Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 14:14:45 (2138)

[14:14]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Fjáraukalagafrv. það sem hér er komið til 2. umr. er, eins og fram hefur komið hjá sumum hv. ræðumönnum á undan í þessari umræðu, dómur um þá efnahagsstefnu sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að reyna að framfylgja. Sá dómur er í raun ekki fagur. Það er raunverulega dómur um það að efnahagsstefnan hafi beðið skipbrot. Þetta er skipbrotsdómur yfir þeirri stefnu hæstv. fjmrh. að ná fram hallalausum fjárlögum og hafa ríkisfjármálin í jafnvægi. Þetta er líka dómur um það sem hann hefur aftur og aftur lýst yfir í umræðum um fjárlagafrv. sín og fjáraukalagafrv. að fjárlög í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar séu unnin með miklu markvissari hætti, traustari hætti og betur að þeim staðið heldur en áður af því að m.a. hafi verið reynt að færa ábyrgðina meira út til fagráðuneytanna og láta þau standa við sínar fjárveitingar og sinn fjárlagaramma.
    Nú er það svo að ýmsar stofnanir hafa reyndar staðið betur við sínar fjárveitingar, við þann ramma sem fjárlögin hafa ákveðið þeim og forsvarsmenn stofnana eiga vissulega heiður skilið fyrir að reyna að berjast við það og glíma við það að reka stofnanir sínar innan þessa þrönga ramma sem þeim hefur að undanförnu verið skammtaður. Er það vel, en auðvitað er það líka vegna þess að tekist hefur að halda nokkuð í hemilinn á verðbólgunni sem hér áður æddi yfir okkur og gerði fjárlög og allar rekstrar- og efnahagsáætlanir miklu óraunhæfari heldur en nú hefur verið um sinn. Grunnurinn að þeirri glímu, að kveða niður verðbólgudrauginn, var auðvitað lagður í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar og tekist hefur að búa svo um hnútana enn þá, m.a. með samningum við aðila á vinnumarkaði, að þessi glíma hefur gengið nokkurn veginn upp og á það auðvitað þátt í því að margar stofnanir eru nú nær þeim fjárlagaramma sem þeim hefur verið ákveðinn. En það er eitthvað annað að í ríkisfjármálunum heldur en einmitt þetta. Og það merkilega er að það kemur í ljós að fjárlagaáætlun hæstv. ríkisstjórnar sjálfrar, þ.e. innbyggð vandamál ýmis þar, sem menn hafa annaðhvort vísvitandi eða óviljandi látið yfir sig ganga við samþykkt fjárlaganna, hafa leitt til þess að fjáraukalög eru nú lögð fram með þeim hætti að halli á ríkisfjármálunum fer úr 6,2 milljörðum í 13,8 --- í tæpa 14 milljarða, virðulegur forseti, eða hækkar um 7,6 milljarða kr. Þetta er dómur yfir sjálfri efnahagsstefnunni.
    Ég sagði að það væri kannski fyrir það að menn hefðu annaðhvort óviljandi, óafvitað eða vísvitandi sett fram í fjárlögum tölur svo óraunhæfar að niðurstaðan skuli verða þessi. Ég leyfi mér að fullyrða að a.m.k. sumt af því, eins og reyndar hér hefur verið rakið á undan, hafi verið gert vísvitandi. Má þar t.d. nefna þær hugmyndir hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnarinnar að ætla að einkavæða samkvæmt trúarbrögðum þeirra og stjórnarflokkanna fyrir 1,5 milljarða kr. sem allir vissu þá strax fyrir ári síðan að var algjörlega óraunhæft. Og auðvitað sýnir það sig hér. Að minnsta kosti sá eini og hálfi milljarður er líka nú að sanna sig að var hvergi nærri lagi og ljóst að þar voru menn að blekkja, kannski bæði sjálfa sig og aðra, e.t.v. höfðu einhverjir trú á því að þetta tækist en því miður hafa menn þó trúlega blekkt vísvitandi af því að þeir vissu að þetta mundi ekki ganga upp. Þetta er skipbrot fyrir þessa efnahagsstefnu.
    Atvinnumálin hafa líka verið með þeim hætti í landinu á undanförnum missirum að það hefur haft veruleg og afdrifarík áhrif á þróun ríkisfjármálanna. Það hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs hafa verulega dregist saman og kemur það líka fram í þessu fjáraukalagafrv. að skatttekjurnar eða tekjuhliðin hefur dregist saman um sem nemur rúmlega 3 milljörðum kr. frá því sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. Þar á líka hlut að máli sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur haldið sig við í þeirri hreinsun sem reynt hefur verið að framkvæma í atvinnulífinu, þ.e. gjaldþrotastefnunni, þar sem gjaldþrot hafa verið látin ríða yfir án þess að reynt væri að sporna við og beinlínis verið yfirlýst sem stefna að gjaldþrotin ættu að hreinsa til og endurnýja í atvinnulífinu. Gjaldþrotin hafa síðan ýmis önnur vandamál í för með sér sem ég kem kannski aðeins að hér nánar á eftir.
    Eitt enn langar mig að nefna í þessum inngangsorðum mínum af því sem mig langar að segja um þetta frv., það eru vaxtamálin, vaxtastefna hæstv. ríkisstjórnar og áhrif vaxtastefnunnar á atvinnu- og efnahagsástandið og þá auðvitað þar með líka á ríkisfjármálin.
    Minni velta í þjóðfélaginu sem leiðir af þessum samdrætti í atvinnulífinu hefur haft þær afleiðingar að ríkissjóðstekjurnar hafa dregist verulega saman. Einkum munar þar auðvitað um samdrátt af veltusköttum hvers konar og innflutningstekjum sem hafa verið áætlaðar miklu meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir og þarf þess vegna að lagfæra í fjáraukalagafrv. Um þetta ræddum við reyndar nokkuð þegar frv. var til 1. umr. en það er alveg ljóst að lítið hefur gerst síðan sem hefur þar bætt um, jafnvel þó svo að síðan hafi ríkisstjórnin að vísu reynt að taka nokkuð til hendinni í vaxtamálunum sem ég ætla aðeins að nefna hér einnig síðar.
    Gjaldþrotin og áhrif þeirra á ríkisfjármálin eru gífurleg. Gjaldþrotastefnan, að láta hana ráða svo ferðinni eins og gert hefur verið, hefur haft það í för með sér að ríkistekjurnar hafa dregist mjög saman. Ekki bara að það hafi valdið því að atvinnulíf hefur lamast a.m.k. tímabundið heldur líka það að ríkissjóður tapar ekki síður en aðrir á gjaldþrotunum þegar stór fyrirtæki verða fyrir þeim áföllum að þau eru gerð upp. Nú er stundum óumflýjanlegt að gjaldþrot fari fram þegar svo er komið fyrir veikburða fyrirtæki eða félagsskap í atvinnulífinu að gjaldþrot eigi sér stað, en að reka það sem stefnu beinlínis og láta það vera yfirlýst að það eigi að vera leiðin til þess að stokka upp, þá hlýtur það að vera hluti af efnahagsstefnunni og hafa þannig áhrif á það hvernig komið er í ríkisfjármálunum, eins og fjáraukalagafrv. ber glöggt með sér.
    En gjaldþrotin hafa áhrif á fleira, þau hafa áhrif á stöðu bankakerfisins og þau hafa áhrif á þróun vaxtastigsins. Bankakerfið hefur orðið að auka sinn vaxtamun mjög til þess að mæta þessum gjaldþrotum eða töpum sem hafa riðið yfir og allt hefur þetta síðan haft áhrif á það að hækka vextina eða halda uppi háu vaxtastigi.
    Síðast en ekki síst má nefna það að gjaldþrotin hafa ekki lítil áhrif á einstaklingana, fjölskyldurnar og afkomu einstaklinganna í þjóðfélaginu. Sumir hverjir verða fyrir áföllum vegna þess að þeir lenda óbeint í því þegar önnur fyrirtæki verða gjaldþrota og tapa þá inneignum hjá þeim fyrirtækjum og síðan eignum sínum. Allt saman hlýtur þetta að vera mikil þrautaganga. Þar af leiðandi ætti það að vera hluti af efnahagsstefnu ríkisstjórnar að reyna að koma í veg fyrir gjaldþrotin í stað þess að þau séu notuð sem hluti af efnahagsstefnunni. Það hlýtur að vera óásættanlegt að svo sé unnið þó að gjaldþrot kunni, eins og ég sagði áðan, í sumum tilfellum að vera óumflýjanleg.
    Í kjölfar þessa efnahags- og atvinnuástands hefur ríkisstjórnin síðan orðið að grípa til ýmissa hliðarráðstafana eins og þess að reyna að setja viðbótarfjármuni út í þjóðfélagið til að skapa atvinnu. Ég tel að það hafi verið mjög af hinu góða og rétt stefna að beita þannig fjármunum Atvinnuleysistryggingasjóðs að hann væri notaður meira til þess að skapa atvinnu og að greiða mönnum fyrir það að vinna --- þegar

menn búa við það ástand að hafa ekki næga atvinnu. Ef það er mögulegt þá ber að reyna að gera það eins og hægt er. Ég veit að hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hér situr og fylgist með þessari umræðu er væntanlega sammála því líka og mun halda áfram að reyna að nýta fjármuni Atvinnuleysistryggingasjóðs í þá veru. Hins vegar hefur Atvinnuleysistryggingasjóður orðið fyrir alvarlegum áföllum af þessu ástandi. Þó svo að ríkisstjórnin hafi sett allnokkra fjármuni í það að styrkja atvinnulífið, sérstaklega með því að setja það sem kallað var fjármuni til atvinnusköpunar, þá er það samt svo að það þarf samkvæmt þessu frv. að hækka fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs um á annan milljarð kr., um 1,2 milljarða kr., sem þarf að bæta við Atvinnuleysistryggingasjóðinn til þess að hann geti staðið við þær skuldbindingar sem við honum blasa nú vegna þess atvinnuástands sem nú ríkir í landinu. Og er þá ekki enn þá séð fyrir endann á því, því það segir í grg. frv. að ýmis óvissa blasi enn þá við, m.a. það að Atvinnuleysistryggingasjóður er að taka á sig nýjar skyldur og nýjar ábyrgðir sem menn vita ekki enn þá og sjá ekki fyrir endann á hvernig muni ganga fram. Meðal annars má nefna það að ég held að það hafi verið núna 1. okt. þar sem t.d. sjálfstætt starfandi einstaklingar öðlast bótarétt í sjóðnum og trúi ég að það séu ekki öll kurl komin enn til grafar um það hvaða áhrif það kann að hafa á fjármagnsstöðu sjóðsins.
    Mig langar aðeins að gera enn frekar að umræðuefni þessar sértæku aðgerðir sem ríkisvaldið greip til í sumar og tengdust kjarasamningunum sem gerðir voru við aðila vinnumarkaðarins um það að bæta nokkrum fjármunum til þess að auka atvinnu. Settur var 1 milljarður kr. í þann lið og honum ráðstafað til ýmissa verkefna samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ég ítreka að það var samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar vegna þess að þrátt fyrir andmæli í fjárln. strax í sumar og svo aftur að undanförnu hefur ekki verið talin ástæða til þess að endurskoða þær fjárveitingar í einu eða neinu eða líta til þess hvort þeim hefði verið hægt að verja betur til þess að gegna sínu hlutverki og skapa atvinnu, betur komið í öðru formi eða farvegi heldur en ríkisstjórnin ákvað í sumar. Nú er það líka sýnilegt og vitað að það er ekki nema brot af þessum fjármunum, þessum milljarði, kominn til framkvæmda. Það er ekki nema brot af því sem hefur verið unnið fyrir og svo merkilegt er það að þegar talað er um að útgjaldaaukinn í þessu fjáraukalagafrv. sé á gjaldahliðinni, u.þ.b. 4 milljarðar, reyndar 4,1 fyrir svo utan brtt. þær sem hér liggja fyrir til afgreiðslu núna við 2. umr., þá er hæstv. ríkisstjórn að gæla við það að útgjaldaaukinn verði kannski ekki nema 3 milljarðar eða jafnvel tæpir 3 milljarðar. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort þetta sé ekki réttur skilningur hjá mér að þrátt fyrir það að útgjöldin séu talin aukast í fjáraukalagafrv. um 4,1 milljarð þá segir hér samt að helstu frávik séu ætluð verða tæpir 3, 2,9 milljarðar, af því að hæstv. fjmrh. telur að menn muni ekkert eyða u.þ.b. 1 milljarði kr., 1 milljarður kr. verði enn þá útistandandi um áramótin, þ.e. hann verði ekkert nýttur til þessarar atvinnusköpunar sem hann þó átti að vera samkvæmt samningunum við aðila vinnumarkaðarins og samkvæmt ákvörðuninni sem ríkisstjórnin tók á liðnu sumri.
    Þetta hlýtur auðvitað að vekja líka upp þá spurningu hvernig stendur á því að menn eru knúnir til þess í kjarasamningum að setja fjárveitingar til ákveðinna verkefna til þess að reyna að skapa atvinnu en svo þegar upp er staðið kemur í ljós að þeir fjármunir eru ekkert nýttir til þeirra verkefna. Þeir fara ekki í þær framkvæmdir sem boðað er og áætlað er.
    Ég held að hluti af því sé það sem ég nefndi í upphafi að forsvarsmenn ríkisstofnananna halda mjög að sér höndum og gæta ýtrasta aðhalds fram eftir ári. Þeir vilja eðlilega glíma við það að láta fjárlagatölurnar standast og ganga upp og þeir glíma eðlilega við það að þeirra stofnanir séu innan fjárlagarammans og hugsa sem svo: Það er betra að láta viðhaldsframkvæmdirnar, tækjakaupin, hugsanlega líka stofnframkvæmdir sem á að fara í bíða til þess að sjá hvernig okkur reiðir af með rekstrarfjárveitingarnar. Þetta leiðir síðan til þess þegar komið er fram í október, kannski nóvember, að þessum fjárlagaliðum verður ekki eytt. Gott og vel um það, ef menn ættu það þá tryggt að þeir hefðu þessa fjármuni til ráðstöfunar á næsta ári. Hæstv. ríkisstjórn hefur reyndar sett sér vinnureglur í því hvernig eigi að standa að því að láta þessa fjármuni ganga yfir áramót þannig að hægt sé að nota þá til þessara verkefna á komandi ári. Þá bregður svo við í sumar að hæstv. ríkisstjórn, og hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa sjálfsagt leitt þá vinnu, semur við Alþýðusambandið og vinnuveitendur um það hvað af þessum fjárveitingum frá fyrra ári eigi að nýta og hvað ekki. Hvað af þessu eigi að telja inn í milljarðinn góða sem átti að skapa nýja atvinnu og hvað ekki. Þetta hljóta að vera vinnubrögð með endemum. Ég hef reyndar áður spurt hæstv. fjmrh. að því hvort hann hugsi sér að þetta verði aftur svo núna á næsta ári að hann þurfti eftir áramótin að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins og spyrja hvað af þessu hann megi nú lofa forsvarsmönnum fyrirtækjanna að nýta og hvað ekki.
    Ég held að ég muni það rétt að ég hafi orð hans fyrir því hér úr ræðustól að það sé ekki meiningin að endurtaka þetta, en það væri ágætt að fá hann til þess að lýsa því yfir einu sinni enn þannig að það sé alveg skýrt og að forsvarsmenn stofnananna, sem eru kannski að spara þessa fjármuni þessa dagana, þessar vikurnar, viti það þá og þeim sé það ljóst að eftir áramótin geti þeir gengið að þessum upphæðum. Þetta vildi ég undirstrika einu sinni enn um leið og ég gagnrýni það hvernig staðið var að þessari fjárveitingu, úthlutun þessara fjármuna og að ekki skyldi hugað að því hvar atvinnuástandið var þess eðlis að á þeim þyrfti helst að halda og þá reyndar valdar þær framkvæmdir sem líklegast væri hægt að nýta fjármunina í. Ég vil líka minna á það, þó að ég því miður sjái ekki þann ágæta hv. þm. hér í þingsalnum, að í sumar þegar þessi fjárveiting var kynnt af hæstv. ríkisstjórn sagði einn hv. stjórnarliðinn, þingmaður í Sjálfstfl., hv. þm. Tómas Ingi Olrich, að við þetta mundi hann ekki sætta sig, við þessa afgreiðslu

mundi hann ekki sætta sig og ekki standa að henni óbreyttri. Það verður fróðlegt að sjá það þegar kemur að því að afgreiða þetta formlega --- ríkisstjórnin er auðvitað búin að afgreiða þetta fyrir löngu --- við atkvæðagreiðslu við 2. umr. hvernig að því verður staðið. ( Gripið fram í: Er ekki búið að lemja hann til hlýðni?) ( Fjmrh.: Jú, jú.) Er búið að lemja hann til hlýðni? er nú spurt hérna og hæstv. fjmrh. svarar að bragði: Jú, jú. Það er auðvitað búið að lemja hann til hlýðni. Kannski hefur hann fengið eitthvað fyrir húðstrýkinguna eða í barsmíðunum sem ekki hefur komið hér fram í frv. og væri nú fróðlegt að fá það upplýst hjá hæstv. fjmrh. hvað þetta hefði kostað.
    Minni hluti fjárln. sér þó ekki ástæðu til þess að fara hér fram, hæstv. forseti, með brtt. vegna þess að auðvitað hafa forsvarsmenn ýmissa stofnana gert ráð fyrir því að þessi tilkynning ríkisstjórnarinnar stæðist og væntanlega treyst á það að styrkur stjórnarmeirihluti stæði að baki ákvörðuninni þannig að þeir gætu treyst á þetta og núna væri þess vegna til lítils að fara að flytja hér brtt. Og auðvitað er ljóst að þegar ekki eru nema fjórar vikur eftir af ári, þá mundi það ekki breyta miklu um það hvað tækist að framkvæma fyrir af þessum fjármunum þó að farið yrði að flytja það milli verkefna. Hefði auðvitað mátt gera það hefði það verið gert strax í sumar eða jafnvel strax þegar þing kom saman ef hæstv. fjárln. hefði viljað beita sér fyrir því. Ég vil upplýsa það hér að ég spurði eftir því bæði þá og nú aftur síðar í fjárln. hvort það væri vilji til þess hjá meiri hluta nefndarinnar að taka þetta að einhverju leyti upp og skoða það hvort hægt væri að verja þessu fé með öðrum hætti en það var ekki talið vera.
    Þá langar mig aðeins, hæstv. forseti, að ræða hér um vextina og vaxtastefnuna og þróunina eins og hún hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar og svo kannski ekki síður það sem gerðist nú á dögunum þegar ríkisstjórnin loksins greip til handaflsins þó að þeir kysu nú að kalla það handleiðslu. Mér er reyndar alveg sama hvort það er kallað handafl eða handleiðsla. ( ÓRG: Er ekki rétt að ná í viðskrh. og forsrh.?) Auðvitað væri æskilegt að þessir hæstv. ráðherrar væru við þessa umræðu, og reyndar meira en æskilegt. Það er auðvitað nauðsynlegt, hæstv. forseti, að ráðherrar sem þessi mál varða og fjalla um efnahagsstefnuna í eins ríkum mæli og þetta frv. hlýtur að gera þegar verið er að tala um það að auka halla ríkissjóðs úr 6 milljörðum í 14, þá láti þessir ágætu herrar svo lítið að ræða hér við okkur sem höfum áhuga á að ræða þetta mál og teljum að það sé full ástæða til þess að ræða það. Það er nánast óásættanlegt að þeir séu ekki hér við þessa umræðu og varða reyndar fjáraukalögin ekkert síður en fjárlögin málaflokka allra ráðuneyta meira eða minna, að vísu misjafnlega mikið. En sum nokkuð mikið og er ástæða til þess að þeir ágætu ráðherrar sem málið varðar mest fylgist með þessari umræðu og séu þá til að svara fyrir það ef hv. þm. hafa ástæðu til þess að spyrja þá frekar út í það með fullri virðingu fyrir því að vissulega er málið sem slíkt mál hæstv. fjmrh. og hann svarar auðvitað fyrir það svo langt sem það nær. En þó geta verið uppi sérmál og ég get sagt það strax hér að ég hef t.d. áhuga á því að ræða við hæstv. heilbr.- og trmrh. Það þarf ekki að kalla hann fyrir af því að hann hefur setið hér mjög stíft undir þessari umræðu í morgun þannig að ég vænti þess að hann muni gera það áfram því ég þarf að ræða við hann ofurlítið síðar um ákveðin mál sem fjallað er um í þessu frv. og þeim brtt. sem fyrir liggja.
    En ég tel að það hefði ekki verið ástæðulaust að sá hæstv. ráðherrann sem fer með efnahagsmálin, hæstv. forsrh., væri viðstaddur þessa umræðu og reyndar hæstv. viðskrh. líka þegar rætt er um svo veigamikinn þátt eins og vaxtamálin og þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn greip til. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Er nokkur von til þess að þessir hæstv. ráðherrar geti verið hér viðstaddir umræðu af þessu tagi?
     (Forseti (GHelg) : Forseti vill biðja hv. þm. að segja sér aftur hverra ráðherra er óskað.)
    Mér þykir nú leitt að forseti skuli ekki hafa getað hlýtt á það, ég hef líklega í nokkrar mínútur rætt um það hvað mér þætti það óviðeigandi að hæstv. ráðherrar væru ekki viðstaddir umræður um efnahagsstefnu af þessu tagi.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti heyrði það og heyrði jafnframt að óskað var eftir nærveru hæstv. viðskrh. En forseti spyr einfaldlega hvort nærveru fleiri ráðherra sé óskað.)
    Ég nefndi líka að sjálfsögðu hæstv. forsrh. og svo ætla ég að vonast til þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. sýni okkur þá þolinmæði að sitja hér eitthvað áfram sem hann hefur gert dyggilega í morgun og ég geri ekki athugasemd við það, að sjálfsögðu.
     (Forseti (GHelg) : Forseti mun nú kanna hvort unnt er að fá hæstv. ráðherra til að koma hingað í húsið.)
    Ég er hér með ýmsa aðra þætti, hæstv. forseti, sem ég kannski sný mér þá að að ræða næst, en geymi vextina þar til síðar. En af því að ég gleymdi því áðan þegar ég var að tala um þennan milljarð eða þessa viðbótarfjárveitingu vegna atvinnuskapandi aðgerða, þá langar mig í framhaldi að spyrja hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann telji að þeim ákvæðum í --- kannski ekki ákvæðum í kjarasamningum heldur þeim vilyrðum eða loforðum sem gefin voru í tengslum við kjarasamningana, hafi verið framfylgt að fullu. Ég er hér með bréf frá Alþýðusambandi Íslands sem dagsett var í október, 8. okt. nánar tiltekið, þar sem Alþýðusambandið telur að ríkisstjórnin eða ríkisvaldið hafi ekki staðið við vilyrði um það að fjárveitingar til framkvæmda væru í samræmi við yfirlýsingar sem gefnar voru og vanti þar upp á 555 millj. kr. Ekki er þetta nú nákvæmlega skilgreint hvað það kunni að vera sérstaklega, en hér er sett upp tafla þar sem Alþýðusambandið telur að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hafi falist vilyrði um 17 milljarða kr. fjárframlög til hinna ýmsu verkefna en í fjárlögunum séu með þessum aðgerðum og fjáraukalögunum ekki nema 16,5 milljarðar tæpir þannig að þarna séu 550 millj. um það bil sem enn þá standi út af. Reyndar eru svo síðan athugasemdir við fjárlagafrv. fyrir næsta ár og hvernig þeir álíta að staðið sé að efndum þar. En ég veit að síðan þetta var sett fram hafa margvíslegar umræður átt sér stað um það mál þannig að sjálfsagt eru ekki lengur réttar þær tölur eða a.m.k. ekki ástæða til þess nú að vera að velta því fyrir sér hvernig það dæmi líti út, en ég spyr um það hvernig þetta líti út gagnvart árinu í ár og þeim viðhorfum sem í bréfinu koma fram varðandi sjónarmið Alþýðusambandsins um það að ekki sé staðið við þetta.
    Nú hefði mig langað til þess að hæstv. heilbr.- og trmrh., ef hann hefur ekki vikið úr húsinu, væri hér og hlýddi aðeins á mál mitt því að mig langar að ræða nokkuð um stefnuna í sambandi við sjúkrahús og hagræðingu og sparnað sem þar hefur verið reynt að framkvæma en kemur nú reyndar í ljós í þessu fjáraukalagafrv. og brtt. meiri hluta nefndarinnar að hefur ekki allt gengið eftir. Reyndar hygg ég að við eigum enn eftir að fá ýmislegt upp úr þeirri skjóðu þegar haldið verður áfram að skoða og ræða nánar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár, en það bíður auðvitað líka betri tíma. En það eru ýmis mál sem hefði verið ástæða til þess að ræða við hæstv. heilbrrh. núna varðandi það sem hér er á ferðinni. Reyndar hefði ekkert verið á móti því að hæstv. viðskrh. hefði verið við þá umræðu líka því að hann lagði grunninn að því sem hér hefur verið að gerast og þeirri þróun sem við stöndum núna frammi fyrir í þessum mikilvæga og viðkvæma málaflokki. --- Veit hæstv. forseti nokkuð um heilbr.- og trmrh., hvort hann hefur tök á því að . . .
     (Forseti (GHelg) : Hæstv. heilbr.- og trmrh. mun hafa farið í síma og kemur á hverri stundu.)
    Ég þakka fyrir upplýsingarnar, hæstv. forseti, og skil það ofur vel, enda eins og ég sagði áðan ekki ástæða til þess að gagnrýna hæstv. heilbr.- og trmrh. því að hann hefur hlýtt á þessar umræður og er mættur.
    Það sem mig langaði til að ræða hér í sambandi við heilbrigðismálin og þá þróun sem við horfum á núna í tengslum við þau fjáraukalög sem hér eru til umræðu er hvort sparnaður sá, sem boðaður hefur verið og mikið rætt um að undanförnu og hagræðing í skipulagi og rekstri sjúkrahúsanna, hafi skilað árangri, sumir hafa sagt miklum árangri, jafnvel hundruðum millj. kr. ef ekki enn meira. Ég þykist hafa nokkra vissu fyrir því að það hafi ekki allt gengið eftir og sparnaðurinn sé lítill ef hann er nokkur annar en sá að af hefur hlotist verulegt óhagræði, verulegt rask í rekstri stofnana og auðvitað á högum þeirra einstaklinga og aðila sem þurfa að njóta þjónustu heilbrigðisstofnananna okkar, svo mikilvæg sem sú þjónusta er.
    Við munum eftir því að hæstv. fyrrv. heilbrrh. óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun færi ofan í þetta mál og leitaði eftir því við hana að skýra það eða fá fram álit hvort og þá hversu mikill sparnaður hefði nú þegar hlotist af þeim breytingum sem hann var að beita sér fyrir með því að skera verulega niður fjárveitingar til Landakots, með því að flytja hluta af þjónustu Landakots yfir til Borgarspítalans, með því að skera verulega niður fjárveitingar til sjúkrahússins í Hafnarfirði, sem ég hygg að hæstv. núv. heilbrrh. sé mjög vel kunnugt um, hvernig það mál hefur gengið fram og með öðrum slíkum aðgerðum. Í áliti Ríkisendurskoðunar kom að vísu fram að Ríkisendurskoðun taldi að nokkur sparnaður hefði náðst en það undarlega var að það var einmitt ekki hjá þessum stofnunum. Það var hjá Ríkisspítölunum. Mesti sparnaðurinn sem Ríkisendurskoðun sá og tók fram í sínu áliti, þó að ég sé nú ekki með það hér fyrir framan mig, ég þykist muna þetta og geta fullyrt, var einmitt hjá Ríkisspítölunum sem höfðu lagt sig fram um að standa við þær fjárveitingar sem þeim höfðu verið ætlaðar og leita allra leiða til aðhalds og sparnaðar sem hugsanlegar voru. En í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar voru fyrirvarar um það að svo skammt væri liðið frá því að þessar róttæku breytingar voru knúnar fram, t.d. hvað varðar rekstur Landakots og tilfærslu á verkefnum, að það væri of snemmt að segja til um varanlegar afleiðingar af þeim breytingum og það væri ekki hægt að fullyrða um það hvernig þetta kæmi út til lengri tíma litið. Og það er einmitt það sem ég hef rætt hér ítrekað, virðulegur forseti úr þessum ræðustóli og annars staðar að ég álít að það væru einmitt langtímaáhrifin sem kannski skiptu meira máli heldur en það hvort menn gætu sýnt fram á það að þeir spöruðu einhverja tugi millj. eða kannski 100--200 millj. með einhverjum róttækum breytingum til skamms tíma litið. En þá væru menn að fresta öðru sem mikilvægara væri fyrir utan það að það gæti auðvitað haft alvarleg langtímaáhrif á heilsu fólks hvernig farið er með heilbrigðisþjónustuna á vissum sviðum.
    Mig langar í því sambandi að vitna hér til nýútkominnar skýrslu landlæknisembættisins um afköst, kostnað og biðlista í heilbrigðisþjónustunni. Þessa skýrslu lagði landlæknir fyrir fjárln. nú á dögunum. Ég geri ráð fyrir því að hún hafi einnig verið afhent öðrum hv. þm. eða sé a.m.k. ekkert leyniplagg. Hún er ekki merkt sem trúnaðarmál og kemur frá því embætti sem á að vera og er ríkisstjórn og stjórnvöldum til ráðgjafar og ráðleggingar um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd hennar. Í inngangi að þessari skýrslu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir að allt að 50% af minni háttar aðgerðum hafi flust út fyrir veggi sjúkrahúsanna, m.a. vegna mikilla tækniframfara á svæfingu og skurðaðgerðum, hafa biðlistar ekki styst, frekar lengst frá árinu 1991.`` Og áfram: ,,Biðlistar vegna lýtalækninga eru ekki teknir með þar eð greiðsluákvæði hafa breyst og yfirgnæfandi hluti eru minni háttar fegrunaraðgerðir. ,,Þyngri`` aðgerðir eru nú framkvæmdar en áður og þess vegna er biðlistavandamálið erfiðara. Margir sjúklingar kvarta. Bið eftir aðgerðum hér á landi er yfirleitt lengri en gerist víða í nágrannalöndunum. Það verður að hægja á ,,hagræðingunni``.`` Og áfram segir landlæknir: ,,Það skapaði mikil vandræði ef nú væri dregið úr göngu- og dagdeildaraðgerðum Landakotsspítala. Hagræðingaraðgerðir síðustu ára hafa þó að mörgu leyti skilað góðum árangri.``
    Ég vil aðeins undirstrika þetta sem hér segir í einni línu: Það skapaði mikil vandræði ef nú væri dregið úr göngu- og dagdeildaraðgerðum Landakotsspítala. Og það er einmitt það sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. heilbr.- og trmrh. boðar í fjárlagafrv. fyrir næsta ár enn frekar en þó er núna. Ég hygg nefnilega að sumt af því sem hér er bent á að hagræðingaraðgerðir síðustu ára hafi skilað að mörgu leyti góðum árangri hafi m.a. verið í því fólgið að gera Landakotsspítalann að --- það er stundum kallað ,,elektívt`` sjúkrahús, þ.e. sjúkrahús sem snýr sér frekar að biðlistaaðgerðum, sérhæfir sig í því og vinnur aðgerðir sem hægt er að skipuleggja fyrir fram og kalla einstaklinga inn til aðgerða og hagræða á þann hátt og það væri mjög til bóta að halda því sjúkrahúsi áfram með verkefni af því tagi. En nú er hins vegar boðaður alvarlegur niðurskurður á fjárveitingum til Landakotsspítala sem setja þetta verkefni spítalans a.m.k. í mikla óvissu ef ekki algjörlega út af borðinu. Það mátti helst heyra á fulltrúum þess sjúkrahúss sem komu til fjárln. á þessum morgni til þess að ræða ástand stofnunarinnar að það væri sannarlega mikil óvissa fram undan varðandi rekstur þess spítala, enda eins og hér kom fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni í morgun, þá lýstu þeir því yfir að þeir hefðu þegar orðið mikla æfingu í því að rústa rekstur heilbrigðisstofnana. Þeir geta þá líklega haldið áfram við að mölva endanlega niður það litla sem þar stendur eftir.
    Mig langar til að halda áfram að vitna í þessa skýrslu landlæknis, með leyfi forseta. Hér segir:
    ,,Vinnuhraði og vinnuálag á sjúkrahúsum hefur aukist. Landlæknisembættið hefur undir höndum nokkur slysatilvik sem rekja má óbeint og beint til þessa.``
    Ég tel að hér sé alvarlegt mál á ferðinni sem stjórnvöld hljóta að verða að skoða og taka nokkurt tillit til að hér er landlæknir að leggja dóm á ástandið hvernig það er núna og segir, ef ég má ítreka þetta, með leyfi forseta:
    ,,Vinnuhraði og vinnuálag á sjúkrahúsunum hefur aukist. Landlæknisembættið hefur undir höndum nokkur slysatilvik sem rekja má óbeint og beint til þessa.`` Og áfram: ,,Vinnuálag hefur enn aukist, en sem dæmi má nefna kvartanir um mikla streitu. Um 30% hjúkrunarfræðinga kvörtuðu um mikla streitu fyrir 10 árum, en nú um 45% þeirra.`` Eða nær helmingur starfandi hjúkrunarfræðinga. Það er nú innskot mitt. Áfram segir í skýrslunni: ,,Svipaða sögu er að segja um sjúkraliða. Um 35% íslenskra lækna kvarta um mikla streitu í starfi og er það mun hærra en gerist meðal annarra stétta.``
    Og svo út af yfirlýsingum landlæknis um biðlistana, þá er tafla í þessari skýrslu þar sem hann gerir grein fyrir þeirri þróun. Að vísu er þetta nokkuð misjafnt eftir einstökum aðgerðum sem beðið er eftir en í heildina hljóðar þessi listi, sem ég ætla ekki að lesa allan, upp á það að biðlistarnir hafa frá 1991 þróast þannig: 1. sept. 1991 var 3.151 einstaklingur á biðlista, 1. sept. 1992 voru þeir 3.166 og 1. sept. 1993, þegar sparnaðar- og aðhaldsaðgerðanna fer nú virkilega að gæta, þá eru þeir orðnir 3.259 sem eru á biðlista. Og þetta eru upplýsingar frá landlækni, virðulegur forseti, sem ég tel að heilbrigðisyfirvöld og auðvitað stjórnvöld almennt, ríkisstjórnin öll en ekki síst hæstv. heilbr.- og trmrh. hljóti að verða að velta fyrir sér og væri fróðlegt að fá að heyra álit hans á þessum alvarlegu upplýsingum sem ég tel að hér komi fram.
    Í gögnum sem komið hafa fyrir fjárln. frá hinum stóru þremur sjúkrahúsum, t.d. frá Landakotsspítala, frá Borgarspítala og síðast en ekki síst frá Ríkisspítölum, þá kemur í ljós að þróunin er með þeim hætti að mikill vandi er að skapast á bæði Landakoti og Borgarspítalanum. Þar er því miður nokkur halli á rekstri og auðvitað umtalsverður á Landakoti miðað við stærð þess sjúkrahúss. Það má kannski segja að þegar fjárveitingar til stofnana eru farnar að skipta milljörðum kr., þá séu 100 millj. e.t.v. ekki það sem veltir hlassinu, en 100 millj. eru þó miklir fjármunir og nú er fyrirliggjandi brtt. um það að hækka fjárveitingar til Landakots um 100 millj. kr. Það er vegna þess að þar hefur þróunin einmitt verið sú á þessum umbrotatímum í heilbrigðisþjónustunni eða sjúkrahúsmálunum hér á höfuðborgarsvæðinu á þessum næstliðnu árum að sjúkrahúsið hefur, þrátt fyrir það að verkefni hafi verið flutt frá því, alls ekki getað staðið við það markmið sem það hefur þó reynt að standa við fjárlög og gífurlegur fjárhagsvandi hefur verið að safnast þar upp.
    Það er verið að tala um að allt saman sé þetta fortíðarvandi og allt saman meira og minna fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. ráðherrum að kenna hvernig komið er. Staðreyndin er sú að svo var komið 1987, þegar fyrrv. hæstv. ríkisstjórn tók við völdum að þá höfðu þegar safnast upp verulegar skuldir á St. Jósefsspítalanum að Landakoti, verulegir rekstrarerfiðleikar sem blöstu við. Þá settumst við niður, þáv. heilbrrh. sem hér stendur og hæstv. fyrrv. fjmrh., og reyndum að ná samkomulagi um það hvernig hægt væri að leysa vanda þessa sjúkrahúss, auðvitað með því að bæta þeim að einhverju leyti þennan halla en líka með því að fá stjórnendur þess til þess að hagræða og lagfæra í sínum rekstri þannig að betur mætti takast að reka stofnunina. Nú ætla ég ekki að segja að það hafi allt saman gengið upp sem þar var lagt upp með en þó þróaðist það þannig með aukafjárveitingum og með breytingum á rekstri í stofnuninni að frá árinu 1987 til ársins 1990 hafði hallinn farið úr 350 millj. kr., sem þá voru uppsafnaðar skuldir, niður í 118 millj. Rekstrarhallinn á þessum árum hafði þá líka breyst úr því að vera á annað hundrað millj. kr. niður í tæpar 20 millj. Og á árinu 1991 tekst stofnuninni að koma skuldum sínum niður fyrir 100 millj. kr. og rekstrarafkomunni réttum megin við strikið upp á rúmar 20 millj. Á árinu 1992 og 1993 snýst þetta hins vegar algjörlega við aftur og er nú svo komið að skuldirnar eru farnar að skipta mörg hundruð milljónum enda þarf að veita núna 100 millj. kr. fjárveitingu til þess að laga rekstur þessarar mikilvægu stofnunar. Og það sem meira er að forsvarsmenn Landakots sem hafa þó út af fyrir sig verið jákvæðir gagnvart hugmyndum um, að ég hygg að ég megi segja þó þeir séu ekki hér staddir til þess að staðfesta eða andmæla, en ég hygg að ég megi segja það að forsvarsmenn þessarar stofnunar, bæði framkvæmdastjóri og yfirlæknir hafi verið jákvæðir í viðhorfi til þess að breyta skipulagi á rekstri heilbrigðisstofnana hér á höfuðborgarsvæðinu. En þá segja þeir báðir við fjárln. á þessum morgni að þeir telji að það sé óvíst að af þessu brölti á undanförnum tveimur árum hafi leitt nokkurn sparnað. Án þess að ég sé að hafa það frekar eftir þeim orðrétt þá hygg ég að þetta sé þó nógu nákvæmt til þess að vera það sem þeir sögðu, að þeir hefðu efasemdir um það að af þessu hefði hlotist einhver sparnaður ef nokkur.
    Borgarspítalinn fær ekki mikla úrlausn í þessu fjáraukalagafrv. og er ekki gert ráð fyrir því að bæta neitt við fjárveitingar til þeirrar stofnunar en á fundi í fjárln. hafa þeir hins vegar gert ráð fyrir því að þar blasi við rekstrarhalli upp á annað hundrað millj. kr. á yfirstandandi ári og voru þeim þó veittir verulegir fjármunir til þess að taka við verkefnum frá Landakotsspítala, en þeir telja vissulega að þar hafi ekki verið að fullu komið á móti þeim kostnaði sem af því hlaust og benda jafnframt á það að sértekjur stofnunarinnar muni alls ekki nást, þær sértekjur sem sjúkrahúsinu voru áætlaðar á fjárlögum þessa árs. En það er sem sagt ekki gert ráð fyrir því að breyta þar heldur verði þeir að glíma við það á næsta ári að leysa þann vanda sem nú er að skapast upp á a.m.k. 115--120 millj. kr.
    Ég ætla ekki að rekja, ég hygg að það hafi komið fram í ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar, frsm. minni hluta fjárln., lýsing á því hvernig viðhaldsþörfin blasir við á þessum stofnunum og kom mjög vel fram í orðum fulltrúa Borgarspítalans einmitt hvað þarf orðið að gera þar og hluti af þessari svokölluðu hagræðingu og þessum svokallaða sparnaði er auðvitað í því fólginn að fresta viðhaldsframkvæmdum, fresta nauðsynlegum úrbótum á þessum sjúkrahúsum. Ætla ég aðeins að koma að því nánar þegar ég ræði málefni Ríkisspítalanna en vil þó áður en ég hverf frá Borgarspítalanum spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. út í það að ég hygg að það megi segja að það hafi náðst nokkur lending í málefnum leikskóla spítalanna, bæði á Landspítalanum og á Landakoti, þó það megi sjálfsagt deila um það hversu viðunandi sú niðurstaða er. En samkvæmt fréttum í Morgunblaðinu í gær, miðvikudaginn 1. des., er fjallað um ósk borgarráðs sem, eins og þar segir, vill fá fund með ráðherra um leikskólamálin og er þar verið að fjalla um ályktun stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar þar sem óskað er eftir fundi með ráðherra af því að málið sé alls ekki leyst og undir þeim kringumstæðum sem a.m.k. voru í gær í þessu máli þá telji stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar sér ekki fært að taka ákvarðanir um framtíðarrekstur leikskóla Borgarspítalans. Mig langaði að víkja að því við hæstv. ráðherra hvernig þetta mál stæði nú. En vissulega er þetta þó mál sem kannski fremur varðar fjárlög næsta árs heldur en þau fjáraukalög sem við erum nú að fjalla um, að öðru leyti heldur en því að það verður auðvitað erfiðara fyrir þessar stofnanir að leysa nokkuð sín mál á næsta ári eftir því sem þeim er ætlað að fara með stærri fjárlagahalla frá yfirstandandi ári yfir á það næsta.
    Varðandi Ríkisspítalana þá langar mig sérstaklega að fara nokkrum orðum um þvottahúsið og það sem þegar hefur komið fram um það. En áður en ég kem að því langar mig að vitna aðeins til greinargerðar sem fjárln. hefur borist frá stjórnarnefnd Ríkisspítalanna þar sem fjallað er um aðgerðir sjúkrahússins til þess að reyna að halda sig innan fjárlagarammans sem ég tel að hafi tekist bærilega miðað við þetta stóra sjúkrahús og þann margvíslega og flókna rekstur sem þar fer fram, og bæði framkvæmdastjóri og forstjóri þeirrar stofnunar og starfsfólk eiga heiður og þökk skilið fyrir það hvernig það hefur staðið að þessum málum. En í þessari skýrslu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þessi árangur [þ.e. sá að halda sig innan fjárlaga] náðist með hagræðingu, með samdrætti í þjónustu, þ.e. lokunum deilda, og með því að fresta verkefnum og kaupum á nauðsynlegum tækjabúnaði. Þetta tókst með samstilltu átaki starfsfólks.``
    Undir þetta er ábyggilega hægt að taka en það segir að þetta sé auðvitað ekki allt gert með hagræðingu sem hvergi komi fram annars staðar en bara að draga úr kostnaði. Þetta er gert með því að draga úr þjónustu. Það er gert með því að loka deildum og veita minni þjónustu og það er gert með því að fresta ýmiss konar verkefnum. Það er gert með því að fresta viðhaldsverkefnum eins og t.d. kom mjög vel fram hjá Borgarspítalamönnum og það er gert með því að fresta kaupum á nauðsynlegum tækjabúnaði. Það er þetta sem er að gerast, virðulegur forseti, og það er þetta sem við getum ekki horft á til frambúðar með mikilvægar stofnanir sem þess er krafist af að vera stöðugt í fararbroddi, vera stöðugt að taka við verkefnum sem aðrir treysta sér ekki til að fylgja fram og geta ekki, við getum ekki ætlast til þess að allar stofnanir geri það, við ætlumst til þess að við eigum hér gott háskólasjúkrahús, sem eru Ríkisspítalarnir, sem sé undir það búið að takast á við hin ýmsu flóknu vandamál sem upp koma í heilbrigðisþjónustunni og svo Borgarspítalinn sem við viljum einnig að sé fullkomið og gott sjúkrahús.
    En svo segir líka í þessari skýrslu til fjárln. frá Ríkisspítölunum og mig langar til að beina því til hæstv. fjmrh. einnig, með leyfi forseta:
    ,,Þess er vænst að Ríkisspítalar fái að njóta þess árangurs sem þegar hefur náðst þannig að ekki sannist sú skoðun sem víða heyrist að það borgi sig ekki að spara í rekstri ríkisstofnana því það verði aðeins til þess að krafist verði enn meiri sparnaðar.``
    Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur á þessu skoðun og ég veit að hann hefur fullan vilja til að láta menn njóta þess, hann hefur stundum talað um það að menn ættu raunverulega skilið umbun fyrir það að standa sig vel í rekstri og það ætti ekki að þýða það ef mönnum tekst að spara 600 millj. í ár að þá eigi að segja við þá: Þið verðið að spara aðrar 600 millj. á næsta ári, heldur að það sé einhvern tímann sagt

við þetta fólk: Þið hafið gert vel og það þarf vissulega að meta það við ykkur. Ég tel að starfsfólk í heilbrigðisþjónustu eigi það reyndar skilið núna. Formaður stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar, formaður stjórnar Borgarspítalans, sagði m.a. á fundi fjárln. í morgun að honum fyndist kominn tími til þess að þeir fengju að vera í friði, þeir teldu sig vera búið að gera ærið nóg. Hvort það væri ekki loksins tími til þess að þeir fengju að vera í friði með sína stofnun og fá að reka hana eftir því sem þeir teldu skynsamlegast, auðvitað innan sanngjarns fjárlagaramma sem ég veit að stjórnvöld verða að krefjast af þeim.
    Virðulegur forseti. Þá langar mig að fara örfáum orðum um margrætt Þvottahús Ríkisspítala og finnst eiginlega sá farsi allur saman verða skrautlegri eftir því sem lengra líður og eftir því sem meira er um málið fjallað. Við munum þá umræðu alla frá því í fyrra og ég þarf ekki að rifja hana upp í mörgum orðum. Það var ætlast til þess að Ríkisspítalaþvottahúsið yrði einkavætt, því það er eitt af trúarbrögðum hæstv. ríkisstjórnar að einkavæða allar stofnanir eða sem flestar og selja síðan. Þó skyldi það vera með nokkuð öðrum hætti þarna því að Ríkisspítalarnir áttu að vera, ef ég skil rétt, eigendur --- þeir eru náttúrlega eigendur stofnunarinnar, vænti ég, það hafa a.m.k. verið fjármunir Ríkisspítalanna sem hafa verið notaðir til að byggja þetta þvottahús, og að Ríkisspítalarnir séu eigendur hlutabréfanna í hlutafélaginu þegar búið er að breyta því í hlutafé og þess vegna áttu tekjurnar af sölu hlutabréfanna síðan að renna aftur sem sértekjur til Ríkisspítalanna. Þegar mönnum varð ljóst hversu vitlaust þetta var þá var auðvitað fallið frá þessu snemma á þessu ári. Hæstv. fyrrv. heilbrrh. fullvissaði stjórnendur Ríkisspítalanna um það að þessu yrði mætt með breytingu á sértekjum af því að það væri ekki ætlast til þess að þeir fengju þessar 60 millj. Reyndar var hótun í fjárlagafrv. fyrst um það að ef ekki væri hægt að selja þessi hlutabréf þá skyldu Ríkisspítalarnir spara einhvern veginn á móti þessu eða afla sér sértekna með öðrum hætti á móti þessu. En frá því var líka fallið og stjórnendur Ríkisspítala hafa staðið í góðri trú það sem af er þessu ári að þeir fengju þetta bætt, að orð hæstv. fyrrv. heilbrrh. stæðu hvað þetta varðaði. Nú er hann því miður ekki hér við þó það hafi verið óskað eftir því að hann kæmi hingað og það var um þetta mál sem mig langaði til að fá hann til að tjá sig. Það kann að vera að það geti gerst síðar í dag ef hann kemur hér. En þetta loforð hæstv. ráðherra virðist því miður ekki hafa gengið eftir og svo virðist sem núv. hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. hafi komið sér saman um það, þrátt fyrir þessi fyrirheit, að þetta skuli ekki bætt nema að hluta. Og fjárln. hefur reyndar fengið um það bréf eða erindi frá heilbrrn. að um það hafi náðst samkomulag milli þessara tveggja hæstv. ráðherra að standa ekki við fyrirheitið og að þeir hafi orðið sáttir um að sértekjuáætlun Ríkisspítala verði lækkuð um 30 millj. kr. eins og segir í þessu bréfi til nefndarinnar. Það er út af fyrir sig kannski ekki við því mikið að gera ef þeir hafa náð þessu samkomulagi, en mér finnst óviðunandi að fara svona með stjórnendur stofnana. Ég kalla það að fara aftan að þeim og það er verulegur sparnaður sem þarf að knýja fram á fjórum vikum, á einum mánuði, ef það á að spara á móti þessum 30 millj. Hættara er auðvitað við að þeim verði velt áfram sem rekstrarhalla og stjórnendur spítalans lendi í því að þurfa að knýja fram þennan sparnað á næsta ári.
    En það sem er kannski enn merkilegra við þetta mál allt saman heldur en það að fara svona með, að ég fullyrði, gefin loforð eða a.m.k. gefin fyrirheit, að svíkja þau gefnu fyrirheit, það er að í raun er verið að knýja Ríkisspítalana til þess að kaupa helminginn af þeim hlutabréfum sem áætlað var að selja. Þó það sé ekki búið að gera fyrirtækið eða þessa rekstrareiningu að hlutafélagi enn þá, þá má alveg líta þannig á það að það átti að selja fyrir 60 millj., það eru bættar 30 og Ríkisspítalarnir eru þá byrjaðir að kaupa fyrirtækið aftur. Búnir að kaupa fyrir 30 millj. núna, þeir fá þá kannski einhver extra hlutabréf, það verða að vera einhver A-hlutabréf fyrst og svo B-hlutabréf sem Ríkisspítalar fá fyrir þessar 30 millj. sem þeir greiða í ár þegar þeir þurfa svo aftur að fara að selja 60 millj. á næsta ári, hvernig svo sem hæstv. ráðherra hugsar sér að standa að því máli. Væri nú fróðlegt að heyra álit hans á því, ef hann er þá ekki þegar horfinn frá þessari vitleysu aftur. Auðvitað væri mikið betra að viðurkenna það núna strax áður en gengið er frá fjárlögum fyrir næsta ár, heldur en að bíða með það fram í janúar, febrúar eða mars og segja þá: Við erum hættir við að selja. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að gefa okkur þá yfirlýsingu hér á eftir að það þurfi ekki að ræða mikið meira um þetta. Sjúkrahúsið verði bara að búa við þennan 30 millj. kr. niðurskurð ef hann ekki treystir sér til að samþykkja þá brtt. sem við leggjum fram og ég geri grein fyrir á eftir, en ef ekki þá segi hann okkur a.m.k. það að hann sé hættur við þetta.
    En mig langar aðeins í viðbót að vitna hér til greinargerðar sem er merkt Framkvæmdanefnd um einkavæðingu og er bréf til fjárln. Alþingis frá 25. nóv. 1993 þar sem nefndinni er send skýrsla um þvottahúsið sem Hagvangur hf. vann að beiðni þessarar ágætu nefndar, framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Þetta er afar merkileg skýrsla fyrir þá sem hafa gefið sér tíma til að glugga í hana vegna þess að þar er auðvitað rekstri þessarar einingar, Ríkisspítalanna, hælt mjög og þar ítarlega tilgreint að rekstrarsmál þar séu í góðu lagi og að þjónustan sé á lágmarksverði, fyllilega samkeppnishæf við það sem gerist í öðrum löndum, hér á Norðurlöndunum t.d. og það sem gerist á einkamarkaði hér á landi. Þess vegna getur þetta allt saman, þessi krafa og þessi ósk um hlutafélag og það að koma þessu fyrirtæki í eitthvert annað eignarhald til annarra aðila, ekki haft nema eina afleiðingu: að hækka kostnaðinn. --- Þetta getur ekki haft nema þá einu afleiðingu að hækka kostnaðinn. Einhvern arð hljóta þeir að vilja hafa sem ætla sér að leggja fjármuni sína í að kaupa þetta þvottahús, kaupa hlutabréf í því og hvernig ætla þeir að skapa sér þann arð af stofnun sem rekin er nú með lágmarkskostnaði og lágmarksgreiðslum fyrir þjónustuna? Hvernig ætla þeir að skapa sér arð af sínum fjármunum öðruvísi en að hækka verð fyrir þjónustu stofnunarinnar? Enda segir í þessari skýrslu, ég ætla, með leyfi forseta, að fá að vitna aðeins í hana:
    ,,Þróun rekstrarkostnaðar á milli ára virðist eðlileg og var heildarkostnaðarverð pr. þvegið kíló lægra en 1992 í samanburði við 1991 þrátt fyrir rúmlega 5% samdrátt í magni.`` --- Það sýnir sig að það er verið að hagræða þarna mjög og það er haldið áfram að gera vel og það tekst að lækka kostnað.
    Svo segir áfram: ,,Verðlagning á þjónustu Þvottahúss Ríkisspítalanna er í beinum tengslum við þau gjöld sem hún á að standa fyrir.`` --- Þannig er verðlagningunni fyrst og fremst ætlað að standa undir kostnaði, beinum rekstrarkostnaði við þvottahúsið. --- ,,Samanburður við verðlagningu annarra þvottahúsa á hinum Norðurlöndunum leiðir í ljós að Íslendingar eru vel samkeppnisfærir í verðum. Verðið er einnig samkeppnishæft miðað við einkamarkaðinn.`` --- Og þrátt fyrir þetta kemur þessi gullvæga trúarbragðasetning: ,,Lagt er til að stofnað verði hlutafélag``. --- Það eru engin rök í því, það er ekkert sem er á bak við það annað en bara það að framfylgja þessum trúarbrögðum að stofnunin skuli einkavædd og kostnaðurinn þar með hækkaður. --- ,,Lagt er til að stofnað verði hlutafélag sem sérhæfir sig í þjónustu við sjúkrahús og hjúkrunarstofnanir. Hið nýja fyrirtæki yfirtekur rekstur Þvottahúss Ríkisspítalanna og hagsmunaaðilum verði seld eignaraðild að því til þess að tryggja hagsmuni og öryggissjónarmið.`` --- Hagsmunaaðilum hverjum? Eiga þá kannski Ríkisspítalarnir enn í þriðja skiptið að fara að kaupa þessa stofnun? Að borga sjálfum sér? Eða hvers lags endalaus hringavitleysa er þetta, hæstv. heilbr.- og trmrh.? Ég vona að þú gefir okkur þá yfirlýsingu á eftir að það sé alveg ljóst að þetta sé svo mikið rugl að þú saltir þetta frv. sem hæstv. ráðherra hefur þegar lagt fram. --- Virðulegur forseti, þá má víst ekki tala svona beint við hæstv. ráðherra. --- Ég vona að virðulegur hæstv. heilbrrh. segi okkur það á eftir að hann hafi tekið ákvörðun um það að salta þetta frv. sem hann hefur lagt hér fram. Mig langar þó að lesa eina setningu enn úr þessu ágæta yfirliti um þvottahúsið frá Hagvangi. Þar segir:
    ,,Stofnun hins nýja hlutafélags ætti ekki að raska samkeppnisstöðunni á almenna þvottahúsamarkaðinum því gert er ráð fyrir að félagið einbeiti sér að þeim markaði sem hentar því best, þ.e. sjúkrahús og hjúkrunarstofnanir. Á þessum markaði eru enn ónýtt tækifæri sem felast m.a. í því að yfirtaka þvottahússþjónustu hjá stofnunum og samtökum sem reka eiga þvottaaðstöðu í dag.``
    Það á sem sagt ekkert að breyta rekstrinum, hann á að halda áfram að vinna fyrir þennan sérhæfða markað. Það er líklega til þess að friða einhverja einkaaðila sem gætu óttast það að Þvottahús Ríkisspítalanna færi síðan að selja t.d. hótelum og ýmsum öðrum aðilum, einstaklingum auðvitað einnig, þjónustu sína og færi þar með að keppa við þá. Ég veit ekki hvað þessi setning á að þýða. Og svo er lokasetningin í skýrslunni:
    ,,Af viðbrögðum þeirra einkaaðila sem þekkja þennan markað og rætt hefur verið við má ætla að áhugi fyrir hlutabréfakaupum sé takmarkaður nema viðkomandi hafi getu til þess að ná meirihlutaáhrifum í stjórn fyrirtækisins og þannig haft veruleg áhrif á verðlagningu og arðsemi sinnar fjárfestingar.``
    Og var það ekki einmitt þetta, hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. fjmrh., sem ég var að segja: Menn hljóta að fjárfesta í þessu með þeim eina tilgangi að hækka verðið og fá arð af sínum hlutabréfum og til hvers er þá unnið? Hver er tilgangurinn? Ég spyr.
    Virðulegur forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Ég hef talað lengur en ég ætlaði mér í upphafi, en það er margt sem er athugavert við þetta, kannski ekki beint við þetta frv. því að það er auðvitað alveg eins og til er stofnað. Það er bara leiðrétting á vitlausum fjárlögum og á rangri efnahagsstefnu sem beðið hefur skipbrot að það hlýtur að vera ástæða til þess að fjalla nokkuð ítarlega um það. Ég ætlaði þó ef hæstv. forsrh. er hér enn, hann gekk hér í gegnum salinn áðan, að fá að segja við hann tvö eða þrjú orð um vexti. Ég get meðan hann lýkur samtali sínu þarna sagt aðeins tvö eða þrjú orð um Sólheima í Grímsnesi. Mig langar að segja út af því sem fram kom í ræðu hv. formanns fjárln., hv. þm. Sigbjarnar Gunnarssonar, að við höfum rætt um málefni Sólheima í fjárln. og við erum sammála um að sú breyting, sem orðið hefur á greiðslum til vistmanna á þessari stofnun, hlýtur að hafa áhrif á þær fjárveitingar sem renna til stofnunarinnar á næstu fjárlögum. En í ræðu formanns kom sérstaklega fram að það væri niðurstaða nefndarinnar að á næsta ári væri búið að móta nokkuð hvaða fjárveitingar þyrfti til reksturs stofnunarinnar. Ég vil aðeins hafa fyrirvara um það. Ég er ekki að andmæla því að það kunni ekki að verða niðurstaðan að nefndin nái saman um það, en vil hafa fyrirvara á því að við höfum ekki rætt enn þá ítarlega um það í nefndinni, ekki svo ítarlega að ég vilji undirskrifa þetta eins og það kom orðrétt fram í ræðu formannsins, en ég tel að nefndin þurfi núna á næstu dögum að ganga endanlega í að komast að niðurstöðu um hvernig haga beri þessum málum á næsta ári. Breyting á greiðslutilhögun hlýtur að hafa áhrif á þær fjárveitingar sem ætlaðar eru og þess vegna ekki við því að búast að þær verði óbreyttar frá því sem fjárlög ársins í ár gera ráð fyrir. Undir það tek ég með hv. formanni nefndarinnar.
    Það sem mig langaði að segja við hæstv. forsrh., af því að hann er kominn hér í salinn, er að við höfum rætt um það nokkuð í tengslum við þetta fjáraukalagafrv. að það væri auðvitað hluti af efnahagsstefnunni og það er ekki glæsilegur dómur að þurfa að sætta sig við það eða sitja uppi með það að fjárlögin hafi breyst svo gífurlega að hallinn skuli fara úr 6,2 milljörðum í nær 8, a.m.k. 7,6 milljarða sýnist mér eins og þetta liggur hér fyrir. En í framhaldi af þeirri umræðu um efnahagsstefnu langaði mig að segja aðeins um vexti. Vissulega hefur ríkisstjórnin að lokum eftir mikla umræðu um vaxtamál í þjóðfélaginu og kröfur frá ýmsum aðilum, aðilum vinnumarkaðarins, bæði atvinnurekendum og launþegum svo og stjórnarandstöðunni, beitt áhrifum sínum í málinu til þess að knýja fram vaxtalækkun. Og mér er nokkuð sama hvort það er kallað handafl eða handleiðsla. Það læt ég nú alveg liggja milli hluta. En auðvitað var það það sem ríkisstjórnin gerði sem búið var að krefjast. Hún reyndi að beita þeim áhrifum og þeim stjórntækjum sem hún hafði yfir að ráða, sem ríkisvald í hvaða landi sem er hefur yfir að ráða. Ég man eftir því að ég hef sagt það hér úr þessum ræðustól við hæstv. forsrh. áður í sambandi við umræður um vaxtamál að það væri eðlilegt og nauðsynlegt að ríkisstjórn á hverjum tíma beitti sér í þessu máli. Hæstv. forsrh. sagði það hins vegar einhvern tíma að það hefði alltaf verið krafa stjórnarandstöðunnar að handaflið þýddi lagasetningu. Ég man eftir því þegar ég ræddi þetta einhvern tíma hér fyrr á þessu þingi þá bar ég það saman við kröfuna um það að stjórnvöld t.d. í Þýskalandi væru aftur og aftur krafin um að hafa áhrif á vaxtastefnuna í því landi með þeim tækjum sem ríkisvaldið þar teldi sig hafa tiltæk og það er sú krafa sem ég vildi gera þá til hæstv. ríkisstjórnar og tel að hæstv. ríkisstjórn hafi reynt að beita sér fyrir með nokkrum árangri. Vextir hafa vissulega lækkað. Vextir hafa hins vegar ekki lækkað svo að það hafi skipt sköpum fyrir afkomu atvinnulífsins. Lækkunin hefur ekki skipt sköpum um það hvort atvinnulífið hefur risið úr öskustó og öllu sé hér breytt til betri vegar. Ég vona sannarlega að það sé í áttina og þessi breyting á vaxtastefnunni hafi áhrif til góðs en mér er alveg að fullu ljóst að það er ekki það sem skiptir endanlega sköpum þó það hafi vonandi einhver áhrif. Og því miður eru vextirnir enn háir hér í bankakerfinu sem eru kannski 10, 12, 15%, ég veit ekki hvað, misjafnir af því að vextirnir eru nú þannig reiknaðir að bankakerfið hefur ýmiss konar möguleika á því að velja vaxtastigið og segja lántakendum það hvað þeir eigi að borga í vexti. Þó þeir auglýsi einhverja lágmarksvexti, þá eru vextirnir sem síðan koma út þegar búið er að reikna skuldabréfaafborgunina yfirleitt þeir hæstu sem hægt er að koma þeim í. Það sem skiptir máli eru 10, 12, 15% vextir í lítilli sem engri verðbólgu, háir raunvextir, auðvitað allt of háir raunvextir og enn þá hærri hér heldur en í löndunum í kringum okkur.
    En það var aðeins þetta, hæstv. forseti, sem mig langaði að beina til hæstv. forsrh. að fullyrðingin um það að stjórnarandstaðan hefði alltaf krafist eða haft í huga einhvers konar öðruvísi aðgerðir er auðvitað röng fullyrðing og a.m.k. hef ég áður sett það fram í þessum ræðustól að það væri auðvitað Seðlabankinn og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um ríkisskuldabréfavexti sem ætti að skipta máli. Enda hefur það væntanlega ekki verið svo morguninn þegar hæstv. fjmrh. kom í ráðuneyti sitt, að þá hafi tölvuskjáirnir sýnt honum það að vextirnir hafi lækkað um nóttina, það hafi gerst eitthvað í ráðuneytinu frá því að hann fór úr því kvöldið áður og vextirnir væru einhverjir allt aðrir þegar hann kom um morguninn. Nei, það var auðvitað ákvörðun ríkisstjórnarinnar að beita þeim ráðum og þeim brögðum sem stjórnvöld höfðu tiltæk til þess að knýja niður vextina sem þarna höfðu áhrif.