Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 13:31:35 (2137)

[13:31]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við ræðum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993 höfum við í minni hluta fjárln. séð ástæðu til þess að skila sér nefndaráliti sem hv. þm. Jón Kristjánsson hefur gert grein fyrir.
    Ég tel ástæðu til þess að fara nokkuð í einstaka liði í fjáraukalagafrv. þar sem við 1. umr. málsins er nánast tekið á heildarstefnu og mjög lauslega farið yfir frv. í heild. Síðan hafa komið fram brtt. með áliti meiri hluta fjárln. og gerir minni hluti fjárln., eða flest allir, ekki miklar athugasemdir við það eins og stendur í nál. okkar. En með þessu fjáraukalagafrv. er, eins og bent var á í 1. umr., greinilegt að fjárlög standast engan veginn. Hér eru gjöld umfram tekjur áður en til breytinga kemur, rúmir 7 milljarðar, og verða með breytingum 7,5 milljarðar kr. til viðbótar við það sem fyrir var.
    Það er því alveg ljóst að stefnan, sem farið var af stað með við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, hefur beðið skipbrot. Það er hægt að rekja sig nokkuð í gegnum frv. að því leyti til að mjög víða standast sértekjur ekki. Það má t.d. nefna að sértekjur Tækniskóla standast ekki, vegna þess að þar þurfti að breyta lögum til þess að það næði fram að ganga og því tókst hv. meiri hluta á þingi ekki að koma í gegn í fyrra.
    Það er einnig hægt að nefna að það er á fleiri stöðum sem sértekjur hafa ekki skilað sér eins og til var ætlast og er þá stærsta talan í sjútvrn. þar sem fjármagna átti Hafrannsóknastofnun. Það eru 300 millj. kr. sem þar munar á sértekjum þar sem ekki tókst að selja allar aflaheimildir. Ákveðið var að breyta því þannig að þar eru sértekjur sem ekki standast upp á 300 millj. kr.
    Það má nefna að hjá Ríkisspítölum hefur orðið umtalsverð minnkun á sértekjum, vegna þess að ekki tókst að selja Þvottahús Ríkisspítalanna og raunar ætlar meiri hluti fjárln. ekki að verða við þeirri ósk og skilst mér að það komi vegna þess að ágreiningur sé jafnvel enn um það milli heilbrrh. og fjmrh. hvort ríkissjóður skuli taka á sig þennan mismun. En í þessu fjárlagafrv. er með breytingum lagt til að verða við 30 millj. vegna þess að salan tókst ekki. En 30 millj. sem eru þarna sértekjur, við því er ekki orðið. Þannig að það hefur brugðist líka. Fyrir utan nú það að þær sértekjur sem allir spítalarnir og yfirleitt heilbrigðiskerfið hefur þurft að áætla sér í sínum útgjöldum standast oft og tíðum ekki.
    Hjá Fasteignamati ríkisins kom ekki fram það frv. sem átti að vera undirstaðan undir sértekjum, þannig að þar þarf að leita eftir 20 millj. kr. viðbótarheimild.
    Hjá Rafmagnseftirliti ríkisins, sem tilheyrir iðnrn., er farið fram á að sértekjur verði lækkaðar samkvæmt fjárlögunum um 10 millj. kr. vegna þess að sértekjurnar stóðust þar ekki. Þær stóðust ekki heldur hjá Náttúruverndarráði, þar þarf að lækka þær, og ekki heldur hjá Veðurstofunni, þar sem ekki var komið á þeirri reglugerð að innheimta sértekjur hjá Veðurstofunni vegna innanlandsflugsins.
    Eins og hv. þm. Jón Kristjánsson gat um áðan, þegar hann nefndi þetta, þá eru bæði Þvottahús Ríkisspítalanna með þær sértekjur sem það á að afla og einnig Veðurstofan inni í frv. fyrir næsta ár, þannig að þetta rugl heldur áfram. Það á enn að reyna að ná þarna inn tekjum og er sett áfram inn í frv. sem sértekjur.
    Það var mjög fróðlegt að hlusta á fulltrúa frá spítölunum sem komu á fund fjárln. í morgun. Það komu fulltrúar frá öllum stóru spítölunum í Reykjavík, Ríkisspítölum, Borgarspítala og Landakotsspítala og það var satt að segja ekki skemmtilegt fyrir einn eða neinn að hlusta á það sem þar þurfti að koma fram, en staðfesti auðvitað það sem við höfum margoft haldið fram í umræðum að sparnaður vegna alls þess sem búið er að vera að umsnúa í heilbrigðiskerfinu, á sjúkrahúsunum hér í Reykjavík, hefur orðið nánast enginn. Ég skal þó ekki segja þegar upp verður staðið endanlega, sem ekki er kannski hægt að segja á þessu stigi málsins, að það gætu hafa sparast 50--100 millj. kr. En ég hygg að það sé ekki hærri tala.
    Það hefur oft verið vitnað í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gerði úttekt á þessum málum samkvæmt beiðni þáverandi heilbrrh. --- Nú hefði ég óskað eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. heilbrrh. heyrði mál mitt. Ég vænti þess að hann sé ekki langt undan.
    ( Forseti (VS) : Hæstv. heilbrrh. mun vera í símanum rétt í augnablikinu en hann kemur væntanlega fljótlega.)
    Eins og ég sagði þá gerði Ríkisendurskoðun úttekt á því snemma árs hvernig sparnaður hefði náðst á spítölunum á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári. Þar var það metið svo, miðað við þær aðstæður sem þá voru, og það kom raunar fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að hún gæti ekki alveg metið þetta til fullnustu, að líklega væri sparnaðurinn í kringum 460 millj. kr. Ég held ég fari rétt með þá tölu.
    Það kemur svo auðvitað í ljós að nú er inni beiðni frá Landakoti, sem kemur svo fram í brtt. með fjáraukalagafrv., að Landakotsspítali þarf að fá 100 millj. kr. til þess að koma til móts við þann halla sem skapaðist á þessu ári. Þar eru þá farnar 100 millj. af þessum rúmlega 400 sem höfðu sparast.
    Menn muna það kannski, þó oft sé rætt um skammtímaminni stjórnmálamanna og ekki hvað síst þingmanna, að til þess að gera þessa ,,hagræðingu``, eins og hún var kölluð, mögulega að færa frá Landakoti yfir til Borgarspítala m.a. bráðavaktirnar, þá þurfti Borgarspítali á þeim tíma að fá 200 millj. kr. til þess að þetta væri mögulegt. Þannig að ég lít nú svo á að þær 200 millj. kr. hljóti að dragast frá þessum hugsanlega sparnaði. Þá fara ekki að verða eftir nema kannski 100 millj. kr. Og það kemur í ljós í erindi Borgarspítala í morgun að á þessu ári muni hann verða með halla a.m.k. upp á 107 millj. kr. Hvort sá halli er allur uppsafnaður á þessu ári eða hluti af honum færður frá árinu í fyrra get ég ekki sagt á þessu stigi málsins, en mér sýnist þó að eitthvað af því sé það sem fært var á milli ára. Þá fer nú ekki að verða mikið eftir af þeim sparnaði sem hugsanlega hafði náðst á sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 1992.
    Það má einnig geta þess að það eru stórar upphæðir sem eru færðar yfir áramót á milli ára, þ.e. óhafin framlög eru færð, það eru yfirfærðar heimildir og jafnframt auðvitað umfram gjöld, en það eru óhafnar heimildir nokkrar hjá sjúkrahúsum yfirleitt yfir þessi áramót, milli 1992 og 1993. Þó ég reikni þetta ekki upp á milljón þá sýnist mér að útkoman verði sú að það hafi ekki náðst sparnaður af öllu þessu brölti sem þarna var iðkað.
    Þegar við spurðum um það í morgun hvernig forsvarsmenn þessara stóru spítala litu á það hvort þessi sparnaður hefði náðst, þá kom raunar í ljós að menn voru ekki á því að sá sparnaður hefði náðst mikið. Að vísu vildi Borgarspítali ekki alveg taka það af að einhver sparnaður hefði náðst. En í skýrslu frá stjórnarnefnd Ríkisspítala segir, með leyfi forseta:
    ,,Þessi árangur náðist með hagræðingu, samdrætti í þjónustu, þ.e. lokunum deilda, og með því að fresta verkefnum og kaupum á nauðsynlegum tækjabúnaði.`` --- Það er eiginlega þrennt sem þeir tala um, það er hagræðing, samdráttur í þjónustu, lokanir deilda og þess háttar, og frestun á verkefnum. Það er auðvitað hægt að spara með því að loka deildum, þá er einhver sparnaður af því að ekki eru teknir inn neinir sjúklingar á meðan, en hversu mikill sparnaður það er þegar upp er staðið held ég að sé nokkurt álitamál.
    Það er hægt að fresta verkefnum og það gat ég einmitt um áðan. Því er frestað að vinna ýmislegt viðhald, því er frestað að kaupa ýmis tæki fram yfir áramót og þar af leiðandi eru þau ekki greidd á þessu ári og það kemur þá bara fram í halla á yfirstandandi ári eða næsta, eftir því hvernig menn færa það á milli.
    Síðan er þriðja atriðið, þ.e. þeir segja að þetta hafi náðst með hagræðingu. Það er út af fyrir sig gott mál ef það hefur náðst hagræðing, en ég held þó að þessi hagræðing sé alltaf í gangi hjá spítölunum. Ég hygg að eðli málsins samkvæmt þá sé ákveðin hagræðing í gangi bara með þeirri tæknivæðingu sem við horfum á í dag. Það eru færri legudagar hjá hverjum sjúklingi, menn eru sendir fyrr heim, stundum vegna þess að það er verið að spara og menn ekki hafðir eins lengi, en stundum líka vegna þess að tæknin hefur breytt því, menn geta farið fyrr heim, eins og t.d. hefur stundum verið nefnt, eftir botnlangaskurð vegna þess að þetta er kannski framkvæmt á annan hátt í dag.
    Það er í stuttu máli niðurstaða þessara sjúkrahúsa að sparnaðurinn sé mjög hæpinn, vægast sagt.
    Ég geri ráð fyrir því að fyrrv. hæstv. heilbrrh., hv. þm. Guðmundur Bjarnason, muni jafnvel taka þetta enn þá betur, þannig að ég ætla ekki að fara alveg nákvæmlega út í þessa sálma. En þó get ég ekki látið hjá líða að nefna það að spítali í umdæmi hæstv. núv. heilbrrh. fær 27 millj. á fjáraukalögum til þess að koma til móts við halla fyrra árs og fyrirsjáanlegan halla á þessu ári. Í sjálfu sér kemur það heldur ekki heldur á óvart þar sem hæstv. ráðherra var einn af þeim þingmönnum í fyrra sem mæltu í móti þeim niðurskurði sem var á þeim spítala og taldi hann ekki vera raunhæfan. Það hefur enda sýnt sig hér að hann er nú í aðstöðu til þess að bæta að einhverju leyti fyrir þann niðurskurð sem á þann spítala var settur. Það væri fróðlegt að heyra í hæstv. ráðherra um það hvernig hann lítur á það mál, hvort sá niðurskurður sem framkvæmdur var á St. Jósefsspítala hafi haft við rök að styðjast eða hvort hann hafi þurft í sínu ráðherraembætti að bæta fyrir afglöp fyrri ráðherra.
    Það er svolítið sérkennilegt í kaflanum hjá forsrn. að nú vill hæstv. forsrh. fara að skipta sér mikið af heimilis- og listiðnaði. Ég fagna því að sjálfsögðu að hann skuli hafa fengið svona mikinn áhuga á

þessu sérstaka máli okkar kvennalistakvenna sem höfum iðulega haldið því á lofti. ( Fjmrh.: Hann situr og bróderar allan daginn.) Situr og bróderar allan daginn, segir hæstv. fjmrh., og ég segi bara guð láti gott á vita, það er gott ef menn nota tómstundirnar. Hann hefur þá líklega mjög margar tómstundir. Hins vegar fæ ég ekki séð hvers vegna þessi upphæð sem á að fara til heimilis- og listiðnaðar er betur komin inn í forsrn. Byggðastofnun hefur haft með það að gera að úthluta ýmsum styrkjum til smáiðnaðar og til heimilsiðnaðar m.a. kannski, þannig að ég get ekki séð hvers vegna það er betur komið þar inni. En ef þingheimur lítur svo á að þetta sé í góðum höndum hjá forsrh. þá hef ég svo sem ekkert sérstakt við það að athuga og ætla mér ekki að taka neina afstöðu til þess.
    Í menntmrn. hefur komið á daginn, eins og hér hefur verið nefnt áður, að framlag til rannsókna- og þróunarstarfsemi gat engan veginn staðist þar sem það átti að koma af sölu eigna sem svo til engar tókust. Hér er lítils háttar reynt að bæta það upp með 45 millj. kr. í Rannsóknasjóð. Er það nú lítill hluti af þessum 300 millj. sem áttu að fara til aukinnar rannsóknastarfsemi ef tekist hefði að selja eignir. Út af fyrir sig er ég að sjálfsögðu sammála því að þessar 45 millj. koma, en ég sé ekki að ríkisstjórnin standi við það fyrirheit sitt að auka framlag til rannsókna og þróunar eins og hún lofaði á síðasta ári að gert yrði á þessu fjárlagaári, með þessu framlagi, það dugar engan veginn til þess.
    Það er svolítið sérkennilegt hér með kaflann um listir og framlög. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt samningi ríkisins við Reykjavíkurborg greiðist rekstrarhalli af listahátíðinni að hálfu af hvorum aðila og sama gildir um kvikmyndahátíð sem fram fer í ár.`` --- Síðan segir: ,,Fyrirhugað er að framvegis verði veittir fastákveðnir styrkir í fjárlögum til slíkra listviðburða.``
    Ég er út af fyrir sig alveg sammála því að það gengur ekki að koma eftir á með reikninginn og heimta að það sé greitt af bæði ríki og Reykjavíkurborg, það verður að vera að mínu áliti föst fjárveiting í þetta. En hér er aftur á móti ekki nefnt hvort þetta gildir um kvikmyndahátíðir líka. Hér er sagt að það eigi að endurskoða þetta með listahátíðir, en mér sýnist það ekki koma nógu skýrt fram a.m.k. hvort hér er líka átt við kvikmyndahátíð. Þetta veldur því að það þarf að auka framlag um 6 millj. kr. vegna Listahátíðar í Reykjavík.
    Svo er einnig í þessum kafla margumtöluð aukafjárveiting vegna kaupa á sýningarrétti kvikmynda til afnota fyrir grunnskóla, sem menn hafa rætt hér áður, og liggur í því að þarna er verið að kaupa kvikmyndir fyrir grunnskólann sem eru bannaðar börnum. Enn hefur engin skýring fengist á því hvernig á að nota þessar kvikmyndir. Ég hef séð að það er búið að leggja hér fram tillögu um að taka þetta út og styð það að sjálfsögðu, enda finnst mér eðlilegt ef ráðherra hefur tekið þessa ákvörðun að hann greiði það af sínu ráðstöfunarfé en komi ekki til Alþingis eftir á og biðji um framlag til þess að greiða þetta, fyrir utan hversu fáránlegt það er að fara að kaupa slíkar myndir sem ekki má sýna börnum og ekkert samráð verið haft við Námsgagnastofnun.
    Í kaflanum um utanrrn. þá er skýring með því þar sem sótt er um aukafjárveitingu. Það eru m.a. rúmar 6 millj. vegna aukins kostnaðar við þýðingar á reglugerðum og tilskipunum EB. Og það sem mér finnst rétt að vekja athygli á í þessu sambandi er að heildarkostnaður við þýðingar frá upphafi til ársloka í ár stefnir í að verða um 110 millj. kr. sem er 90% hækkun frá því sem ætlað var þegar verkið var hafið á árinu 1990 og er þetta þó aðeins um þýðingarnar. Þetta er ekki um margan annan kostnað sem leynist í öllum ráðuneytum. En bara þessi kostnaður fer 90% fram úr áætlun.
    Það er líka svolítið sérkennilegt í utanrrn. að það er talað um að ríkisstjórnin þurfi að fá heimild til að ráða aftur í stöðu fastafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég veit nú eiginlega ekki hvernig þetta er orðið hjá utanrrn. Það koma sífellt yfirlýsingar bæði í fjáraukalögum og fjárlögum um að nú eigi að leggja niður þetta embættið og hitt embættið. Það er hjá Sameinuðu þjóðunum, það er í Vín, það er hjá RÖSE og árið eftir er alltaf komið og sagt að það hafi verið hætt við að leggja niður þessi embætti. Þau verði eftir sem áður að fá fjárframlög á fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég held að það væri nú tími til kominn fyrir hæstv. utanrrh. að skoða það almennilega hvernig hann ætlar að haga þessum málum í framtíðinni og sé ekki að vingsast með þessa fulltrúa ýmist úti eða inni. ( Fjmrh.: Það er rétt.) Það er rétt, segir hæstv. fjmrh. Það er gott að geta haft hæstv. fjmrh. hér viðstaddan til þess að svara svona jafnóðum og ég ber fram spurningar. Það sparar honum áreiðanlega tíma og mér líka hér á eftir.
    Þá vil ég aðeins gera að umtalsefni Ríkismat sjávarafurða sem lagt var niður og sameinað með því að stofna Fiskistofu á síðasta ári. Það hefur verið nokkuð umdeilt hvernig staðið var að þeirri breytingu. Fiskifélagið hefur m.a. komið ítrekað með athugasemdir til okkar fjárlaganefndarmanna um að það hafi í raun og veru ekki verið staðið alveg við það sem lofað var hjá Fiskifélaginu þegar þessi sameining var gerð og Fiskistofa átti að kaupa ákveðna þjónustu af Fiskifélaginu. Það kemur líka í ljós að þar er búið að segja upp mörgum starfsmönnum og það þarf m.a. núna í brtt. við fjáraukalögin að leggja til að staðið sé undir biðlaunum vegna Fiskifélags og það er hér inni í fjáraukalögunum um biðlaunarétt vegna Ríkismatsins. Ég held að það sé hægt að efast mjög um það hvort þessi breyting hafi verið til bóta. Það hefur komið ítrekað fram hjá þeim sem þurfa að sækja þjónustu hjá Fiskistofu að þeir eru óánægðir með þá þjónustu og það er mjög umdeildar ýmsar ákvarðanir Fiskistofu. Það er fullyrt að vottorðafargan hafi aukist mikið, það þurfi að fá vottorð hjá upp undir 10 aðilum til þess t.d. að senda út afurðir af silungi. Það hefur verið fullyrt í mín eyru að það þurfi ein 10 vottorð til þess. Þar að auki er það líka álitamál hvort ekki þurfi alltaf að vera eitthvert apparat eins og Ríkismat sjávarafurða sem tekur opinbera ábyrgð á ýmiss konar framleiðslu. Þannig að öll sú einkavæðing og breyting sem búið er að gera í sambandi við þetta, ég er ekki trúuð á það að hún hafi í raun og veru verið til bóta. (Gripið fram í.) Já, ég hugsa að hún hafi líka verið of dýr og það var nú reyndar gagnrýnt mjög í fyrra, ég ætla ekki að taka þá umræðu aftur, sem sett var fram sem áætlun við það að breyta þessu yfir í Fiskistofu, að það fór langt fram úr þeim áætlunum og algerlega úr böndunum. Fulltrúar Fiskistofu hafa fullyrt í okkar eyru að það sé vegna þess að þá hafi verið um stofnkostnað að ræða og það muni lækka. Við eigum auðvitað eftir að sjá hvort það stenst eða ekki. En þessi gagngerða breyting sem gerð var í fyrra með því að sauma jafnmikið að Fiskifélaginu og gert var, leggja niður Ríkismat sjávarafurða og síðan kemur þarna með inn í reikninginn, þrátt fyrir að þetta átti auðvitað að vera í sparnaðarskyni eins og flestar tillögur ríkisstjórnarinnar, sem eiga nú allar að vera til sparnaðar en tekst mjög misjafnlega, að þá er auðvitað þarna um að ræða biðlaun sem koma til viðbótar. Þannig að ekki er farið að sjá að sparnaðurinn verði svo mikill, a.m.k. sést það ekki næstu framtíð.
    Þá vil ég gera að umtalsefni fangelsismálin. Fangelsismál á Íslandi eru í miklum ólestri og þó að í fjáraukalagafrv. eigi að leggja fram 10 millj. kr. til þess að framkvæma lágmarksúrbætur í öryggismálum fangelsa, eins og hér segir, þá hygg ég að það sé fyrst og fremst vegna þeirra uppákoma sem af urðu á síðasta sumri þegar menn voru ítrekað að strjúka úr fangelsum, að þá eigi eitthvað að bæta það. En aðbúnaður fanga er hrein hörmungarsaga hér á Íslandi og mikil nauðsyn á að vinna að úrbótum í þeim málum. Og ég satt að segja skil eiginlega ekki hvernig það mál hefur verið látið dankast hér árum saman. Fólk sem hefur komið þarna hefur lýst hvernig aðkoman er og hvernig aðbúnaður fanga er, t.d. uppi í Síðumúla, og það er ein hörmungarsaga sem ég hygg að margir þingmenn hér inni þekki. En þeim mun heldur er mikil nauðsyn að farið sé að taka á því máli af einhverju viti.
    Hagsýsla ríkisins hefur nýverið gefið út skýrslu um málefni barna og ungmenna. Í þessu fjáraukalagafrv. er farið fram á 15 millj. kr. til þess að stofna lokaða meðferðardeild innan Unglingaheimilis ríkisins fyrir síbrotaunglinga sem eru yngri en 16 ára og mér skilst að það sé heimilið sem er í Gröf í Skagafirði. Ég efa það ekki að það hefur verið nauðsynlegt að koma þeirri deild á fót, en samkvæmt því sem segir í skýrslu Hagsýslu ríkisins, sem ég er nýbúin að lesa, þá telja þeir að ekki sé gott skipulag á þessum málum. Þeir telja t.d. ekki góða nýtingu á unglingaheimilinu á Tindum. Þeir telja að þar sé nýting á plássum ekki nema svona í kringum 60% yfir árið og þeir mæla alveg sérstaklega með úrræðum eins og á Torfastöðum og Sólheimum 17, þar sem er um fjölskylduheimili að ræða. Það hefur skilað bestum árangri að þeirra mati og þar eru bæði aðstandendur og notendur þeirrar þjónustu ánægðastir.
    Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir næsta ár er boðað að stofna skuli fjölskylduþjónustu ríkisins upp úr unglingaheimilinu og er þá þess að vænta að það verði tekið á þeim ábendingum sem koma fram í þessari skýrslu. En ég vil enn og aftur leggja áherslu á það, í sambandi við málefni barna og ungmenna, að þá sé ekki alltaf hlaupið til og málið skoðað fyrst þegar barnið er dottið ofan í brunninn. Það sé byrjað á því með forvarnastarfi. Forvarnastarfið mun skila miklu, miklu meiri árangri heldur en þær úrbætur sem verður að gera af illri nauðsyn þegar óhappið er skeð. Og það er til skammar, ég verð að segja það, það er til skammar hvernig búið er að börnum og unglingum á Íslandi og þessi ríkisstjórn hefur ekki bætt ástand hér á landi í þeim málum.
    Í sambandi við það atvinnuleysi sem hér hefur verið vaxandi undanfarin ár er orðinn margfrægur í umræðunni milljarðurinn sem átti að fara til atvinnusköpunar. Af því fóru aðeins 60 millj. til atvinnusköpunar fyrir konur. Við getum bætt við þessum 20 milljörðum sem forsrh. ætlar að nota til þess að kaupa prjónagarn og prjóna í tómstundum sínum, en kannski fer eitthvað af því til kvenna líka. Það er ekki svo að Alþingi, fjárln. eða neinir slíkir fái að skipta 60 millj. frekar en öðru af þessum milljarði, heldur segir hér í kaflanum um þessar 60 millj. að 35 millj. fari til fyrirtækjarekstrar einkaaðila, það hefur ráðuneytið ákveðið, 20 millj. fari til ýmissa verkefna á vegum sveitarfélaga og 5 millj. fari til námsaðstoðar til að skapa atvinnulausum konum betri aðstöðu á vinnumarkaði. Þessar 5 millj. kr. sem eiga að fara til námsaðstoðar eru vægast sagt mjög lítill hluti af milljarðinum og þar að auki hefur það komi í ljós að hann nýtist raunverulega eingöngu konum hér á höfuðborgarsvæðinu. Þegar verið er að setja upp námskeið fyrir atvinnulausar konur sem eru víðar heldur en hér í Reykjavík, þó vissulega séu þær margar hér og atvinnuleysi meira meðal kvenna, líka hér á höfuðborgarsvæðinu, það er miklu meira meðal kvenna um allt land, að þá hefði þurft að skipta þessu á annan hátt og deila því þannig að það færi þá jafnt til námsaðstoðar kvenna, bæði í Reykjavík og annars staðar. En eins og mér skilst að þetta sé útfært núna, þá mun það eingöngu nýtast konum hér á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir nú utan það, eins og ég sagði áðan, að hér er það ráðuneytið sem ákveður hvernig þessi skipting er og Alþingi hefur ekkert um það að segja. Maður fer nú að verða svolítið þreyttur á því að gagnrýna hér sí og æ og tala um það hvernig ráðherrar og ríkisstjórnin hundsar yfirleitt Alþingi í allri ákvarðanatöku. Það hefur svo iðulega komið í ljós og það virðist ekkert lát vera á þeirri stefnu.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna Tryggingastofnun ríkisins, þar aukafjárveitingar að upphæð 350 millj. kr. sem á að greiðast lífeyrisþegum í uppbætur. Nú stóð ríkisstjórnin að því á síðasta ári að lækka persónufrádrátt og ég reiknaði það að gamni mínu út hvort þessar 350 millj. kr., sem eiga að vera greiddar lífeyrisþegum, mundu nú skila sér til þeirra. Af þeim fer ekki nema rúmur helmingur til lífeyrisþeganna, vegna þess að það er búið að hækka skatta og það er búið að lækka skattleysismörkin. Þannig að milli 150--160 millj. fara beint í staðgreiðslu skatta, svo að þessar 350 millj. kr. sem eiga að fara í uppbætur til líffeyrisþega segja nú ekki alla söguna.
    Ég hef nokkuð rætt hér um þann niðurskurð sem hefur verið hjá sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu og ég ætla ekki að endurtaka það. En ég get þó ekki látið hjá líða að nefna hér í einni grein í fjáraukalagafrv. þar sem segir að lagt sé til að framlag til Ríkisspítala hækki um 60 millj. vegna eingreiðslu í kjölfar endurskoðunar á launafyrirkomulagi hjúkrunarfræðinga. Eingreiðsla á launafyrirkomulagi hjá hjúkrunarfræðingum. Það er dálítið einkennilegt að það sé bara hægt að greiða hækkun launa einu sinni og síðan skuli það ekki að halda áfram. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. hvernig því er fyrir komið, hvort þessar greiðslur eða þessar hækkanir launa hjúkrunarfræðinga eigi þá ekki að koma áfram á næsta ári, ef ekki er gert ráð fyrir því að það hækki frv. til fjárlaga fyrir árið 1994. Mér hefur skilist á fulltrúum sjúkrahúsanna að þeir hafi einmitt gert ráð fyrir því að hjúkrunarfræðingarnir héldu áfram að fá þessar launahækkanir og þeir sjá engin merki um það í fjárlagafrv. fyrir næsta ár að það eigi að viðurkenna það.
    Svo get ég ekki látið hjá líða að nefna hér eitt sem mér finnst svolítið skondið mál. Það er allt í lagi að koma með það aðeins líka inni í allri þessari alvarlegu umræðu um fjármál. Í umhvrn., undir ýmsum verkefnum, vill umhvrn. fá 12 millj. kr. til að kaupa mengunarbúnað fyrir hafnir, sem átti raunar að veita í fjárlögum ársins 1994. Hvers vegna skyldu þeir vera að biðja um þetta núna í fjáraukalögum fyrir árið 1993? Það er til þess að unnt verði að ná fram staðgreiðsluafslætti á búnaðinum. Ég segi nú bara, ef það væri hægt hjá öllum stofnunum að leggja fram beiðni í fjáraukalögum um einhver tækjakaup eða annað sem þær þyrftu að kaupa til þess að ná fram staðgreiðsluafslætti. Það væri sannarlega gott mál. Það er svolítið einkennilegt að þetta skuli vera allt í einu nauðsynlegt í mengunarbúnaði fyrir hafnir þó ég viðurkenni að sjálfsögðu að það er nauðsynlegt að hafa hann. En hvort hann er svona bráðnauðsynlegur umfram allt annað og öll önnur tækjakaup og búnað sem ríkisstofnanir þurfa á að halda, það fæ ég raunar ekki séð. Það skal ég viðurkenna.
    Ég ætla ekki að lengja þetta mikið en ég vona að hæstv. ráðherrar sem hér eru inni muni geta svarað einhverju af því sem ég hef verið að velta upp í ræðu minni. En ég vil leggja áherslu á það sem ég sagði í upphafi að ég tel að þetta fjáraukalagafrv. sýni það að áætlanir í fjárlögum hafi engan veginn staðist. Þær hafa farið allt að 140% fram úr áætlun fjárlaga. Útgjöldin hafa aukist um það. Sumt vegna aukinna gjalda, sumt vegna þess að tekjuáætlun hefur ekki staðist. Síðan verð ég einnig að geta þess að þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja 1 milljarð kr. til atvinnuskapandi aðgerða og draga þar með úr atvinnuleysinu og reyna að stemma stigu við auknum útgjöldum ríkissjóðs vegna þess, þá hefur það ekki tekist nógu vel því það þarf að færa a.m.k. helminginn af þeirri fjárhæð, jafnvel allan milljarðinn á milli ára núna um næstu áramót. 558 millj. af þessum milljarði sem ákveðinn var í sumar voru færðar frá síðasta ári og það er allt útlit fyrir að það hafi ekki tekist að nota þessa upphæð í sumar eða á þessu ári, og að það verði sennilega 900 millj. til 1 milljarður sem verði fært á milli ára 1993 og 1994. Þannig hefur ekki tekist vel að sporna við atvinnuleysi og vinna úr þessum milljarði á árinu og mér sýnist að því miður stefni í enn meira atvinnuleysi á næsta ári en á þessu ári og hljóta þar að koma fram líka þau áhrif sem sífellt minnkandi þorskkvóti og afli þar af leiðandi hefur á afkomu landsmanna, því það skilar sér allt á endanum inn í ríkissjóð.
    Eins og ég hef lýst þá get ég samþykkt ýmsar þær breytingar sem hér horfa til bóta og einmitt þess vegna greiddi ég líka atkvæði hér áðan með lánsfjárlagafrv. þar sem ég tel að við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda sem við verðum að viðurkenna, þrátt fyrir það að við séum ekki sammála þeirri stefnu sem hefur komið þeim vanda á, en við þingmenn stöndum frammi fyrir því og verðum þar af leiðandi að leggja til að lánsfjárheimildir ríkissjóðs séu auknar sem því nemur. En ég held að það sé tími til kominn hjá ríkisstjórninni að setja sér einhverja stefnu, bæði í heilbrigðismálum og sjávarútvegsmálum, og líklega landbúnaðarmálum líka.