Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 12:17:17 (2136)

[12:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vildi vekja á því athygli að það er þunnskipaður ráðherrabekkurinn. Hér er á dagskrá fjáraukalagafrv. og samkvæmt venju og hefð geri ég ráð fyrir því að þeir hæstv. ráðherrar sem menn kjósa að eiga orðastað við verði viðstaddir umræðuna eins og jafnan hefur verið ef eftir er óskað og ég ætla að byrja á því að beina máli mínu að hæstv. fjmrh., sem ég gef mér nú að sé ekki langt undan, en einnig er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. sjútvrh. komi til umræðunnar áður en henni lýkur. Ég heyrði nú ekki orðaskipti sem voru hér áðan um einhverjar ferðaraunir hæstv. sjútvrh., hvort hann var einhvers staðar á sjó eða hvað en það skiptir ekki öllu máli. Ég vil að það komi fram strax að ég þarf að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. áður en umræðunni lýkur af minni hálfu.
    Ég vil fyrst segja það um ríkisfjármálin að þetta er óskapleg sorgarsaga hjá hæstv. núv. fjmrh.

Hæstv. núv. fjmrh. er eins og kunnugt er einn af forvígismönnum frjálshyggjunnar í Sjálfstfl. og mun það vera staðfest í nýútkominni ævisögu hv. 1. þm. Vestf. að svo sé og honum jafnvel eignaður heiðurinn af því að hafa fundið upp kjörorðið ,,Báknið burt``. Þá riðu ungir sjálfstæðismenn um héruð á stuttbuxum að sumir segja og hugðust skera stórkostlega niður ríkisútgjöld og leggja niður báknið og einkavæða og þar fram eftir götunum. Og nú er sem sé þessi merki frjálshyggjuuppfinningamaður, Friðrik Sophusson, hæstv. fjmrh., kominn í þá valdaaðstöðu sem þá hefur væntanlega dreymt um, unga sjálfstæðismenn á þessum árum, sjálfa slátrarastöðuna, að vera fjmrh. og geta með stjórn á ríkisútgjöldunum svelt báknið til hlýðni ef svo má að orði komast. Enda stóð nú ekki á því. Hæstv. fjmrh. hafði uppi býsna sverar yfirlýsingar þegar hann tók við embætti fyrir um það bil tveimur og hálfu ári síðan --- og er það þannig að hæstv. fjmrh. sé ekki viðstaddur?
     (Forseti (SalÞ): Hann er viðstaddur. Forseti taldi að hann væri hér í hliðarherbergi og heyrði mál hv. þm.)
    Já, mér finnst nú svo mikil prýði að hæstv. fjmrh. að ég vil endilega að hann sé hérna inni í þingsalnum þannig að við fáum að berja hans ásjónu augum. A.m.k. vill maður að það sé tryggt að hæstv. ráðherra heyri það sem við hann er sagt. Það er reyndar afar hvimleitt, hæstv. forseti, að mati ræðumanns hversu þunnskipaðir eru hér bekkirnir. Er ekki rétt að það standi til að gefa mönnum hádegisverðarhlé kl. 1? Ég spyr nú eiginlega til hvers það sé ef flestallir ef ekki allir hafa laumast í hádegismat og skrópað á meðan. Auðvitað ber ekki að refsa þeim fáu samviskusömu sem hér sitja, en ég vona alla vega að hæstv. fjmrh. sé ekki svo vannærður þó að hart sé í ári að hann þoli við þar til kl. 1. ( Fjmrh.: Hann er ekki vanur að borða yfir sig.) Nei, og er auk þess ekki vanur að borða yfir sig, segir hæstv. ráðherra.
    Hæstv. forseti. Ég var að ræða það að hæstv. fjmrh. hefði verið einn af þessum forvígismönnum frjálshyggjunnar í Sjálfstfl. og mun að vera staðfest í nýútkominni ævisögu og hæstv. fjmrh. jafnvel eignaður höfundarrétturinn á slagorðinu mikla ,,Báknið burt``. Og nú er rétt að líta aðeins yfir það hvernig hæstv. ráðherra hefur vegnað í þessu samhengi í störfum. Ef ég man rétt voru gefin um það mikil loforð af hálfu hæstv. fjmrh. eða yfirlýsingar að þannig ætti að taka á í ríkisfjármálunum að sennilega yrði óhjákvæmilegt að nokkur halli yrði á ríkissjóði eins og fyrstu tvö árin sem hæstv. ráðherra færi með þau mál en síðan skyldi stefnt að því að á næsta ári þar á eftir yrði ríkissjóður rekinn án halla. Og það mun þá sennilega hafa verið frekar árið 1994 heldur en 1993, skiptir þó ekki öllu máli. Og svo var stefnt að því að reka ríkissjóð með afgangi þannig að ekki átti að vera vafi á því hver þróunin yrði. Sjálfsagt hefur þetta allt saman átt að falla í eina heild, þ.e. með snilld í fjármálastjórn og skynsamlegri efnahagsstefnu og batnandi árferði af þeim sökum í efnahagslífinu og hvað tekjustreymi ríkissjóðs snertir og svo með því að skera niður báknið, einkavæða og reka ríkissjóð fyrir söluhagnaðinn, þá mundi þetta allt ganga upp. Nú er rétt að líta aðeins á hvernig staðan er og það hefur auðvitað þegar verið rakið hér að nokkru leyti.
    Ég vil líka taka þetta inn í það samhengi sem mikið hefur verið rætt um á undanförnum árum, þ.e. samhengið milli ríkisútgjaldanna, halla ríkissjóðs og lánsfjáreftirspurnar ríkissjóðs annars vegar og vaxtastigsins í landinu hins vegar. Það er afar fróðlegt að fara nú yfir þá hluti sem gerst hafa eða vonandi eru að gerast og bera það saman við yfirlýsingar og fullyrðingar manna á undanförnum missirum um samhengi þessara hluta. Þetta er þannig í ríkisútgjöldunum að þegar verið var að vinna að fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár, síðsumars og um haustið 1992, þá stigu menn á stokk og strengdu þess heit hver um annan þveran, og man ég alveg sérstaklega eftir bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. í því sambandi, að það væri alveg lífsnauðsynlegt að halda halla ríkissjóðs innan við 5 milljarða kr. Sú tala var mjög oft nefnd og ég veit að hæstv. fjmrh. getur staðfest þetta því að markmiðið var ábyggilega að leggja frv. fram með minni halla en 5 milljörðum. ( Fjmrh.: Sex.) Fjárlögin enduðu í 6,2, en var það nú ekki þannig að menn væru að berjast við einhverja 5 milljarða grensu í þessu efni, skiptir ekki öllu máli. En það var alla vega útlagt af þessum miklu spekingum um efnahagsmál sem alveg afar viðkvæmt jafnvægi þarna sem alveg sérstaklega skipti sköpum gagnvart viðleitni við að ná niður vöxtum. Og ríkissjóðshallinn mætti alls ekki fara upp fyrir þetta bil ef ætti að vera hægt að ná niður vöxtunum. Fjárlögunum var lokað eins og kunnugt er með 6,2 milljarða halla og nú stefnir þessi halli í að verða tæpir 14 milljarðar á árinu eða ég veit ekki betur en hér liggi fyrir áætlun upp á halla ríkissjóðs um 13,8 milljarða, er það rangt? ( Fjmrh.: Já, það er eigið . . .  ) Ég held að hæstv. fjmrh. verði þá að skýra þetta betur en ég taldi mig nú ekki fara fjarri lagi með það að nefna þá tölu. ( Fjmrh.: Það er munur á útgjöldum annars vegar og halla hins vegar.) Við skulum svo bara sjá til hver hallinn verður að lokum, hæstv. fjmrh. Það hefur nú oft reynst hyggilegt að hafa ekki mjög stór orð um það því að gjarnan hefur þetta viljað verða heldur ljótara þegar upp er gert svona nokkra mánuði inn á næsta ár þegar öll kurl eru komin til grafar, eins og sagt var aðallega, sjaldan gert í dag.
    En mér finnst þetta nokkuð athyglisvert að menn ræddu sem sagt mikið á þessum árum, 1992--1993, um það hversu afar mikilvægt þetta væri um ríkisfjármálin að halda hallanum þarna niðri og helst hafa hann engan og hæstv. utanrrh. t.d. hefur haldið marga heita ræðuna um það að þetta sé alveg úrslitaatriði svo að við lendum nú ekki Færeyjaleiðina. Og svo stöndum við frammi fyrir því að á því ári einmitt sem hallinn verður einna mestur í sögunni eins og hann stefnir á þessu ári og á því ári sem fjárlagafrv. fyrir í hönd farandi ár er lagt fram með meiri halla en nokkurn tíma áður hefur verið sýndur í fjárlagafrv., einmitt þá telja menn hinar einu réttu forsendur vera komnar til að lækka vextina og nú hafi

akkúrat verið nákvæmlega rétti dagurinn, 29. okt., hvorki degi fyrr né degi seinna, þá hafi verið hið rétta jafnvægi fundið til að lækka vextina. Þetta er formúla hæstv. forsrh. og blessunarlega virðast vextirnir hafa lækkað. Reyndar kemur það heim og saman við þá skoðun margra að hér hafi í raun og veru verið haldið uppi vöxtum með alveg sérstöku handafli langt upp fyrir það eða ofan við það sem nokkur ástæða væri til. Auðvitað er þessi sorgarsaga í ríkisfjármálastjórn hæstv. fjmrh. þannig að það er ekki vel gert þegar í hönd fer svartasta skammdegið að vera að rifja þetta of mikið upp. Væntanlega eru raunir hæstv. fjmrh. nægar fyrir og svo að ég tali nú ekki um að vera að rifja upp yfirlýsingar, loforð og heitstrengingar frá því sitt hvorum megin við alþingiskosningar 1991 um skattalækkanir og annað því um líkt, um það að reka ríkissjóð hallalaust á síðari hluta kjörtímabilsins og helst með afgangi undir lokin. Þetta stefnir í þveröfuga átt eins og ljóst er.
    Vissulega er það svo, hæstv. forseti, að versnandi ytri skilyrði eiga þarna hlut að máli og það dettur mér ekki í hug að draga fjöður yfir, að auðvitað ber að líta á það. Ég veit ekkert hvort er ástæða til eða ætlandi að reyna að nefna einhver hlutföll í því sambandi eða vega og meta áhrif einstakra þátta í þessu. En ég get alveg sætt mig við það að við getum sagt sem svo að versnandi ytri skilyrði hafi a.m.k. gert það að verkum að það hafi verið erfitt að ná hallanum niður fyrir það sem hann hefur verið að breyttu breytanda að meðaltali á árabilinu frá því að fór að þyngjast fyrir fæti í okkar fjármálum eftir góðærið 1987, þ.e. ef maður tæki meðaltal frá 1988 til og með nú. En hitt er ekki nokkur vafi að þessar ógöngur eru að hluta til heimatilbúinn vandi hæstv. ríkisstjórnar og það ber okkur auðvitað alveg sérstaklega að ræða því að því getum við ráðið, haft áhrif á, ekki hinu eða síður hinu sem lýtur að óbreytanlegum ytri skilyrðum sem eru ekki í valdi okkar Íslendinga. Við verðum að sjálfsögðu að sæta þeim og bregðast við þeim eins og kostur er, en við getum þar ekki upprætt orsökina, en það ættum við að einhverju leyti að geta varðandi okkar eigin stefnumörkun og viðbrögð.
    Hér blasa til að mynda við tveir hlutir sem hæstv. ríkisstjórn verður auðvitað að bera alla pólitíska ábyrgð á, dellumakarí sem hæstv. ríkisstjórn ber alla pólitíska ábyrgð á, er hennar eigin sjálfskaparvíti og það er til að mynda fíflaleg uppsetning á tekjum vegna einkavæðingar fyrirtækja ár eftir ár. Hvað á svona endaleysa að þýða eins og að setja upp fjárlagafrv. með 1,5 milljarða í tekjur af einkavæðingu fyrirtækja sem reynist svo hvorki vera dugur né pólitískur bakgrunnur fyrir, ekki einu sinni innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Var það ekki svo að inni í þessari tölu sem hér er verið að hverfa frá og gefast upp með, einkavæðing upp á 1,5 milljarða, væru til að mynda hugmyndir um sölu á Búnaðarbankanum? Og hvernig stendur það mál? Það lá ljóst fyrir þegar þessi tala var sett á blað, ef ég rétt veit, að til að mynda hæstv. félmrh. var ekki inni á þeim áformum og hafði allan fyrirvara á um það. Var það þá gáfulegt að byggja fjárlagafrv. upp á því að eftir sem áður mundu koma tekjur af þessari sölu og einkavæðingu bankans fyrir nú utan hvað það er efnislega vitlaust og alveg gersamlega út í hött að ætla að fara að fleyta sér í gegnum erfiðleikana með því að ganga kannski á einhverjar verðmætustu eignir ríkisins og þær sem síst er ástæða til að kasta frá sér? En þetta er nú svona samt. Í frv. er gert ráð fyrir því að 1.500 millj. kr. skili sér í gegnum einkavæðingu. En nú er sem sagt komið á daginn að þetta verður aðeins minna eða 100 millj. kr. Það munu vera, ef ræðumaður kann rétt að reikna, 6,67% af því sem til stóð. Það er þó nokkur skekkja ef því væri snúið upp á hinn veginn og reiknað út í hundruðum prósenta sem þarna skakkar, að fá 100 millj. í staðinn fyrir 1.500.
    Eitt stóráfallið t.d. í þessum reikningum er að það hefur mistekist að einkavæða Þvottahús Ríkisspítalanna. Það er hér til umfjöllunar í frv. Það er hæstv. fjmrh. örugglega mikið pólitískt áfall að það skuli hafa mistekist að einkavæða Þvottahús Ríkisspítalanna. Eins og kunnugt er stóð til að græða á því eða fá heilar 60 millj. kr. á árinu í ríkissjóð með einkavæðingu Þvottahúss Ríkisspítalanna, takk fyrir, og um það var flutt ákaflega merkt frv. hvernig ætti að koma fyrir kattarnef þessari miklu miðstýringu og þessu mikla ríkisbákni sem þvær línið á Landspítalanum. Þetta gekk sem sagt ekki eftir frekar en ýmislegt annað og af því stafar m.a. gatið sem hæstv. fjmrh. er að afla heimilda til að brúa.
    Ég held að þessi áform og þessi uppsetning fjárlagafrv., að koma svo innan við ári síðar og biðja um heimild fyrir 1.400 millj. kr. lántökum í staðinn fyrir þessa áformuðu einkavæðingu og sölu af eignum, það er auðvitað ekki mjög góður svipur á þessu fyrir hæstv. fjmrh. að þetta skuli fara svona ár eftir ár. Nú sé ég að vísu að inn í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er komið talsvert raunsærra mat á þessa stöðu og ef ég man rétt er þar reiknað með 500 millj. vegna sölu á ríkiseignum eða einkavæðingar og sennilega er Þvottahús Ríkisspítalanna inni í því með 60 millj. ( Fjmrh.: Hvorki þeirri tölu né . . .  ) Nú, nú. Hvað átti að gera við 60 millj. fyrir Þvottahús Ríkisspítalanna? ( Fjmrh.: Beint til Ríkisspítalanna.) Já, og er það þá til viðbótar sem sagt? ( Fjmrh.: Já.) Það er rétt já, þannig að það er þá inn í rekstrarlið Ríkisspítalanna sem sú vöntun kemur fram. Gott og vel. ( Fjmrh.: Maður lærir af reynslunni.) Við hjálpumst að við það, hæstv. fjmrh. Ég vona að hæstv. fjmrh. sé líka að læra af reynslunni og ég tel út af fyrir sig að hann sé að gera það, t.d. með því að átta sig á því að það er ekki líklegt að hann einkavæði fyrir 1,5 milljarða á næsta ári. Það er bara hreinlega ekki líklegt. Reynslan hefur sýnt hæstv. fjmrh. það að þetta reynist í framkvæmd svolítið flóknara en til stóð með báknið burt og þetta með að reka ríkissjóð með hagnaði o.s.frv. sem var auðvelt að segja á góðum dögum í upphafi hveitibrauðsdaganna en það er svolítið öðruvísi í reynd. Þeir eru auðvitað ekki langir hjá þessari ríkisstjórn.
    Annað atriði sem eðlilegt er að ræða og flokkast undir þetta síðara sem ég nefndi, þ.e. pólitíska

stefnu ríkisstjórnarinnar og pólitískar ákvarðanir og pólitísk verk sem ríkisstjórnin sjálf hlýtur að þurfa að svara nokkuð til, eru afleiðingar stjórnarstefnunnar eins og þær birtast í vaxandi atvinnuleysi í landinu og tekjusamdrætti ríkissjóðs. Það er ekki nokkur vafi á því að stjórnarstefnan hefur þar veruleg áhrif á, því er ekki nokkur leið að neita. Og það er afar mikil einföldun t.d. að ætla að kenna versnandi ytri skilyrðum um það allt sem þar er á ferðinni.
    Hæstv. forsrh. grípur gjarnan til þorskbrestsins þegar hann er kominn í kastþröng og þeir fleiri hæstv. ráðherrar og þurfa að útskýra vandann. Staðreyndin er sú að það hefur sáralítill þorskbrestur orðið í veiðum eins og þetta birtist í veiðum og aflaverðmæti fyrr en þá síðustu mánuði þessa árs að útflutningstekjurnar eru að falla. En hann blasir hins vegar við á næsta ári. Það er út af fyrir sig alveg ljóst að menn eiga það fram undan að taka á sig nokkurn samdrátt í þessum efnum. En menn geta skoðað útflutningstölur, bæði um magn og furðanlega verð einnig, alveg fram á síðustu mánuði og það er t.d. ljóst að aflinn fyrstu 10 mánuði þessa árs er einn sá mesti í sögunni og meiri en í fyrra. Og verðmætin hafa haldist furðanlega uppi þrátt fyrir fallandi afurðaverð, þá meina ég útflutningsverðmætin, vegna þess að menn hafa framleitt í verðmætari pakkningar og menn hafa flutt sig til á mörkuðum o.s.frv. Þannig að þegar upp er staðið er fall útflutningsteknanna miklu minna en ætla mætti. Það dugar því skammt til að skýra þann mikla tekjusamdrátt sem orðið hefur og þetta stóraukna atvinnuleysi sem ég held að sé að verulegum hluta til afleiðing rangrar stjórnarstefnu, afleiðing þessarar sjálfshengingarpólitíkur sem ríkisstjórnin hefur rekið, að skera sjálfa sig niður við trog og tekjumöguleika ríkissjóðs og skrúfa þannig niður í efnahagslífinu öllu sem af því leiðir, vaxandi atvinnuleysi og minnkandi tekjur ríkissjóðs, aukinn halli, stærra fjárlagagat o.s.frv. Þetta er önnur meginskýringin á því á þeim aukna fjárlagahalla sem hér er sérstaklega til umræðu af því að í fjáraukalagafrv. er verið að afla heimilda fyrir því. Þannig er í raun og veru hæstv. ríkisstjórn að fá eigin stefnu í hnakkann og er vonum seinna í sjálfu sér að hún mæti afleiðingu eigin gerða að þessu leyti til. Afganginn tekur hún svo út í dómi kjósenda þegar kosið verður næst.
    Ég ætlaði svo, hæstv. forseti, að gera hér að umtalsefni atriði, og er nú eiginlega mjög bagalegt að hæstv. sjútvrh. er ekki viðstaddur til að hlusta á. Það varðar fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar á yfirstandandi ári og þá niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar að horfið verði frá sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs sem er út af fyrir sig fagnaðarefni að ríkisstjórnin er þar að átta sig á mistökum sínum og hverfa frá þeirri vitlausu stefnu sem það alltaf var að láta sér detta í hug þessa sölu til að afla rekstrarfjár og merkja það út af fyrir sig hafrannsóknum eða einhverju öðru. En staðan í því máli er hins vegar afar kúnstug og það er algerlega óhjákvæmilegt að nefna það hér og ég ætla að gera það í stuttu máli og taka það þá fyrir betur þegar hæstv. sjútvrh. verður mættur til leiks að það er alveg óhjákvæmilegt að vekja atygli á þeirri stöðu sem uppi er í því máli um leið og þetta er tekið fyrir og heimilda aflað til þess að færa yfir til Hafrannsóknastofnunar aukafjárveitingu upp á 300 millj. kr. vegna þess að stofnunin fær ekki þær tekjur af sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Staðan er sú að fyrir einum tíu dögum eða svo viðurkenndi meira að segja hæstv. sjútvrh. að það gæti ekki gengið að ríkisstjórnin kæmist ekki að niðurstöðu í þessu máli vegna þess að það væri verið að brjóta lög í landinu. En gildandi lög eru eins og kunnugt er á þá leið að strax 1. september í haust átti stjórn Hagræðingarsjóðs að hefja sölu á veiðiheimildunum og bjóða útgerðum í landinu í hlutfalli við aflaheimildir, veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs sem þá voru eftir óráðstafaðar að undangenginni úthlutun til sveitarfélaga, veiðiheimildirnar til kaups. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því að ef ein einasta útgerð í landinu tæki sig til núna og leitaði réttar síns fyrir dómstólum þá væri ríkið gersamlega flatt fyrir í því máli og stjórn Hagræðingarsjóðs sek um það að hafa ekki framkvæmt lögin eins og þau eru gildandi og ótvíræð. Hæstv. sjútvrh. viðurkenndi þetta í raun á dögunum fyrir nokkru og talaði þá um daga í því sambandi, það gæti ekki dregist nema daga að niðurstaða fengist í þetta mál og ríkisstjórnin þá eftir atvikum breytti lögum þannig að þau yrðu ekki brotin áfram með þeim hætti sem gert hefur verið frá og með mánaðamótum ágúst/september.
    Nú hefur ekkert af þessu frést, ekki orð, ekki spor. Það eru líklega liðnir einir 10 dagar síða þessi orðaskipti fóru hér fram og samkvæmt mínum heimildum hefur málið í raun og veru ekki hreyfst í ríkisstjórninni. En ríkisstjórnin hefur samt smekk í sér til þess að koma með á dagskrá og til afgreiðslu fjáraukalagafrv. þar sem málefni Hagræðingarsjóðs koma við sögu í því formi að óskað er eftir aukafjárveitingu til Hafrannsóknastofnunar þar sem ekki komi neinar tekjur af sölu veiðiheimildanna á þessu ári eins og til stóð og engar skýringar gefnar á því hvernig málið standi að öðru leyti.
    Saga þessa máls, hæstv. forseti, er eitthvert mesta reginhneyksli í samskiptum framkvæmdarvaldsins við lagaákvæði af þessu tagi sem lengi hefur orðið til og í raun og veru aldeilis ótrúlegt ef farið er yfir það allt frá byrjun þegar ríkisstjórnin rauk til og eyðilagði ákvæðin um Hagræðingarsjóð eins og þau voru, kippti m.a. út þeim ákvæðum sem inni í sjóðnum voru til ráðstöfunar gagnvart byggðarlögunum sem lentu í erfiðleikum, setti þetta allt saman á markaðsgrundvöll, nú skyldi allt selt, þar á meðal veiðiheimildir til byggðarlaga í erfiðleikum og það er hjálpræði við þau að þau mega náðarsamlegast kaupa veiðiheimildir sem frá þeim hafa verið teknar í gegnum gjaldþrot eða annað því um líkt á markaðsverði og er nú að reyna á það m.a. á þessum dögum hvílíkt bjargræði það er Bíldudal að fá að kaupa til baka veiðiheimildirnar sem þaðan hafa horfið á fullu verði. Og auðvitað eiga menn enga peninga í slíku byggðarlagi sem orðið hefur fyrir þungum áföllum en það er nú samt hjálpræði sem þarna var skilið eftir handa sveitarfélögunum. Svo kom þetta mikla snjallræði að selja veiðiheimildirnar og borga með því rekstur Hafrannsóknastofnunar. Það var fullyrt að þetta væri alveg innan sjávarútvegsins, alveg snilld, sjávarútvegurinn mætti nú bara vel við una því að hann fengi allar þessar hafrannsóknir í staðinn. Því var að vísu alveg sleppt að skýra frá því að ríkissjóður hefði borgað þessar hafrannsóknir úr sameignlegum sjóði alveg fram að því en þetta var nú samt sett svona upp af hæstv. sjútvrh. Ég man eftir alveg makalausum ræðuhöldum þegar hann var í þessum útskýringum hvernig stæði á því að þetta væri ekki skattlagning á greinina, þetta væri ekki auðlindaskattur eða neitt í því líki vegna þess að ráðstöfun fjárins héldist innan sjávarútvegsins af því að það ætti að borga með þessu rekstur Hafrannsóknastofnunar. Og ég er alveg hissa á því að þeir skulu þá ekki koma hér og miklast yfir þessum mikla stuðning við sjávarútveginn sem felist í því að ríkissjóður ætli nú að reka Hafrannsóknastofnun.
    Síðan þekkja menn þessa sögu og það er ekki ástæða til þess að rekja hana hér. Hún er öll með miklum endemum. Þegar þorskkvótinn var svo skertur þá komu náttúrlega strax upp raddir skynsemdarmanna um að ein skynsamlegasta og eðlilegasta ráðstöfunin til að bregðat við því væri að útdeila veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs án endurgjalds til þeirra útgerða sem mestan samdrátt hefðu fengið á sig. Og hæstv. sjútvrh. mun hafa haft skoðanir í ríkisstjórn í þá veru en hann varð undir og sagði það sjálfur að við því væri ekkert að gera, hans sjónarmið hefði orðið undir og hann yrði náttúrlega bara að taka því, hann væri í minni hluta í ríkisstjórninni og hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. völtuðu yfir sjútvrh. og heimtuðu að veiðiheimildirnar yrðu seldar en í staðinn skyldu útgerðunum sendar ávísanir sem mundu fébæta þeim í raun og veru kaupin á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs. Og þannig átti þetta sem sagt að fara svona í dálítinn hring, niður í vinstri jakkavasann og upp úr þeim hægri aftur í formi ávísana til útgerða og hvernig þetta streymdi svo í gegnum líkamann sjálfan, þ.e. frá ríkisstjórninni, frá vinstri vasanum yfir í þann hægri, það veit ég ekki. (Gripið fram í.) Ja, einhvern vegin hefur þetta átt að komast milli fóðurs og ytra byrðis trúlega þarna á milli. Og við þetta stóð í allmarga mánuði. Og það er rétt að skjóta því hér inn í að í sjútvn. Alþingis sumarið 1992 komu fram eindregnar óskir um að því yrði frestað að hefja sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs sökum þess að ekki væri fullreynt hvort samstaða gæti skapast um það á Alþingi þó svo að ríkisstjórnin kynni að hafa aðrar hugmyndir að veiðiheimildunum yrði eftir sem áður ráðstafað með þessum hætti þ.e. ókeypis og til útjöfnunar. Þá brást stjórn Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, sem mun vera sama fyrirbærið og stjórn Fiskveiðasjóðs, þannig við að hún þvertók fyrir það að hægt væri að bíða með það dögum lengur að fresta því að hefja framkvæmd laganna og bjóða út veiðiheimildirnar strax á sl. hausti, þ.e. fyrir rúmu ári síðan. Og ekki var unnt að verða við tilmælum af því tagi að skapa þó ekki væri nema ráðrúm til að skoða það í einhverjar vikur. En nú bregður svo furðulega við að sama stjórn, því að mér er ekki kunnugt um að þar hafi einn einasti maður viki sæti eða annar bæst við, lætur það líðast mánuð eftir mánuð eftir mánuð að lögin séu brotin. Og ég vil spyrja, hvað hefur eiginlega breyst? Hefur verið skipt um forrit í þessum mönnum? Hvaða nýja lagatúlkun er það sem komið hefur til sögunnar að nú sé unnt að láta líða meira en fjórðung úr ári án þess að þessi lög séu framkvæmd? Þetta er til alveg stórkostlegrar skammar, herra forseti, og er þá ónefndur sá þáttur hvernig meiri hlutinn hér hefur níðst á stjórnarandstöðunni í sambandi við þetta mál og í raun og veru gersamlega misboðið þingræðinu með því að neita í fyrravor að afgreiða frumvörp stjórnarandstöðunnar sem gerðu ráð fyrir lagaheimildum í þessu skyni þannig að unnt væri að úthluta veiðiheimildunum og fella svo hér á dögunum brtt. um að nú mætti úthluta veiðiheimildunum með þeim hætti sem stendur til. Og þetta er mál sem er svo yfirgengilegt að manni verður eiginlega orða vant þegar maður á að fara að lýsa þeim ósköpum. Mér finnst forusta þingsins hér alveg afspyrnuaumingjaleg í þessu máli, hæstv. forseti, svo að ekki sé meira sagt, og á þar við formenn þingflokka og í raun og veru forsætisnefndina líka að láta þetta ganga svona til því þetta er auðvitað alveg forkostuleg vinnubrögð. Það er ekkert hægt að neita því. Að neita afgreiðslu á þessum frumvörpum í fyrravor og setja svo sömu ákvæði með bráðabirgðalögum nokkrum dögum síðar, að fella hér tillögu um það að útvega lagaheimildir til úthlutunar veiðiheimildanna, boða svo flutning á sama efni í formi stjfrv. síðar. Hvernig á þetta að vera? Er mönnum nákvæmlega ekkert heilagt í þessum efnum lengur?
    Ég tel þetta mikið hneyksli, hæstv. forseti, eins og ég hef vonandi komið hér sæmilega til skila og vil leggja mitt af mörkum til þess að halda þessu rækilega inni á spjöldum þingsögunnar og það er alls ekki að vita nema ég eigi eftir að nefna þetta nokkrum sinnum oftar í vetur til þess að þetta fari ekki fram hjá neinum. En ég mun e.t.v. nota tækifæri mitt í síðari ræðu og ræða þetta og þá að viðstöddum hæstv. sjútvrh. sem vonandi verður ekki mjög sjóveikur þegar hann kemur úr Herjólfi og getur haldist við undir umræðunni þegar hann hefur náð til þings.
    Þá vildi ég einnig nefna annað atriði sem kemur hér fram í fskj. með þessu frv. og varðar sjávarútveginn eða Hafrannsóknastofnun og fjallað er um á bls. 38 í greinargerð með fjáraukalagafrv. Það er í fyrsta sinn sem ég sé þetta atriði á prenti sem ég hafði reyndar frétt af. Það kann vel að vera að þetta hafi komið fram áður opinberlega á prenti en ég vil í öllu falli gera þetta hér lítillega að umtalsefni en það er áformuð ráðstöfun á eftirstöðvum eigna Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. En hér er það boðað að ríkisstjórnin ætti að láta eftirstöðvar eigna Verðjöfnunarsjóðs, því sem ekki hefur verið úthlutað til greinarinnar úr hinu einstöku deildum sjóðsins, renna til Hafrannsóknastofnunar og þá væntanlega beint í rekstur þeirrar stofnunar. Annað verður ekki ráðið af þessum upplýsingum sem hér koma fram. Nú kunna e.t.v. fjárlaganefndarmenn á þessu skil og ég vildi gjarnan fá það þá upplýst hvernig þetta hefur verið lagt fyrir í fjárln. ef einhverjar upplýsingar hafa verið um þetta veittar. Hér er að vísu hvorki formaður fjárln. né fjmrh. og það virðist vera ætlun ríkisstjórnarinnar að láta stjórnarandstöðuna um það að afgreiða þetta mál, a.m.k. að ræða það. Hér situr að vísu einn stjórnarsinni úti í horni, hv. 1. þm. Vesturl. og á hann alveg sérstakar þakkir skildar fyrir það að halda uppi heiðri ríkisstjórnarmeirihlutans hér sem telur 36 manns, en er nú samt þannig á sig kominn að einn af þessum 36 situr hér í þingsalnum, enginn ráðherra og ekki heldur formaður fjárln. Og sennilega eru þeir orðnir máttlausir af hungri og farnir niður í mat en eins og kunnugt er stóð til að gefa matarhlé kl. 1 en þeir hafa sennilega ekki mátt við því að bíða.
    Ég óska eftir upplýsingum um á hvaða grundvelli sú ákvörðun er byggð að láta eftirstöðvar eigna Verðjöfnunarsjóðs renna bara beint í rekstur Hafrannsóknastofnunar ef það er rétt. Ég tel þetta furðulega ráðstöfun og ég trúi því ekki að samtök sjávarútvegsins ætli að skrifa upp á þetta þegjandi og hljóðalaust. Mér er að vísu ljóst að að því leyti sem hér er um að ræða eldri eignir Verðjöfnunarsjóðs, þ.e. áður en þær voru sérmerktar greinum eða fyrirtækjum þá er hæpið að til ráðstöfunar geti komið í því formi að þetta verði greitt aftur út til greinarinnar en mér finnst þetta vera í raun hrein eignaupptaka á eignum sem sjávarútvegurinn auðvitað á og við slíkar aðstæður á að leita annarra leiða til að ráðstafa þessum eignum. Þetta gæti í vissum tilvikum gengið til sérstakra verkefna innan þeirra greina sem þarna eiga innstæður. Ég nefni sem dæmi eftirstöðvar í þeim hluta sjóðsins sem tengist rækju- og hörpudiski. Þar er af nægum verkefnum að taka sameiginlega fyrir þær greinar, t.d. markaðsátök í þágu þeirra greina og einhver hluti þessara verðmæta gæti gengið þangað. En að svo miklu leyti sem þetta yrði nýtt sameiginlega, þá hefði ég talið að þessar eignir ættu að renna t.d. í endurnýjunarsjóð rannsóknarskipanna en ekki í rekstur stofnunarinnar. Það er að mínu mati mjög óeðlilegt og ég kalla það aumingjaskap ef sjávarútvegurinn ætlar að skrifa upp á það þegjandi og hljóðalaust að þetta verði gert upptækt með þessum hætti í hreinan rekstur. Nú geta menn sagt að hafrannsóknirnar sem slíkar, að svo miklu leyti sem rekstur Hafrannsóknastofnunar skilar sér þannig í auknum hafrannsóknum, séu góðra gjalda verðar og vissulega eru þær það en ég tel að meðferð svona uppsafnaðra eigna, sem myndast hafa vegna gjaldtöku á greinar, það sé með öllu óeðlilegt að láta þær hverfa þannig inn í hítina og í raun fyrst og fremst lækka sem því nemur ríkisframlögin til stofnunarinnar eða rannsóknanna. Menn eru engu betur settir, menn eru engu nær hvað varðar hafrannsóknarþáttinn. Ef þessir fjármunir hins vegar sem hér eru taldir nema 190 millj. kr. gengju í endurnýjunarsjóð hafrannsóknarskipanna þar sem fyrir munu vera einhverjir fjármunir frá því að rannsóknaskipið Hafþór var selt, þá væri þar að myndast myndarlegur sjóður sem gæti auðveldað mjög þá bráðnauðsynlegu endurnýjun rannsóknaskipanna sem fyrir dyrum stendur eða þarf að ráðast í. Nú er það svo að aðalrannsóknaskipin, Árni og Bjarni, eru komin á þriðja tug ára í aldri og þó að þeim skipum hafi verið vel viðhaldið og þau séu út af fyrir sig í ágætu ástandi og gætu sem slík dugað til að sinna þeim verkefnum sem þau ráða við til einhverra ára, þá er alveg ljóst að það háir nú stórkostlega Hafrannsóknastofnun að hafa ekki yfir öflugri skipakosti að ráða. Þar er ég sérstaklega með í huga úthafsrannsóknirnar og rannsóknir á dýpra vatni. Þessi skip ráða ekki við aðstæður á því dýpi sem nú er kannski hvað mest þörf á að rannsaka og þá á maður við möguleika á vannýttum eða ónýttum tegundum á dýpri miðum, einkum suður af landinu.
    Það var upplýst í sjútvn. á dögunum að leigan af öflugum stórum togara sem ræður við rannsóknir á dýpri miðum kosti gjarnan í kringum 1,5 millj. kr. á dag og slík gerir það ósköp einfaldlega að verkum að stofnunin hefur sáralítið bolmagn til þess að ráðast í slík rannsóknarverkefni og í raun og veru alls ekkert miðað við þær fjárveitingar sem til hennar renna í dag. Ætti stofnunin í sjóði myndarlegar eignir til þess að hefja undirbúning að endurnýjun rannsóknaskipanna, þá hlyti það auðvitað að koma til greina annaðhvort sem viðbót sem auðvitað væri best eða í staðinn fyrir eitthvert af núverandi rannsóknaskipum þá kæmi nýrra og miklu öflugra skip sem réði við rannsóknirnar á djúpmiðunum. Það er alveg hroðalegt hvernig það stendur hjá okkur Íslendingum að við höfum í sumum tilvikum ekkert getað sinnt rannsóknum í þessum efnum á djúpmiðunum og fjær landinu, rannsóknum sem menn voru jafnvel að byrja á eða gerðu tilraunir til að ráðast í fyrir 20 árum síðan eða svo, t.d. frægan leiðangur sem farinn var fyrir rúmum 20 árum í Grænlandshaf og Reykjaneshrygg og hefur síðan nánast ekkert verið fylgt eftir fyrr en einhverjar tilraunir hafa verið í þá átt á síðasta ári og því sem nú er að líða. En það sem háir stofnuninni alveg sérstaklega í þessu efni er það að hafa ekki yfir skipakosti að ráða sem ræður við aðstæðurnar þegar komið er á dýpra vatn. Ég vil þess vegna gera það að tillögu minni þó að mér sé það ljóst að sjálf ákvörðunin er ekki hér á ferðinni, þ.e. slíkt mundi væntanlega koma í frv. sem þá yrði flutt um að leggja niður Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins eða þá sem viðauki við frv. um áformaðan þróunarsjóð en þá er að þessu vikið hér og ég veit ekki hvort ber að skilja það svo að það sé þegar á dagskrá að mæta að einhverju leyti rekstrarfjárþörf Hafrannsóknastofnunar, t.d. á næsta ári, með þessum peningum, eða hvað? Til hvers er verið að tíunda þessa upphæð í greinargerð með fjáraukalagafrv.? Og ef svo er, þá óska ég eftir skýringum á því frá fjárln. hvað fyrir hana hefur verið lagt í þessum efnum og ef þetta er ætlunin þá vil ég lýsa mig algerlega andvígan því. Ég áskil mér rétt til þess að berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum hér í þinginu að þetta fari á þennan veg og segi það enn og aftur að mér þykir geð sjávarútvegsmanna lítið ef þeir ætla að sitja þegjandi undir því að þessir fjármunir fari svo.
    Ég hefði svo, hæstv. forseti, að lokum kannski viljað segja fáein orð um þetta mál almennt og þá ekki síst um það að hér er enn á ferðinni úthlutun eða sundurliðun á ráðstöfun þeirra fjármuna sem ríkisstjórnin hefur sjálf skipt á hné sér og látið það heita til atvinnuskapandi aðgerða. Það er margt kúnstugt

í þeirri grautargerð allri eins og kunnugt er og til að mynda var talað mikið um milljarð kr. til atvinnuaukandi aðgerða á þessu ári sem í ljós kom að var ekki nema hálfur milljarður því að helmingurinn voru gamlar og geymdar heimildir frá fyrra ári. Þannig að allt er það nú meira og minna í skötulíki þegar á hólminn er komið sem þarna er á ferðinni og lítið skárra heldur en hálfi milljarðurinn sem átti að fara á Reykjanes sem kom svo í ljós að Reyknesingar áttu að taka upp úr eigin vasa að mestu. Það var gert að umtalsefni talsvert í sumar og gagnrýnt harðlega, ekki síst norðan heiða, hvernig í fyrsta lagi staðið var að úthlutun þessara fjármuna og í öðru lagi hvernig þeim var skipt. Ég vil minna á þessa gagnrýni hér og ég vil rifja það upp í ljósi þess að atvinnuástandið er það hið lakasta í landinu og hefði verið ástæða til að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefði með einhverjum hætti reynt að bæta fyrir ráð sitt og sýna okkur í verki vilja til þess að ráðstafa þessum fjármunum þannig að þeir nýttust sem best í atvinnuaukandi störf eða til atvinnuaukandi verkefna og kæmu þeim landshlutum sérstaklega til góða sem erfiðast eiga í þessum efnum, en svo er ekki. Þvert á móti er hér verið að setja inn í mörgum tilvikum stórar fjárhæðir á þá staði þar sem jafnvel ekkert atvinnuleysi er að finna og er það nú ekki allt í sjálfu sér mannaflafrekar framkvæmdir sem þar eiga í hlut. Þetta er því allt hið kúnstugasta mál og ríkisstjórninni til lítils sóma hvernig hún hefur að þessu staðið og stjórnarmeirihlutanum sem skrifar auðvitað upp á þetta með því að taka þessu þegjandi og hljóðalaust eða ég kalla það þó að einstöku þingmenn hafi eitthvað verið að mjálma í sumar en síðan hafi lítið af því frést.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég fari þá að gera hér hlé á máli mínu sökum þess að hæstv. sjútvrh. er ekki mættur til leiks og ég tel rétt að bíða með það að ræða þau mál frekar sem ég ætla mér þegar hann verður mættur. --- [Fundarhlé.]