Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 15:28:29 (2144)


[15:28]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í 3. lið brtt. frá meiri hluta fjárln. við fjáraukalagafrv. er lagt til að komi nýr liður undir Byggðastofnun: Stofnkostnaður 20 millj. Þessi liður á sér nokkuð sérstæða sögu og í nál. frá meiri hluta fjárln. segir um þennan lið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt lánsfjárlögum 1993 er heimilt að veita 20 millj. kr. víkjandi lán til að mæta framlögum á afskriftareikning vegna lánafyrirgreiðslu stofnunarinnar til atvinnuuppbyggingar á þeim svæðum sem hafa orðið fyrir mestum samdrætti í sauðfjárframleiðslu. Lánin eru veitt í samræmi við ákvæði í viðauka II við búvörusamninginn frá 11. mars 1991. Lagt er til að þessu 20 millj. kr. víkjandi láni verði breytt í fjárveitingu sem verði greidd út eftir því sem útlán Byggðastofnunar falla til.``
    Aðdragandinn að þessu máli er sá að í búvörusamningi, sem gerður var í mars 1991, er ákvæði um það að á næstu árum skuli Byggðastofnun fá sérstaklega 100 millj. kr. árlega í því skyni sem kemur fram í athugasemdum meiri hluta fjárln. Tillaga um það var hins vegar felld við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993, þannig að ekki var þar staðið við þetta. Hins vegar kom svo þetta furðulega ákvæði í lánsfjárlögum, að veita 20 millj. kr. víkjandi lán til Byggðastofnunar, sem átti að vera til ábyrgðar fyrir töpum vegna útlána í þessu skyni. Fannst flestum það nokkuð furðuleg ráðstöfun að fara að veita þannig sérstaka ábyrgð á einhverju einu láni fyrir ríkisstofnun sem hvort sem er er með ríkisábyrgð á öllum sínum lánum. En nú hefur það líka orðið niðurstaðan að hverfa frá þessum vinnubrögðum og hér er komin tillaga um að það komi 20 millj. kr. fjárveiting.
    Mér finnst ástæða til þess að draga fram nokkrar spurningar í þessu sambandi og vildi gjarnan fá að vita hvort fjárln. hefði fengið upplýsingar um það hvort búið væri að veita 100 millj. kr. í þessu skyni, til þeirra svæða sem verst urðu úti vegna samdráttar í sauðfjárframleiðslu. Reyndar vildi ég gjarnan fá upplýsingar um það frá hæstv. forsrh., sem var hér fyrir stundu. --- Mig langaði að bera fram spurningar til hæstv. forsrh. vegna þess að hér var fyrir skömmu á dagskrá skýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 1992. Umræðu um hana varð að fresta af eðlilegum ástæðum þá, en svo hefur hún ekki komið á dagskrá síðan og ég vildi gjarnan spyrja hæstv. forsrh. hvort hún verði þá ekki á dagskrá alveg á næstu dögum.
    En sérstaklega vildi ég þó bera fram aðra spurningu og hún er sú hvort ekki verði alveg á næstunni lögð fram á Alþingi þáltill. um byggðaáætlun. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun þá ber hæstv. forsrh. að leggja slíka áætlun fram og hefði þá átt að gera það í fyrsta skipti á þinginu 1991--1992. Þá var skammur tími liðinn frá því að þetta ákvæði var sett í lög svo það fengust þau svör að ekki unnist nægur tími til að undirbúa málið. Þessi byggðaáætlun var ekki heldur lögð fram á þinginu 1992--1993 og sömu ástæðu borið við. En nú er komið fram undir jól á hinu þriðja þingi. Það er vitað að Byggðastofnun skilaði frá sér tillögu um slíka byggðaáætlun fyrr á þessu ári, þannig að hún er búin að liggja alllengi í forsrn. Vildi ég af því tilefni óska eftir því að hæstv. forsrh. skýrði hér frá því hvort ekki sé að vænta þessarar tillögu um byggðaáætlun nú alveg á næstunni og hvað valdi þeim drætti, að hún hefur ekki þegar verið lögð fram, þó að liðið sé á um þriðja mánuð frá þingsetningu.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill leyfa sér að upplýsa að eins og kunnugt er þá var skýrsla Byggðastofnunar hér á dagskrá fyrir nokkru síðan en vegna veikinda hæstv. forsrh. varð að fresta þeirri umræðu og ekkert mun vera því til fyrirstöðu að sú skýrsla komi á dagskrá mjög fljótlega. Umrædd þáltill. mun vera í vinnslu hjá ríkisstjórninni.)
    Já, hæstv. forsrh. mun þá væntanlega skýra hér frá því af hverju dráttur er á að þessi áætlun hefur ekki þegar verið lögð fram, því eins og ég sagði áður, þá afgreiddi stjórn Byggðastofnunar hana frá sér fyrr á þessu ári.
    En það eru fleiri spurningar sem vakna í þessu sambandi og þá m.a. í sambandi við þann lið sem hér er til umræðu, um fjárveitingu til Byggðastofnunar. Við athugun allshn. á fjárlagafrv. fyrir næsta ár komu á fund allshn. formaður og forstjóri Byggðastofnunar og voru þá spurðir um starfsemi stofnunarinnar og stöðu mála. Ég ætla ekki nú að fara að ræða fjárveitingar næsta árs, það verður gert þegar fjárlagafrv. kemur aftur til umræðu, en vil hins vegar víkja að því að það kom fram í máli a.m.k. formanns að sú reglugerð sem sett var fyrir Byggðastofnun fyrir skömmu síðan bindi mjög hendur stofnunarinnar til þess að styðja við uppbyggingu atvinnulífs þar sem samkvæmt henni væri ekki lengur heimilt að leggja fram áhættufjármagn. Það væri mjög slæmt því staða margra fyrirtækja væri þannig að það væri ekki aukið lánsfé sem þau þyrftu á að halda heldur eigið fé til þess að styrkja stöðu þeirra. Við vitum það, sem þekkjum til slíks atvinnurekstrar, að tiltölulega lágar upphæðir af eigin fjármagni geta skipta sköpum fyrir rekstrarmöguleika ef skilyrði að öðru leyti eru viðunandi.
    Í síðustu viku var erindi frá Byggðastofnun mjög til umræðu í fréttum, þegar skýrt var frá að beiðni frá henni hefði borist til ríkisstjórnarinnar um 300 millj. kr. til þess að leggja í atvinnurekstur á Vestfjörðum. Það efast sjálfsagt enginn um það að atvinnurekstur á Vestfjörðum þarf á slíku að halda um þessar mundir, en við vitum líka að það er víðar sem atvinnurekstur stendur höllum fæti og því gæti verið þörf á að huga að fleiru. En mig langar að spyrja að því hvort fjárln. hafi ekkert rætt þetta mál, hvort þetta mál hafi ekkert komið til umræðu innan nefndarinnar. Nú mun einn af þingmönnum Vestfjarða eiga sæti í fjárln. og virtist þá vera að það væri eðlilegur vettvangur að þar yrði rætt og komið fram með tillögur um fjármagn sem þyrfti strax, því eftir ummælum frá Byggðastofnun þá er þarna um bráðan vanda að ræða sem ekki þolir langa skoðun og þá væntanlega ekki langan drátt á afgreiðslu. Væntanlega verða þessi mál þá skoðuð milli 2. og 3. umr. þessa máls eða hvort ástæða sé til að koma með fjármagn inn í þau af þessum ástæðum.
    En eins og ég sagði þá stendur atvinnulíf því miður miklu víðar höllum fæti og í fleiri atvinnugreinum heldur en í sjávarútvegi, það á einnig við um landbúnaðinn. Því veldur að sjálfsögðu samdráttur í tekjum bænda, gífurlegur samdráttur og erfiðar markaðsaðstæður. Að sjálfsögðu hefur það áhrif á afkomu bænda og möguleika til að reka sinn búskap, sú breyting sem hefur orðið á fjárlögum og er að verða, þar sem það kemur fram í skýringum við fjárlagafrv. að fjármagn úr ríkissjóði til landbrn. lækkar frá ríkisreikningi 1992 til fjárlagafrv. fyrir árið 1994 um tæpa 4 milljarða kr. Að sjálfsögðu er augljóst að það hlýtur að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu þeirrar stéttar og reyndar miklu fleiri, sem veita landbúnaðinum margs konar þjónustustörf.
    Það er líka þannig að til Stofnlánadeildar landbúnaðarins hafa komið óskir frá heilum búgreinum um að þar verði hugað að hvort eitthvað sé hægt að létta þeirra þunga róður nú vegna versnandi stöðu. Og það er óskiljanlegt að hæstv. landbrh. skuli ekki hafa, að því er virðist, áhyggjur af þessum alvarlegu horfum. Það sem við höfum helst orðið vör við frá hans hálfu síðustu vikur og mánuði eru einhverjar sviðsetningar um bardaga innan ríkisstjórnarinnar þar sem ráðherrar metast um það hver sé mesti sigurvegarinn og hver tapi mestu. Og þess er náttúrlega ekki að vænta að það verði mikið gert í málefnum atvinnuvegar á meðan mest er hugsað um slík vinnubrögð. En óneitanlega finnst manni að þetta séu einhverjir vindmylluriddarar sem eru þarna að setja á svið sýningar til þess að geta svo fagnað sigri.
    En það er alvarlegt mál að staðan skuli vera þannig og ekkert skuli, eins og ég sagði, vera aðhafst í málefnum atvinnuvegarins. Fyrir skömmu síðan kom það fram hjá hæstv. landbrh. að á næstunni yrði að koma fram frv. um breytingar á búvörulögum, en það lægi ekki ljóst fyrir hvert efni þess yrði, hvort það yrði á þann veg að raunverulegt forræði landbúnaðarmála væri af landbrh. tekið eða ekki. Með tilliti til þess, ef staðan er svo erfið og veik hjá hæstv. ráðherra, þá er það næsta furðulegt að hann skuli ekki nota tækifærið meðan hann situr þó í ráðherrastólnum og reyna að búa eitthvað í haginn fyrir eða koma í veg fyrir að þarna verði óbætanlegt slys í þessum undirstöðuatvinnuvegi. En það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og staðan er svona fyrir atvinnulíf úti um land þá skuli það gerast, sem rætt var hér á fundi í fyrradag, að þessir aðilar séu gerðir að sérstökum skattstofni í sambandi við flutninga og ferðamál.
    Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu margt sem ástæða væri til að ræða í sambandi við þetta fjáraukalagafrv., þar sem það snertir öll ráðuneyti á einhvern hátt og þar af leiðandi flest svið þjóðfélagsins. En það hefur nú þegar verið gert ítarlega og verður gert af öðrum á eftir, svo ég ætla ekki að þessu sinni að hafa fleiri orð um þetta.