það færist nefnilega mjög í vöxt að framkvæmdarvaldið reynir að sniðganga löggjafarvaldið í úthlutun fjármuna og það hefur aldrei keyrt svo um þverbak í því efni eins og sl. tvö ár.
    Gerð er tillaga um að St. Jósefsspítali á Landakoti fái 100 millj. kr. fjárveitingu, þegar tekið er tillit til 10 millj. kr. framlags á liðnum 08-370, Sjúkrahús í Reykjavík, stofnkostnaður, sem verði breytt í rekstrarframlag. Hér er um að ræða fjárveitingu til þess að greiða skuldir Landakotsspítala sem m.a. eru til komnar vegna illa undirbúinna skipulagsbreytinga og niðurskurðar vegna sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík. Sömuleiðis er gerð tillaga um að St. Jósefsspítali í Hafnarfirði fái 27 millj. kr. vegna uppsafnaðs vanda í rekstri spítalans.
    Ég mun einnig koma örlítið nánar, og hv. 1. þm. Norðurl. e. sem mun tala í þessari umræðu, að málefnum spítalanna. En auk þess voru áform um sölu Þvottahúss Ríkisspítalanna við fjárlagagerð en þau áform hafa ekki gengið eftir frekar en önnur áform um sölu ríkisfyrirtækja og einkavæðingu, en tekjur vegna þessarar sölu, sértekjur áttu að nema um 60 millj. kr. sem nemur áætluðum tekjum af sölu hlutabréfa í Þvottahúsinu. Það er ekki gert ráð fyrir að bæta Ríkisspítölunum nema helming þessarar upphæðar eða 30 millj. kr. og ljóst er að draga verður verulega þjónustu ef það á að spara í rekstri um 30 millj. kr. á þessum eina mánuði sem eftir er ársins. Minni hlutinn telur ekki annað fært en bæta þetta að fullu þar sem hér var um ákvarðanir að ræða sem ekki voru í valdi stjórnenda Ríkisspítalanna og flytur um það brtt.
    Minni hlutinn bendir á að innheimta tekjuskatts, sem rennur til sveitarfélaga í stað aðstöðugjalds að upphæð 4 milljarðar kr., kemur ekki fram í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í trausti þess að ríkisreikninganefnd, sem vinnur nú að framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings, muni skila sameiginlegum tillögum um þetta mál innan tíðar flytur minni hlutinn ekki brtt. um málið. En eins og komið hefur fram er svokölluð ríkisreikninganefnd að störfum og vinnur að því að reyna að samræma framsetningu á ríkisreikningi, fjárlögum og fjáraukalögum og munu tillögur vera væntanlegar um þessi mál en öllum eru í fersku minni mismunandi skoðanir Ríkisendurskoðunar og fjmrn. á þessum efnum.
    Minni hlutinn telur að fjáraukalagafrv. 1993 sýni að útgjöld ríkissjóðs hafi farið fram úr áætlunum vegna rangra og óraunsærra ákvarðana sem teknar voru af stjórnvöldum við fjárlagagerð fremur en að rekstur einstakra stofnana hafi farið langt úr böndunum. Það hefur komið í ljós að ekki var samstaða þegar til átti að taka í stjórnarliðinu um ákvarðanir sem teknar voru af meiri hluta Alþingis þegar fjárlög voru samþykkt. Það hefur ekki tekist að vinna bug á atvinnuleysi né samdrætti og svartsýni sem því fylgir, efnahagsstefnan hefur beðið skipbrot og ljóst er að vaxandi atvinnuleysi er fram undan. Minni hlutinn getur því ekki borið ábyrgð á því fjáraukalagafrv. sem hér er lagt fram vegna þess að það er óaðskiljanlegur þáttur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Minni hlutinn mun því sitja hjá við afgreiðslu frv., en áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.
    Margrét Frímannsdóttir var fjarstödd afgreiðslu málsins en undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Guðmundur Bjarnason.
    Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir nál. sjálfu en vil koma örlítið nánar að nokkrum þáttum sem reyndar er minnst á í nál. Eins og ég kom inn á í upphafi og kemur fram í nál. að það er einkennandi fyrir þetta fjáraukalagafrv. að langstærstu tölurnar í því varða efnahagsstefnuna beint og beinar ákvarðanir ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans hér á Alþingi, sem ríkisstjórninni tókst í mörgum tilfellum að klemma í gegn og fá stjórnarliða til að samþykkja. Það er það sem hefur brugðist, það er það sem hefur farið úr böndunum, það eru þær ákvarðanir sem reyndust tóm vitleysa, óframkvæmanlegar. Og þá ber kannski hæst áformin um hina mikla einkavæðingu sem átti að skila ríkissjóði hvorki meira né minna en 1,5 milljörðum kr. á þessu ári, en þegar upp er staðið er þessi upphæð aðeins 100 millj. og ekki búist við að það verði mikil breyting á í desember. Það er ekki búist við neinum jólamánuði í sölu í þessu né jólaös í innkaupum á ríkisfyrirtækjum. Það er auðvitað ástæða fyrir þessu sem lá í augum uppi þegar fjárlög voru samþykkt. Það átti að gera mikla sölu í ríkisbönkunum. Það var fyrst og fremst ekkert samkomulag um það í stjórnarliðinu að selja bankana. Í öðru lagi árar nú ekkert vel til þess að selja banka. Ríkisbankarnir eru ekki nein sérstök söluvara eins og er og það segir sitt um stjórnarfarið, þessar feiknavitlausu ákvarðanir sem teknar hafa verið algjörlega út í loftið, eins og að taka ákvörðun um tekjur í ríkissjóð upp á 1,5 milljarða sem er algjörlega út í bláinn og koma svo hér á síðustu vikum ársins og viðurkenna þetta því að það er ekki hægt annað. Og það sem meira er, að til þess að gefa þessu svona öllu gott andlit og láta þetta líta nógu vel út, þá voru gefin þau fyrirheit að það ætti að leggja af þessu 1 / 5, ef ég man rétt, eða rúmlega 300 millj. í rannsókna- og þróunarstarfsemi. Ég sé það reyndar í umræðum um fjárlögin að hæstv. menntmrh. hefur viðurkennt í umræðunni, hefur auðvitað ekki getað annað, að þessar 300 millj. væru ekki tryggar eins og hann orðaði það. Auðvitað voru þær ekki tryggar því að þetta var tóm vitleysa og það kemur á daginn. Hins vegar er rétt að klóra í bakkann með aukafjárveitingu í fjáraukalögum til Rannsóknasjóðs og háskólans upp á 55 millj. kr. og er það auðvitað vel og ekki nema gott um það segja. En það er umhugsunarefni að setja slíkar væntingar af stað um þessa þróunar- og rannsóknastarfsemi í tómri vitleysu og láta fara að undirbúa slíka hluti sem menn vita fyrir fram að ganga ekkert eftir.
    Ég ætla ekki að hafa ýkjamörg orð um sjúkrahúsin í Reykjavík því að það verður komið inn á þau nánar á eftir í þessari umræðu. En ég vil byrja á að geta þess að forsvarsmenn allra stóru spítalanna voru í viðtölum hjá fjárln. í morgun. Og það var einmitt þess vegna, að við gátum ekki komið þeim viðtölum á þann tíma sem við ætluðum, að fundi var frestað hér í Alþingi um hálftíma og vil ég þakka virðulegum forseta þá tillitssemi. En forsvarsmönnum spítalanna lá mikið á hjarta. Það var reyndar verið að ræða um fjárlög fyrir næsta ár, en spítalarnir koma inn í fjáraukalagafrv. 1993 með verulegar upphæðir. Einkum er það þó Landakot þar sem gert er ráð fyrir að aukafjárveiting sé 90 millj. kr. og 10 millj. kr. fært á stofnkostnaðarliðum. Þetta er hreinlega til að halda spítalanum gangandi eftir þær aðgerðir sem gerðar hafa verið. Og eftir allar þær sparnaðaraðgerðir sem gerðar hafa verið koma forsvarsmenn spítalanna á fund fjárln. í morgun og segja að fjárveitingar næsta árs sem spítölunum eru ætlaðar í fjárlagafrv. séu með þeim hætti að það verði að skera niður þjónustu ef eigi að búa við það. Eða eins og einn þeirra orðaði það: ,,Við höfum æfingu í því að brjóta niður spítalann og ég vona að við verðum ekki látnir nota þá æfingu áfram.`` Þetta er nú aldeilis dómur yfir þeim aðgerðum sem gerðar hafa verið í spítalarekstri á undanförnum árum. Þetta kemur inn á þetta fjáraukalagafrv. að því leyti að Landakotsspítali er með 100 millj. kr. aukafjárveitingu, 10 millj. af því eru tilfærsla og síðan er St. Jósefsspítali í Hafnarfirði með 27 millj. til þess að sjá rekstri spítalans farborða og laga til skuldahala þar. Auðvitað er óhjákvæmilegt að gera þetta og ég er ekki að mæla á móti því en þetta sýnir bara að sú aðför, ef svo má segja, sem gerð var í þessum málum um áramótin 1991 og 1992 var illa undirbúin og er okkur fjárlaganefndarmönnum a.m.k. í fersku minni og við erum enn þá að súpa seyðið af henni. Og menn skulu minnast þess þegar hæstv. fyrrv. heilbrrh., sem er ekki við þessa umræðu frekar en aðrir ráðherrar, fer að berja sér á brjóst og tala um sparnað í þessu efni.
    Ég gat þess áðan að það væri listi sem fylgdi frv. yfir fjárframlög í tengslum við kjarasamninga til framkvæmda upp á 1 milljarð kr. Ég hef gagnrýnt þau vinnubrögð sem voru við úthlutun á þessu fé. Það er mjög einkennilegt og ætti að vera umhugsunarefni fyrir þingmenn almennt og fjárlaganefndarmenn og ekki síst forsætisnefnd Alþingis að þrátt fyrir þá breytingu sem orðin er á þingsköpum, þrátt fyrir þá breytingu sem orðin er á þinginu, þá er þingið sniðgengið í vaxandi mæli í störfum framkvæmdarvaldsins. Það hefði ekki verið mikið verk og það hefði átt að vera í lófa lagið að kalla saman fjárln. hvenær sem var í sumar til að fjalla um skiptingu á þessu fé ef það á að fara að réttum leikreglum. Við sitjum hér heilu dagana og erum að fjalla um skiptingu á safnliðum sem er allt ofan í 100 þús. kr. en svo geta hæstv. ráðherrar skipt milljörðum á hné sér án þess að þingið komi þar nokkuð nærri. Ég gagnrýni þessi vinnubrögð, og það kemur fram í áliti minni hlutans, mjög harðlega.
    Það hefur komið fram í umræðunni undanfarnar vikur að hluti af þessari upphæð, rúmlega helmingur, eru ónotaðar heimildir í stofnkostnaði frá fyrra ári. Það má spyrja sem svo: Hvernig í ósköpunum stendur á því að í atvinnuástandi eins og það er nú, þegar er um 3% atvinnuleysi eins og var á fyrra ári, að það skuli vera ónotaðar heimildir til opinberra framkvæmda upp á rúmlega hálfan milljarð kr.? Það eru verulegir peningar. Og það hefðu áreiðanlega einhverjir fengið atvinnu við að framkvæma fyrir hálfan milljarð kr. Þetta hefur komið til umræðu úti í fjárln. en svörin hafa ekki legið í augum uppi. Ég minnist þess að ég spurði starfsmenn Ríkisendurskoðunar álits á þessu efni, hvað þeir teldu að væri hér valdandi að það væru svo miklar heimildir eftir. En það lágu ekki í augum uppi svör við því. Ég er ekki að segja með þessu að það eigi að vera búið að eyða hverri krónu um áramót, langt frá því. En ég held að almenn svartsýni og samdráttur, svartsýni stjórnvalda og samdráttarstefna sé hreinlega að draga úr mönnum kjark. Menn reyna að tryggja sig og halda að sér höndum og það kemur fram í þessu. Síðan koma útgjöldin annars staðar í stórauknum framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs sem fær 1,2 milljarða framlag á þessum fjáraukalögum og 1,2 milljarðar eru engin smáupphæð. Og fer furðu hljótt sú frétt og skýrsla sem liggur hér á borðum okkar þingmanna um að kostnaður við atvinnuleysi hér í landinu á þremur árum er yfir 20 milljarðar kr. að mati nefndar sem hefur fjallað um það mál, 20 milljarðar í útgjöld og tekjutap á þremur árum vegna atvinnuleysis. Það er hætt við að það að nefna þessa tölu segi ekki mikið. Það sagði einn frægur maður hér fyrir einhverjum áratugum: Hvað er milljón? Og það má eins segja: Hvað er milljarður? Og hvað eru 20 milljarðar? Það má geta þess að vegaframkvæmdir, nýframkvæmdir á vegum í landinu, liggja á bilinu 2,5--3 milljarðar kr., vegaframkvæmdir, viðhald og stofnkostnaður á einu ári svona rúmlega 6 milljarðar kr., ráðstöfunarfé Vegagerðarinnar. Af þessu má ráða hvaða upphæðir er hér um að tefla þannig að það er ekkert smáræði sem liggur í því ef hægt er að bæta atvinnuástandið í landinu og gera ráðstafanir til þess að svo verði.
    Ríkisstjórnin telur sér nú til gildis um þessar mundir að hafa lækkað vextina og ég hef sagt sem svo þegar hæstv. ráðherrar hafa hælt sér mest af þessu að þetta sé jafnvel eins og þegar við skólafélagarnir í Reykholti í gamla daga áttum að þvo gólfið á kvöldin. Við helltum vatnsglasi á mitt gólfið, þurrkuðum yfir og þá var gólfið orðið hreint. Ég er hræddur um að undir kojunum sé nefnilega eitthvað og þessi vaxtalækkun sé ekki nóg til þess að koma atvinnulífinu í gang aftur. Vextir eru nefnilega enn þá í efri kantinum sem nokkurs staðar gerist hvort sem miðað er við vexti af ríkisskuldabréfum eða raunvexti í bönkum sem eru enn þá frá 10--15%. Þannig að hér er ekki búið að snúa við blaðinu. Því miður. Og það er sjálfsblekking að halda að það sé búið að snúa við blaðinu í þessum efnum.
    Ástandið er þannig í atvinnulífi landsins að bankarnir eru lamaðir vegna útlánatapa. Þeir halda að sér höndum, þeir þora ekki að taka í viðskipti ný fyrirtæki. Ég hef mýmörg dæmi þess að menn sem eru að brjótast áfram í nýjum fyrirtækjum fá hvergi áheyrn í bankakerfinu vegna þess að menn halda að sér höndum og þora ekki að sækja fram á ný mið. Og það hefur ekkert verið gert af hálfu stjórnvalda til að reyna að bæta hér úr. Ef bankarnir eru ekki færir um að fjalla um það á opinberum vettvangi, hvaða úrbætur eru hér mögulegar? Meðan svo er fáum við á fjáraukalögum ómældar upphæðir inn í Atvinnuleysistryggingasjóð í aukafjárveitingar á ári hverju.

    Ég ætla ekki í þessari umræðu að fjalla í löngu máli um Hagræðingarsjóð, sem er alveg sérmál, ég mun geta gert það síðar. Ég þykist vita að Herjólfur sé á sjó enn þá og hæstv. sjútvrh. sé á sjó. En ég hefði þurft að spyrja hann að því sem við fengum ekki upplýst í fjárln. hvort það sé meiningin að fá einhverjar tekjur af sölu aflaheimilda á þessu ári. Það er verið að biðja um 300 millj. til Hafrannsóknastofnunar í þessu fjáraukalagafrv. og það væri fróðlegt að vita hvernig það lítur út, hvort þessi frumvörp, sem boðað er að lögð verði fram um sjávarútveginn, koma fram, hvort það er ætlunin að úthluta aflaheimildum á yfirstandandi fiskveiðiári ókeypis eða selja þær. Þetta þarf ég að ræða við hæstv. sjútvrh. þegar hann kemur, en ég ætla ekki að orðlengja um þessi mál frekar nú að sinni.
    Um einstakar tillögur til aukinna útgjalda sem eru af smærra tagi ætla ég ekki að vera langorður. Hv. formaður fjárln. gerði grein fyrir þeim brtt. sem meiri hlutinn leggur fram. Ég gat þess og það kemur fram í nál. að flutt er brtt. um að Ríkisspítölunum verði bætt tekjutap þeirra eða lækkun sértekna sem varð vegna þess að sala Þvottahúss Ríkisspítalanna hefur ekki gengið eftir. Ríkisspítalar herma upp á fyrrv. heilbrrh. loforð þessa efnis og það væri fróðlegt að heyra álit núv. heilbrrh. á þessu máli. Við teljum að þetta verði að bæta og brtt. segir sig sjálf í rauninni að þessu leyti.
    Ég hef aðeins minnst á þennan lið undir forsrn. um heimilisiðnaðinn, geri ekki athugasemd við liðinn. Málið er þarft og gott en ég tel að það þurfi að endurskipuleggja það með hverjum hætti þessu fé er úthlutað og hafa það ekki á víð og dreif um kerfið.
    Það má nefna smærri liði eins og þann að lagt er til að sértekjur Veðurstofunnar verði lækkaðar um 10 millj. Þarna er um eina vitleysuna sem lagt var upp með hér í fyrra að ræða þegar einhverjum snillingum datt það í hug að selja flugfélögunum veðurfréttir áður en þær færu í loftið til þess að gæta aðhalds og sparnaðar og sparnaðurinn á þá væntanlega að vera í því fólginn að menn fari í loftið án þess að gá að því hvernig veðrið er. En það er ekki nóg með það heldur þó að þetta hafi ekki gengið eftir á þessu ári og þurfi að lækka þessar heimildir, þá á að leggja upp með sömu vitleysuna á næsta ári. Það vill nú svo til að veðurstofustjóri, bæði fráfarandi og viðtakandi, hafa komið á fund fjárln. og vita ekkert hvernig þeir eiga að fara að því að innheimta þetta. Þeir eru algjörlega ráðalausir í því. Hér í fjáraukalögunum hafa menn viðurkennt vitleysuna, dregið þetta til baka en leggja svo upp með þetta aftur í fjárlögunum.
    Það eru hér einnig inni lækkanir fjárheimilda. Það er lækkun til Lánasjóðs ísl. námsmanna upp á 60 millj. kr. Jú, sumir segja að þetta sé kannski ágætt og vissulega er þarna um sparnað að ræða. En þegar farið er að líta á það nánar hvernig sá sparnaður er til kominn, þá kemur það í ljós að hann er vegna þess að annaðhvort hafa námsmenn ekki hafið nám, þeir hafa hætt námi eða ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru og auðvitað er sparnaðurinn kominn til vegna þess að námsmenn hafa verið hraktir frá námi meira og minna upp á 60 millj. kr. Ég vil því biðja hv. þm. að setja spurningarmerki við þennan sparnað til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það væri verðugt verkefni að fara betur ofan í þá liði, en forsvarsmenn lánasjóðsins hafa ekki komið á fund fjárln. enn til þess að skýra út málefni sjóðsins svo að umræða um það af minni hálfu bíður umræðu um fjárlögin sem verður vafalaust hér innan tíðar því að auðvitað koma þessi mál áfram til kasta fjárln. í umfjöllun um fjárlögin.
    Þessi fjáraukalög sýna svo ekki verður um villst að ríkisstjórninni hefur mistekist að hafa þá forustu í þjóðfélaginu að koma hjólum atvinnulífsins til að snúast. Það er meginástæðan fyrir því að halli á fjárlögum yfirstandandi árs verður a.m.k. 13,8 milljarðar kr. í stað 6,2 milljarða sem lagt var upp með. Samdráttur í tekjum ríkissjóðs vegna samdráttar í atvinnulífinu og samdráttar í neyslu af þeim sökum er önnur ástæðan. Síðan er hin ástæðan vitlausar ákvarðanir, áform sem ekki hafa gengið eftir og það er ástæðan fyrir þessum rúmlega 7 milljörðum sem ber á milli fjárlaga og fjáraukalaga. Þetta er engin smáupphæð og það er ekkert smáverkefni, það er ekki lítið verkefni sem bíður ef á að snúa þessari þróun við. Það er nú svo að hæstv. forsrh. hefur kosið að tala með nokkurri bjartsýni nú um sinn. Hæstv. utanrrh. talaði í haust með mikilli svartsýni. Ég hef ekki heyrt að hann hafi sagt neitt núna upp á síðkastið. Ég veit ekki hvar hann er niður kominn, en það er alveg ljóst að þessi hæstv. ríkisstjórn verður að láta hendur standa fram úr ermum ef hún á að hafa þá forustu að atvinnulíf landsins fari að snúast á ný með eðlilegum hætti. Ef svo verður ekki, þá verður næsta fjáraukalagafrv. sem við fjöllum um árið 1994 enn þá verra heldur en þetta og er það þó nógu slæmt.