Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 15:24:39 (2142)


[15:24]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirra orða sem hv. þm. lét falla varðandi vaxtamálin þá hefur það margoft komi fram, bæði í viðtölum í útvarpi og úr þessum ræðustól frá ýmsum talsmönnum Framsfl., að þeir hafa lagt áherslu á það að beitt verði því sem kallað er handafli í vöxtunum og þeir hafa tilgreint jafnvel á stundum að beitt yrði ákvæðum Seðlabanka til að þvinga bankana til þess að lækka vexti hjá sér. Meginmáli skipti auðvitað að forsendur væru fyrir hendi til aðgerða af því tagi sem gripið var til fyrir rúmum mánuði síðan næði fram að ganga. Það var reynd svipuð aðgerð á vordögum 1991, á lokamánuðum síðustu hæstv. ríkisstjórnar. Það dæmi gekk ekki upp. Þá var markmiðið ekki hærra en það að vextir fara niður í 6,5% og spariskírteini voru skráð á það. Þau voru ekki keypt. Það hrúguðust upp skuldir í Seðlabankanum, spariskírteini voru ekki keypt og á verðbréfaþingi voru vextir á þessum tíma skráðir á 8%, en ráðherrarnir töldu sér trú um að vaxtastigið væri 6,5% sem auðvitað er rangt. Nú hefur aðgerðin hins vegar heppnast. Hún heppnaðist vegna þess að það er stöðugleiki, það er friður á vinnumarkaði, verðbólgan er lág og það sem mestu skiptir, viðskiptahallinn er hagfelldari en áður þannig að við erum ekki að safna erlendum skuldum. Þess vegna hafa forsendurnar gengið upp og það var auðvitað meginatriðið að nýta markaðsstöðuna til að fylgja þeim breytingum og þeirri þróun eftir.