Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 15:48:01 (2145)


[15:48]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér dettur nú í hug þegar ég hlusta á þessa umræðu að þessar vikurnar er verið að sýna þætti í ríkissjónvarpinu sem heita ,,Já, ráðherra``, þar sem ráðherra kerfismála í Bretlandi er að gíma við ráðuneytisbáknið. Og manni dettur náttúrlega í hug þegar borin er saman útkoman úr fjárlögunum ár eftir ár og svo sú stefna og áætlanir sem ríkisstjórnin hefur gert, að það séu einhver slík tröll sem verið er að glíma við. En auðvitað er leikurinn ekki jafn og stefnan sem gengið er út frá vægast sagt misheppnuð.
    Almennt má segja að með þessu frv. og þeim brtt. sem nú hafa verið lagðar fram þá sé útkoma ríkisfjármála ársins 1993 að skýrast eftir því sem hægt er, en enn lifir mánuður af þessu ári og það vantar ýmislegt inn í dæmið. En hvað varðar næsta ár, þá er það mikilli og dimmri þoku hulið. Það er búið að leggja fram skattafrumvarp, en hinn mikli lagabálkur um ráðstafanir í ríkisfjármálum er ekki kominn fram. Og ef svo fer fram sem horfir og það frv. og meðferð skattafrv. verður eitthvað í líkingu við það sem

verið hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar, þá má hamingjan vita hver útkoman verður. Fyrir síðustu jól upplifðum við það að skattafrv. var gjörbreytt á síðustu dögum fyrir jól. Og það er alveg augljóst að það eru miklar umræður komnar í gang í þjóðfélaginu og ákveðnar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustan mjög uggandi um sinn hag og ekki að vita nema breytingar kunni að verða gerðar þar á. Samt sem áður er ljóst að það ár sem brátt fer í hönd mun verða erfitt og reynsla þess árs og meðferð ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálunum lofar ekki góðu. En við umræðu um þetta frv. er auðvitað tækifæri til þess að skoða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í heild, auk þess sem hér eru til umræðu ýmsar aðgerðir sem verið er að grípa til í ráðuneytunum, ýmislegt sem vanreiknað hefur verið er hér bætt. Jafnframt kemur í ljós hve illa var staðið að frv. til fjárlaga fyrir árið 1993. Þar er skemmst frá að segja, eins og margrakið hefur verið í umræðum í vetur, að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur gjörsamlega mistekist.
    Ríkisstjórnin ætlaði sér að ná ríkishallanum niður á tveimur árum, en nú blasir það við okkur að hallinn á þessu ári stefnir í tæpa 14 milljarða kr. og frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 gerir ráð fyrir tæpum 10 milljörðum. Ef reynsla þess árs verður eitthvað í líkingu við það ár sem nú er að ljúka þá má búast við að hallinn fari upp í allt að 20 milljarða. Þetta eru vægast sagt ógnvænlegar tölur í ljósi þess að það stefnir í enn meiri samdrátt í tekjum ríkisins, það stefnir í aflasamdrátt, sem vonandi verður þó ekki eins mikill og reiknað er með. Og enn blasa við okkur þær staðreyndir að frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 er álíka vitlaust og illa frá gengið og frv. var fyrir árið 1993. Forsendurnar eru einfaldlega ekki réttar, menn horfast ekki í augu við staðreyndirnar, menn reikna sér alls konar hluti sem augljóslega munu ekki ganga fram.
    Ef við lítum aðeins á þessa helstu þætti þá er þar fyrst að nefna áætlanir um ríkissjóðshallann, útkomuna úr dæminu sem, eins og ég nefndi hér áðan, hefur sýnt sig að er kolvitlaus ár eftir ár. Ég veit ekki hvort hægt er að tala um einhverja reglu í þessu, en hallinn virðist nokkurn veginn tvöfaldast frá því sem ráð er fyrir gert. Og það vekur þá spurningu til fjmrh. hvernig hann skýrir þennan halla. Honum er gjarnt að tala um útgjaldahalla, þ.e. aukin útgjöld sem menn taka ákvarðanir um, en síðan kemur það sem hann kallar kerfislægan halla og er þá um að ræða ýmiss konar innbyggða aukningu á útgjöldum og er þá m.a. átt við tryggingakerfið og fleiri þætti ríkisfjármálanna, þar sem lög og samningar gera ráð fyrir eða fela í sér ákveðinn vöxt útgjalda. Þarna hefur ríkisstjórninni algjörlega mistekist að taka á málum og hennar aðferðir og aðgerðir í þeim efnum hafa verið vægast sagt handahófskenndar, enda held ég í raun að það sé ekki hægt að ná ríkissjóðshallanum niður á svona stuttum tíma. Í stað þess hefði verið nær að gera áætlanir til lengri tíma og fara í þær strúktúrbreytingar sem verða að eiga sér stað, eigi að draga úr ríkisútgjöldum til langframa. Þar minni ég enn á það að vilji menn ná fram minni útgjöldum í heilbrigðismálum, þá þýðir ekkert annað en að breyta um áherslur og gera það sem ég hef kallað að bæta heilsu þjóðarinnar. Það kallar á nokkurn kostnað í byrjun, en þar er um að ræða aðgerðir sem munu skila sér í lækkuðum útgjöldum mjög fljótt.
    Annað dæmi um stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur að miklu leyti mistekist eru áætlanir um þjónustugjöld og sértekjur, sérstaklega sértekjur stofnana. Þar eru dæmin mýmörg, að sértekjurnar hafa ekki skilað sér eins og áætlað var. Margt af því var fyrirsjáanlegt og var margbent á það í umræðum, bæði í fyrra og hittiðfyrra, að þessar áætlanir stæðust engan veginn, en það var haldið í tölurnar. Og það eru alveg stórbrotin vinnubrögð sem hér eiga sér stað varðandi Tækniskóla Íslands. Þriðja árið í röð er gert ráð fyrir því að Tækniskóli Íslands afli sér sértekna án þess að hann hafi nokkrar heimildir til þess. Það var lagt fram frv. í fyrra sem dagaði uppi í menntmn., sem átti að veita Tækniskólanum heimildir til að afla sér sértekna, en, eins og ég segi, það dagaði uppi, þannig að Tækniskólinn gat ekki aflað sér þessara sértekna og í þessu frv. til fjáraukalaga fær hann bætur fyrir það. En þrátt fyrir það er í frv. fyrir árið 1994 enn gert ráð fyrir því að Tækniskólinn afli sér sértekna, en það er ekkert frv. komið fram. Ég er nú svo sem ekki að harma það, því ég er algjörlega mótfallin þessum skólagjöldum. En það er jafnfáránlegt að í frv. til fjárlaga skuli vera gert ráð fyrir innheimtu sem engin lagastoð er fyrir. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Það eru eflaust mýmörg dæmi um slíka hluti.
    Ég veit ekki hvort ég á mikið að vera að tala um einkavæðinguna, sem er auðvitað enn eitt dæmið um hina misheppnuðu stefnu ríkisstjórnarinnar. Í hvítbókinni, Velferð á varanlegum grunni, eru margar síður um einkavæðinguna og hvað eigi að einkavæða. En þar er auðvitað skemmst frá að segja að sem betur fer hafa þau áform meira og minna runnið út í sandinn. En það er sama sagan, það hefur verið gert ráð fyrir miklum tekjum vegna sölu á ríkisfyrirtækjum ár eftir ár, þó þær skili sér engan veginn. Og eins og við höfum rætt hér áður var reiknað með 1.500 millj. kr. í tekjur fyrir sölu ríkiseigna á þessu ári, en það stefnir í að 100 millj. skili sér. ( Gripið fram í: 6,67%.) Já, 6,67% skil á þeim tekjulið. Þetta eru auðvitað dæmi um það hvers konar vinnubrögð og hvers konar stefna er hér á ferðinni. Sannleikurinn er sá að þessi ríkisstjórn, sem þóttist ætla að rjúfa kyrrstöðu og ég veit ekki hvað ekki átti að gera, hún er lent í nákvæmlega sama horfinu og aðrar ríkisstjórnir, það hjakkar allt í sama farinu. Þetta eru orðið vægast sagt mjög hefðbundin vinnubrögð hjá ríkisstjórninni, þeir bara gefast upp við allar breytingar. Þeir gefast upp við stefnu sína, sem er að sumu leyti þakkarvert, en það er verið að stefna ríkisfjármálunum í gífurlegt óefni. Auðvitað ætti þessi ríkisstjórn að vera farin frá fyrir lifandis löngu. En menn hafa tekið með misjöfnum hætti á fjármálum ríkisins á undanförnum árum, þó þau séu með svipuðu sniði og hefðbundnu sniði ár eftir ár og ríkisstjórnin er sem sagt lent í nákvæmlega sama farinu. Og hún er búin að viðurkenna það á þessu ári að hún hefur gefist upp á öllum sparnaðaráformum.

    Enn einn þáttur sem kemur inn í þessa sorgarsögu eru kjarasamningar. Ég er ekki að harma það að gerðir hafi verið kjarasamningar heldur að það hafi gerst enn einu sinni að gerðir séu samningar þar sem öllu er ávísað á ríkissjóð eða þá hitt að ríkisstjórnin neitaði algjörlega að horfast í augu við það að auðvitað yrðu gerðir kjarasamningar og auðvitað þyrfti að semja við ríkisstarfsmenn. Það er að finna í þessu frv. nokkra liði þar sem einmitt er verið að greiða laun vegna kjarasamninga og þetta er auðvitað alveg fráleitt, að setja það inn í fjárlög ár eftir ár að það verði engar launabreytingar. Þetta er svo út í hött, miðað við reynslu undanfarinna áratuga, að það tekur engu tali.
    Kjarasamningar skapa auðvitað stöðugleika á vinnumarkaðinum, en það getur ekki gengið til lengdar að allar launabætur eða kjarabætur séu teknar úr ríkissjóði. Það er dæmi sem ekki gengur upp og bendir okkur á að það er atvinnulífið sem þarf að styrkja. En það er alveg dæmigert að þessi ríkisstjórn hefur enga stefnu í atvinnumálum, ekki nokkra. Það kannski lýsti sér best í því hversu lengi hún dró það að grípa til aðgerða í vaxtamálum og það var náttúrlega ekki fyrr en hún var barin til þess. Hún var einfaldlega barin til þess að grípa til aðgerða, að eitthvað gerðist. Þetta er stjórnarstefna sem ekki gengur til lengdar og er þegar búin að valda svo miklum skaða að það mun taka mörg ár að bæta fyrir hann. ( Gripið fram í: Hvar eru ráðherrarnir?) --- Fjmrh. situr hér til hliðar. --- Þegar ég tala um skaða þá er ég ekki síst að hugsa um það sem gerst hefur í menntamálum og heilbrigðismálum, þar sem gríðarlegur niðurskurður hefur átt sér stað. Það tekur auðvitað tíma að vinna upp niðurskurð á kennslu og það kemur niður á þeim hópum ungmenna sem í honum lenda. Það er alveg ljóst. Það tekur tíma að vinna það upp, þó ég voni að það sé ekki um óbætanlegan skaða að ræða. Það tengist þessum vondu vinnubrögðum hve margar af þeim áætlunum sem er að finna í fjárlögum eru ónákvæmar. Og þó að það sé margbent á það í umræðum að áætlanir standist ekki, það er augljóst, það sér hver maður að áætlanirnar standast ekki, þá er ekkert á það hlustað og útkoman er sú að undir lok ársins verður að setja fram aukafjárlög vegna þess að það er búið að eyða um efni fram eða taka ákvarðanir sem kosta aukafjárveitingar.
    Þá get ég ekki annað, virðulegi forseti, en minnt á það enn einu sinni, að þessi vinnubrögð, sem ég veit reyndar ekki hvað hafa tíðkast lengi, eru einfaldlega stjórnarskrárbrot. Stjórnarskráin er þverbrotin ár eftir ár eftir ár og þar vísa ég til 41. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir:
    ,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``
    Það er alveg ljóst að margar af þeim upphæðum sem hér er verið að biðja um leyfi fyrir hefur þegar verið úthlutað. Það er búið að eyða hluta af þessum peningum og það er ekki heimilt samkvæmt íslensku stjórnarskránni. Nú veit ég að þessi ríkisstjórn er ekkert sérstaklega sek í þeim efnum, þetta eru vinnubrögð sem tíðkast hafa, að ég hygg, óralengi, en þau eru jafnvond fyrir því og sýna það virðingarleysi við lögin sem hér tíðkast.
    Þegar ég var að renna í gegnum fjáraukalögin og ýmsa þætti sem þar er verið að taka ákvarðanir um, þá vaknar sú spurning, þó að margt gott sé í þeim að finna: Af hverju geyma menn þetta ekki til fjárlaganna? Af hverju er þetta ekki sett inn í fjárlögin? Ef menn vilja halda sig innan rammans, þá skiptir oft ekki sköpum þó það líði einhverjir tveir, þrír mánuðir þegar um aukafjárveitingar eða ákvarðanir ríkisstjórnarinnar er að ræða. Það er miklu eðlilegra að miða þær við fjárlagaárið, þó auðvitað þurfi stundum að grípa til aukaútláta. En þá á að kalla Alþingi saman, eins og við ræddum hér varðandi kjarasamningana, í stað þess að setja bráðbirgðalög, þá átti að kalla Alþingi saman og fá heimild fyrir þeim fjárveitingum sem þar voru til umræðu, sem þar var samið um. Þetta eru vinnubrögð sem þurfa að breytast, í stað þess að ríkisstjórnir fari með það vald sem lögum samkvæmt er í höndum Alþingis, fjárveitingavaldið. Það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið á sínum höndum, ekki ráðherrar eða ríkisstjórn.
    Varðandi þessi bráðabirgðalög sem ég var að nefna og þær fjárveitingar sem þar var samið um, þá væri fróðlegt að fá það upplýst hjá hæstv. fjmrh. hversu miklu er búið að eyða af milljarðinum margnefnda, hversu miklu hefur þegar verið eytt. Í fjáraukalögunum er einmitt að finna margar af þeim aðgerðum sem á að grípa til til að auka atvinnu, ýmis viðhalds- og viðgerðarverkefni ráðuneytanna, og það hefur ekki verið upplýst, mér vitanlega, hversu mikið er búið að framkvæma, hversu miklum eða háum upphæðum hefur þegar verið eytt.
    Ég ætla ekki að fara út í deilur fjmrn. og Ríkisendurskoðunar um bókhaldsmálin, en það er auðvitað spurning varðandi Landsbankann og þá upphæð sem ríkið ætlar að styrkja eiginfjárstöðu hans um, hvort sú upphæð þurfi ekki að koma hér einhvers staðar fram. En eins og hæstv. fjmrh. upplýsti í umræðum á þriðjudaginn þá verður hún auðvitað í ríkisreikningi þegar þar að kemur.
    Ég ætla þá að víkja að einstökum atriðum þessa frv. áður en ég mæli fyrir þeirri brtt. sem ég flyt við þetta mál. Það eru mjög mörg atriði sem vert er að velta fyrir sér í þessu fjáraukalagafrv. og ýmsar spurningar sem vakna. Þar er þá fyrst að nefna að hér er vikið að forsrn. --- nú er hæstv. forsrh. víðs fjarri, en kannski getur hæstv. fjmrh. upplýst það sem hér er á ferð og það er varðandi ráðherrabústaðinn. Hér er beðið um 25 millj. kr. aukafjárveitingu til ráðherrabústaðarins og mín spurning er: Er þetta hluti af milljarðinum sem þarna er á ferð? Ég held ég muni það rétt að í fjárlögunum fyrir næsta ár sé gert ráð fyrir 5 millj. í viðgerðir á ráðherrabústaðnum. Þýða þessar upphæðir að viðgerðum þar verði þar með lokið eða er þetta margra ára verkefni sem þarna er á ferð? Ef svo er þá hefði mér fundist eðlilegra að þessi upphæð hefði flust yfir á næsta ár. Hvað liggur svo á að veita 25 millj. í viðgerðir á ráðherrabústaðnum núna? En kannski getur hæstv. fjmrh. skýrt það hvað þarna er á ferð.

    Hér kemur það fram að Hæstiréttur Íslands fær 13 millj. kr. í sinn hlut og eftir því sem ég best veit þá eru þar á ferð launagreiðslur til hæstaréttardómara vegna yfirvinnureikninga sem þeir hafa sent til ríkisins og fengið greidda. Þetta tengist umræðum um launamál í landinu og í hvílíkt óefni er komið í þeim málum þegar ríkið er ýmist farið að borga svona yfirvinnureikninga eða það fær á sig dóma. Nú síðast kom úrskurður kjaranefndar um laun presta og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hefur það verið reiknað út í fjmrn. hvað sá úrskurður kostar? Hversu háar fjárhæðir eru þar á ferð?
    Ég minni á að það hafa verið dómsmál í gangi gegn ríkinu, BHMR-dómurinn féll á sínum tíma og kostaði ríkið 300 millj. kr. Það er dómsmál á ferð vegna bráðabirgðalaganna sem sett voru sl. sumar. Það er að vísu ekki hægt að segja til um það hver niðurstaða verður í því máli en ef hann fellur prestunum í vil þá verður þar um gífurlegan kostnað að ræða fyrir ríkisvaldið. Þetta bendir okkur á það enn einu sinni að það verður að taka launamál ríkisins til endurskoðunar. Það nær ekki nokkurri átt að halda svona áfram. Og ég ítreka spurningu mína til hæstv. fjmrh.: Hvað ætlar hann að gera í þeim málum? Er ekki löngu tímabært að hefja uppstokkun á launamálum ríkisins? Þetta nær ekki nokkurri átt að fá svo sífellt á sig bakreikninga. Og ég vil vekja athygli á því að með þessum úrskurði kjaranefndar er hluti presta að fara fram úr þingmönnum í launakjörum og er að nú umhugsunarvert fyrir þingmenn þó að ég telji að prestar séu ekki of sælir af sínu. En það er auðvitað orðið ákaflega umhugsunarvert hvernig launakjörum þingmanna er háttað.
    Eins og ég hef nefnt þá er að finna í frv. ýmsa liði einstakra stofnana, sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti, um viðhald og sums staðar í greinargerðinni kemur fram að þetta sé hluti af milljarðinum margnefnda en annars staðar er þess ekki getið og ég vil spyrja m.a. vegna Stofnunar Árna Magnússonar. Það kemur hér fram að sú framkvæmd, viðgerðir á húsnæði Stofnunar Árna Magnússonar, fer fram á vegum Háskóla Íslands og eins og ég skil þetta þá leggur háskólinn fram fé að hluta til en síðan koma væntanlega 15 millj. til viðbótar frá ríkinu. Og ég spyr hæstv. fjmrh., er þetta hluti af milljarðinum og hvað er það sem þarna er á ferð? Ég vil ítreka að það þarf að passa mjög vel upp á að húsnæði Árnastofnunar sé í góðu lagi því að þar eru dýrgripir miklir sem ekki mega verða fyrir neinum skakkaföllum. Og eins og kom fram í umræðu sl. vor um safnamál hér í landinu er staðan sem betur fer sú að Stofnun Árna Magnússonar er eina safnið á landinu sem býr við viðunandi varnir, þ.e. brunavarnir og slíkt og við megum aldrei gleyma því að þarna eru geymdir alveg ómetanlegir dýrgripir og ég fagna því að það skuli vera veitt fé til viðhalds Árnagarðs, þ.e. til Stofnunar Árna Magnússonar sem er til húsa í Árnagarði, en mín spurning er sem sagt: Er þetta hluti af milljarðinum?
    Ég vék hér áðan að Tækniskóla Íslands en hér er að finna leiðréttingu vegna þeirra sértekna sem honum er ætlað að afla sér en hefur enga lagalega heimild til. Og það er samt sem áður eins og ég nefndi áðan að finna í frv. fyrir 1994 áætlun um sértekjur án þess að nokkur lagaheimild sé til staðar.
    Kennaraháskóli Íslands --- nú vill svo til að menntmrh. er ekki hér staddur og ég ætla ekki að fara að kalla á hann, enda er þetta ekki stórmál hér sem hann varðar nema Rannsóknarsjóðurinn. En hér er verið að veita 18 millj. kr. til Varmalands og mér finnst í raun og veru að þegar við erum að fara í gegnum aukafjárlög og það er einmitt verið að biðja hér um framlög til einstakra framkvæmda, þá ættu viðkomandi ráðherrar að vera hér til staðar til að skýra hvað er á ferð. Varðandi Varmaland þá er verið að afhenda Kennaraháskóla Íslands þann gamla húsmæðraskóla og þar á að verða eins konar kennslusetur, setur fyrir námskeið, ráðstefnur og fleira slíkt á vegum Kennaraháskólans og þarna þurfa greinilega að eiga sér stað viðgerðir og breytingar væntanlega, en ég vil í því sambandi vekja athygli á því að á Varmalandi er ákveðið vandamál, þ.e. eigur gamla húsmæðraskólans, og það hefur enn ekki fengist nein lausn á því hvað eigi að gera við eigur gömlu kvennaskólanna og húsmæðraskólanna og er mjög brýnt að það verði tekið á því máli. Þarna eru ýmiss konar dýrgripir á ferð, málverk, borðsilfur, dúkar, hannyrðir og ýmislegt sem er mikils virði og tilheyrir okkar heimilis- og kvennamenningu og er ótækt að ekki sé tekið á þeim málum.
    Ég vil aðeins minnast hér á Rannsóknarsjóðinn en hann kemur inn á einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar því að eins og þingmenn eflaust minnast átti hluti þeirra tekna sem reiknað var með vegna einkavæðingar að renna til rannsókna og vísinda en þar sem sáralítið hefur skilað sér af þeim verða menn að grípa til þess ráðs að biðja um aukafjárveitingar til þess að einhverjar rannsóknir eigi nú stað. Þetta eru nú vinnubrögðin. Þetta eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Á þessu eiga rannsóknir og vísindi í landinu að byggjast og þetta eru auðvitað algerlega fráleit vinnubrögð.
    Hér er líka undir menntmrn. að finna lið sem heitir Almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður upp á 74 millj. kr. Ég hygg að þarna sé líka á ferð hluti af milljarðinum margnefnda en vildi nú fá það skýrt hjá hæstv. fjmrh. hvort svo sé en þessi liður á að deilast niður á mjög marga skóla í landinu og ber auðvitað að fagna því að þeir fái viðhaldsfé og fjármagn til ýmiss konar stofnkostnaðar.
    Ég vil líka fagna sérstaklega þeim lið sem hér heitir fullorðinsfræðsla þar sem er veitt aukalega 10 millj. til kennslu nýbúa og það veitir svo sannarlega ekki af að taka á í þeim málum. Reynslan ætti að kenna okkur það og það sem gerst hefur hjá öðrum þjóðum að því fyrr sem við tökum á þeim vandamálum sem útlendingar sem hingað flytja þurfa að glíma við því betra. Þar með spörum við okkur vandamál í framtíðinni.
    Hér undir menntmrn. er líka minnt á mikið deilumál sem var á þingi í fyrra og snerti Menningarsjóð því að hér kemur fram að það sé búið að afhenda Listasafni Íslands húsið að Skálholtsstíg nr. 7, þ.e. gamla Landshöfðingjahúsið, og hér er beðið um 10 millj. kr. til þess, til viðhalds væntanlega án þess að það komi skýrt fram ef ég man rétt. Jú, það kemur hér fram að húsnæðið þarfnist verulegra endurbóta. Þarna er um mjög umdeilanlega ráðstöfun að ræða og ég ætla ekki að fara að rifja það upp hvernig staðið var að þessu máli öllu saman, en auðvitað þarf að halda húsinu við. Þetta er mjög merkilegt hús og fagurt í byggingarsögu bæjarins og ber að fagna því að veitt skuli fé til viðhalds en það breytir ekki því hvernig að málum var staðið.
    Þá ætla ég aðeins að víkja að utanrrn. og fyrst og fremst að þeim lið sem varðar þýðingar utanrrn. vegna EES-samninganna. Það kom hér fram fyrr í dag að sá kostnaður hefur orðið miklu, miklu meiri en reiknað var með og mér þætti fróðlegt að vita hvað þarna er um mörg störf að ræða og hversu langt þýðingarnar eru komnar. Er reiknað með því að þessi þýðingarmiðstöð þurfi að starfa áfram, að þetta verði með þessum hætti eða er reiknað með að þegar mesta skriðan er gengin um garð þá verði hún lögð niður? Hvernig verður þeim þýðingum háttað sem þurfa að eiga sér stað á hverju ári því að það munu náttúrlega áfram streyma tilskipanir frá EB? Nú er náttúrlega utanrrh. víðs fjarri og ég svo sem veit ekki hvort sanngjarnt er að beina þessum spurningum til hæstv. fjmrh. en mér finnst að það þurfi að koma fram í þessu samhengi hvað hér er á ferð.
    Í landbrn. er að finna afleiðingar kjarasamninganna. Þar er beðið um rúmlega 300 millj. kr. vegna niðurgreiðslna sem samið var um á mjólkurvörum og kjötvörum og það vaknar sú spurning í mínum huga hvað gerist þegar þessum niðurgreiðslum lýkur um áramótin, hvað gerist þá varðandi verðlag á mjólkurvörum og kjötvörum. Ég held að það sé alveg ljóst að íslenskir bændur geta ekki tekið sjálfir á sig hækkanir á kjötverði. Það er alveg ljóst að þeir taka þær ekki á sig. Og hvað gerist þegar þessum niðurgreiðslum lýkur? Verður ekki hækkun á mjólkurvörum og kjötvörum um leið og innflutt matvæli og hráefni, sem m.a. eru í samkeppni við íslenskar landbúnaðarvörur, lækka í verði vegna lækkunar virðisaukaskatts niður í 14%. Þetta þarf auðvitað allt að skoða í samhengi og tengist því frv. sem er til umfjöllunar í efh.- og viðskn. um virðisaukaskattinn og fleiri skattamál.
    Það hefur verið nokkuð rætt hér um Hafrannsóknastofnun og þá sögu alla þar sem sala á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs átti að skila Hafrannsóknastofnun rúmlega 300 millj. kr. Síðan voru þær ekki seldar og nú þarf auðvitað að útvega stofnuninni þessar 300 millj. Þetta er enn eitt dæmið um þessi dæmalausu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Þessar heimildir voru ekki seldar og verða ekki seldar. En hvernig í ósköpunum á að vera hægt að stunda einhver vísindi hér í landinu og rannsóknir með þessum hætti þegar stofnanir eiga að treysta á einkavæðingu og sölu aflaheimilda og svo skilar sér ekkert af þessu.
    Varðandi dóms- og kirkjumálaráðuneytið kemst ég ekki hjá því að minnast hér aðeins á lið sem heitir húsnæði og búnaður dómstóla þar sem beðið er um 25 millj. kr. vegna húsnæðis Hæstaréttar og þeir peningar eiga væntanlega að fara í undirbúning að byggingu hins nýja hæstaréttarhúss. Það er hér á dagskrá í dag tillaga um staðsetningu hæstaréttarhússins þar sem skorað er á ríkisstjórnina að endurskoða þá staðsetningu að troða þessu húsi niður innan um Arnarhvol, Þjóðleikhúsið og Landsbókasafnið sem ég tel vera hið versta mál og ég held að þetta mál þarfnist nánari skoðunar. En ef ég man rétt þá eru ætlaðir verulegir fjármunir á næsta ári til 1. áfanga þessa húss.
    Síðan er undir dóms- og kirkjumálaráðuneytinu heldur dularfullur liður sem heitir Sýslumaðurinn í Reykjavík og er einmitt skólabókardæmi um stjórnarhætti sem tíðkast hér því að undir liðnum 411, Sýslumaðurinn í Reykjavík, segir á bls. 39, með leyfi forseta:
    ,,Sýnt þykir að útgjöld embættisins fari a.m.k. 15 millj. kr. umfram heimildir fjárlaga í ár. Skýrist það að hluta til af því að fjárþörf embættisins var vanmetin í áætlun ráðuneytisins við undirbúning fjárlaga. Í öðru lagi hafa ófyrirséð barnsburðar- og veikindaleyfi leitt til aukins launakostnaðar. Í þriðja lagi`` --- og ég vek sérstaka athygli á þessu --- ,,hefur verið ráðið í bæði tímabundin og föst störf sem ekki var veitt framlag til í fjárlögum. Þótt ljóst hafi verið hvert stefndi frá því snemma á árinu hefur hvorki ráðuneytið né embættið gripið til ráðstafana til að draga úr hallanum. Brýnt er því að ráðuneytið treysti betur áætlanagerð vegna embættisins og komi á skilvirkari fjármálastjórn áður en sameining við sýslumannsembættin í Kópavogi og Hafnarfirði fer fram á næsta ári.``
    Það er nú gaman að fá að vita hver það er sem skrifar þetta. Hver er það sem sendir dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tóninn með þessum hætti eða er þetta sjálfsgagnrýni ráðuneytisins? Það væri fróðlegt að fá það upplýst en þetta eru vægast sagt sérkennileg vinnubrögð. Menn sjá það fyrir að það þarf að ráða í störf. Það er ekki fjármagn til þess. Samt er ráðið í störfin og treyst á að það fáist aukafjárveiting. Hvernig halda menn að það sé hægt að draga saman í ríkiskerfinu með þessum hætti? Hvernig kemur þetta heim og saman miðað við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar? Hvaða störf eru hér á ferð? Hvað var þarna að gerast sem olli þessari útþenslu? Ég vildi gjarnan fá skýringar á því.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að fara hraðar yfir sögu en það er vægast sagt svo margt í þessu frv. sem vert er að ræða að það er varla hægt að komast hjá því að ræða einstaka liði. Ég get ekki annað en minnst á þann lið sem heyrir undir félmrn. sem kallaður er vinnumál en þar er að finna sérstakt 60 millj. kr. framlag til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni. Og þarna er enn einn liðurinn sem tengist milljarðinum. Þetta er sérstakt framlag, 60 millj. af heilum milljarði, til þess að bæta stöðu kvenna á landsbyggðinni. En eins og menn vita þá er atvinnuleysi um það bil helmingi meira í röðum kvenna en karla.

Það er um helmingi meira. Samt sem áður beinast sjónir manna fyrst og fremst að þeim verkefnum sem karlmenn vinna við hér á landi með hefðbundnum hætti og þó að konur gætu auðvitað sótt um ýmis störf þá eru hefðirnar sterkar og menn hefðu átt að beina sjónum að öðrum verkefnum sem koma konum til góða. Og það er ekki annað hægt en gagnrýna það hvernig staðið er að málum þó að ég fagni því auðvitað að það skuli einhverjum peningum vera varið til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni, á landsbyggðinni.
    Það er töluvert atvinnuleysi meðal kvenna hér á Reykjavíkursvæðinu og á Suðurnesjum og það þarf auðvitað að gefa þeim málum gaum. Það er ekki bara verkefni Reykjavíkurborgar svo að dæmi sé tekið að leysa þau mál þó að borgin þurfi auðvitað að koma þar inn í. Það er líka hlutverk ríkisins og það er nú einu sinni svo að samdráttur í undirstöðuatvinnugreinunum magnast í þjónustugreinum og það er í þjónustugreinunum þar sem atvinnuleysi er vaxandi og þar eru konur mjög fjölmennar. Það þarf að taka á þessum málum og þarna verður stefnubreyting og hugarfarsbylting að eiga sér stað.
    Þá víkur sögunni að heilbr.- og trmrn. og enn koma kjarasamningarnir við sögu og Atvinnuleysistryggingasjóður og hér er enn eitt dæmið um vanáætlun á útgjöldum. Á það var bent í umræðunum í fyrra að atvinnuleysi yrði meira en gert var ráð fyrir samkvæmt fjárlagafrv. og hér kemur í ljós að biðja þarf um hvorki meira né minna en 1.150 millj. til viðbótar til þess að standa undir atvinnuleysinu í landinu. Ég hef ekki borið þetta saman við tölurnar í frv. fyrir 1994 en menn verða að vera raunsæir í þessum efnum og í það minnsta að taka mark á spá Þjóðhagsstofnunar og reikna dæmið út frá því. Og ég spyr hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er það gert að miða tölurnar fyrir næsta ár við reynsluna á þessu ári og spá Þjóðhagsstofnunar?
    Það er líka mjög athyglisverður þessi liður sem heitir atvinnuleysisbætur opinberra starfsmanna þar sem er verið að biðja um 75 millj. til viðbótar og þessar tölur sýna það að atvinnuleysi í röðum opinberra starfsmanna hefur greinilega verið mjög vanáætlað. Ég beindi fyrir skömmu fyrirspurnum til fjmrn. um atvinnuleysi hjá opinberum starfsmönnum og biðlaun og mér þykja svörin sem ég fékk vera nokkuð athyglisverð. Það kom fram í svari fjmrn. á þskj. 249 að ríkið hefur greitt 575 ríkisstarfsmönnum atvinnuleysisbætur á þessu ári, þ.e. á tímabilinu 1. jan. til 15. nóv. 1993 og heildarfjárhæðin er 96,5 millj. kr. á þessu tímabili. Hér er verið að biðja um 75 millj. kr. þannig að þeir peningar sem voru áætlaðir í atvinnuleysisbætur opinberra starfsmanna hafa greinilega verið mjög vanáætlaðir og ég vil beina því til hæstv. fjmrh. að menn skoði það í ljósi þessara staðreynda hvernig áætlunin er fyrir næsta ár. Ég ætla aðeins að líta á listann yfir það hvaðan þessir einstaklingar koma, frá hvaða stéttarfélögum. Það reyndist ekki unnt að fá það uppgefið í hvaða ríkisstofnunum fólki hefði verið sagt upp. Það er einfaldlega mjög mikið mál að finna það út og er ekki inni í tölvukerfi fjmrn. en hér kemur fram að 73,2% af heildargreiðslunum renna til BSRB, 14,1% til Kennarasambandsfélaga og 11,3% til BHMR-félaga. Þetta eru athyglisverðar tölur og það er auðvitað spurningin, hvað er hér á ferð? Það eru 293 félagar í Starfsmannafélagi ríkisstofnana á atvinnuleysisskrá. Það er hvorki meira né minna. Það eru tæplega 300 félagar í Starfsmannafélagi ríkisstofnana á atvinnuleysiskrá og þetta vekur auðvitað spurningar um það hvað er að gerast hjá ríkinu. Hvað er það sem veldur þessu atvinnuleysi?
    Síðan eru líka mjög athyglisverðar upplýsingar varðandi þá sem eru á biðlaunum hjá ríkinu og flestar þær upplýsingar tengjast einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar þar sem flestir eru á biðlaunum. Það er vegna Menningarsjóðs 8 manns, Ríkismats sjávarafurða 17, Rafmagnseftirlits ríkisins 9, Byggingarsjóðs ríkisins 12, Skipaútgerðar ríkisins 8 og á Ríkisspítölunum vegna legudeildar Kristness, sem var lögð niður, 12 manns. Þetta er mikill kostnaður sem ríkið hefur af biðlaunum og samkvæmt þessum upplýsingum sem hér koma fram á þskj. 250, þá hafa alls verið greiddar 48,6 millj. kr. í biðlaun á þessu ári. Þetta er náttúrlega töluverður kostnaður og þegar maður hugsar til þess að einkavæðingaráformin hafa skilað ríkinu 100 millj. á þessu ári meðan greiða þarf 48,6 millj. kr. í biðlaun, þá er nú spurningin: Hver er hagnaðurinn af einkavæðingunni? Varðandi atvinnuleysisbætur opinberra starfsmanna vaknar sú spurning hvort upphæðin fyrir næsta ár sé ekki stórlega vanáætluð.
    Það væri hægt að fara í langt mál um sjúkrahúsin og heilsugæslustöðvarnar og hér hafa fjárlaganefndarmenn komið fram með mjög athyglisverðar upplýsingar um þá ringulreið og það stefnuleysi sem ríkir í þeim málum og þar höfum við bæði dæmi um það að ákveðnar starfsstéttir á Ríkisspítölunum hafa náð fram kjarabótum og gildir það bæði um sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Við höfum dæmi um mikla óvissu sem ríkir um framtíð bæði ákveðinna deilda og eins ákveðinna sjúkrahúsa bæði hér í Reykjavík og úti á landi í kjölfar nýrrar skýrslu. Við höfum nýlegt dæmi um hæstaréttardóm þar sem starfsmenn á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja unnu mál gegn sínum yfirboðurum sem menn telja að muni hafa víðtækar afleiðingar og ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort menn í fjmrn. hafi gert sér grein fyrir því hvað þessi dómur varðandi starfsmenn Sjúkrahúss Vestmannaeyja hefur að segja í ríkiskerfinu? Hafa menn eitthvað skoðað það hvað hann þýðir?
    Það er kannski stærsta spurningin í þessu öllu saman hvað eiginlega er að gerast á Ríkisspítölunum og hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi Ríkisspítalana. Þar er allt í óvissu og þetta getur auðvitað ekki gengið svona. Þetta stefnuleysi og þessi handahófskenndi niðurskurður og sífelldu hótanir sem starfsfólk og heilu stofnanirnar eiga yfir höfði sér af hálfu ríkisstjórnarinnar skapar mikið óöryggi, slæman vinnuanda og þetta getur ekki gengið svona. Það er alveg greinilegt að menn eru komnir að þeirri niðurstöðu

að það sé ekki hægt að spara meira á sjúkrahúsunum með þeim aðferðum sem hingað til hefur verið beitt ef nokkur sparnaður hefur þá náðst fram. Mér skilst að menn hafi haldið því fram á fundi fjárln. í morgun að það hafi nánast enginn sparnaður náðst fram á sjúkrahúsunum. Þessi niðurskurður kemur einfaldlega fram annars staðar og í öðrum kostnaði. Hvað eru menn eiginlega að fara með þessu? Hver er stefnan? Það er löngu kominn tími til að menn geri það upp við sig. Það á ekki bara þessi ríkisstjórn að gera, það á Alþingi að gera. Það er Alþingi sem á að móta stefnuna í heilbrigðismálum.
    Virðulegi forseti. Ég er þá komin að þeirri brtt. sem ég flyt hér við þetta frv. til fjáraukalaga, en hana er að finna á þskj. 171 og er hún svohljóðandi:
    ,,Við 3. gr. 02-982 Listir, framlög. Fyrir ,,8,9 millj.`` kemur 3,6 millj.`` Þetta þýðir að þessi liður er lækkaður um 5,3 millj. en í honum felst að Alþingi veiti menntmrh. ekki heimild til þess að kaupa þrjár kvikmyndir Hrafns Gunnlaugssonar. Það er það sem málið gengur út á. En upp á sitt eindæmi og án þess að hafa til þess heimildir festi menntmrh. kaup á kvikmyndunum Í skugga hrafnsins, Lilju og Óðali feðranna.
    Í umræðum sem áttu sér stað hér á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálaleg afskipti Hrafns Gunnlaugssonar við ýmsar ríkisstofnanir þá sagði hæstv. menntmrh. um þessar kvikmyndir, með leyfi forseta:
    ,,Kvikmyndirnar hafa ekki verið afhentar Námsgagnastofnun og stofnunin hefur ekki lagt kennslufræðilegt mat á myndirnar. Innan Námsgagnastofnunar hefur sú hugmynd verið rædd að stofna sérstakan flokk íslenskra bíómynda hjá stofnuninni.`` Og síðar segir hæstv. menntmrh., með leyfi forseta: ,,Þá er spurt hvers konar notkun á myndunum Í skugga hrafnsins og Óðal feðranna ég hafi hugsað mér þegar þær myndir voru keyptar. Það er að mínu mati fráleitt sjónarmið að einungis eigi að kaupa þær íslensku kvikmyndir til notkunar í skólum sem gerðar eru eftir bókmenntaverkum.`` Og enn segir hæstv. menntmrh., með leyfi forseta: ,,Þá er spurt um myndina Í skugga hrafnsins hvort ég telji hana hæfa til sýninga og kennslu í skólum. Kvikmyndin Í skugga hrafnsins er íslensk kvikmynd gerð af íslenskum listamönnum og spunnin úr íslenskri sagnahefð.``
    Þetta voru skýringarnar sem hæstv. menntmrh. gaf á sínum kaupum og það kom fram í hans máli að hann væri allsendis ósammála því sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar og hann sagði af þessu tilefni, með leyfi forseta: ,,Það sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir er greiðsluloforð sem ég gaf með samþykki fjmrh. Ég er ekki sammála Ríkisendurskoðun um þetta atriði.``
    Það er alveg ljóst að fjmrh. hafði ekki heimild fyrir þessum kaupum. Það er alveg ljóst að þetta mál var ekki borið undir Námsgagnastofnun. Það veit enginn hvað á að gera við þessar kvikmyndir. Þær liggja enn þá í menntmrn. og ég tel heppilegast og eðlilegast að Alþingi einfaldlega hafni þessari beiðni og að menntmrh. afturkalli kaupin.
    Ég vil rifja það hér upp fyrir þingmönnum hvernig þessi kaup voru til komin, en það segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálaleg samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við ýmsa opinbera aðila á bls. 58, með leyfi forseta:
    ,,Tildrög þess að menntmrn. keypti sýningarréttinn á kvikmyndum Hrafns Gunnlaugssonar eru þau að eftir að hann fékk synjun um styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum til að gera myndina Hin helgu vé óskaði hann eftir fundi með Ólafi G. Einarssyni menntmrh. Honum var þá kunnugt um það frá Námsgagnastofnun að ráðuneytið hefði í nokkrum tilvikum keypt sýningarrétt á leiknum íslenskum kvikmyndum auk þess sem hann hafði aflað sér upplýsinga frá ráðuneytinu um kaupverð myndanna. Á fundinum með ráðherra upplýsti Hrafn um fjárhagserfiðleika sem hann var í vegna Hinna helgu véa og bauð ráðuneytinu til kaups sýningarrétt á þremur myndum. Ólafur mun hafa lýst áhuga sínum á að aðstoða Hrafn í þessu máli en tekið fram að ráðuneytið hefði takmarkaða fjármuni til ráðstöfunar til kaupa á myndum. Hann mundi geta keypt eina mynd af Hrafni þá þegar en hinar tvær ekki fyrr en á næsta ári. Ráðherrann mundi gefa skriflegt loforð um kaupin sem Hrafn gæti notað til að útvega lánsfé. Ólafur fól síðan ráðuneytisstjóra að athuga hvort það verð sem farið var fram á væri raunhæft og að útbúa samningsuppkast. Samningur um kaup ráðuneytisins á Lilju var síðan gerður 10. júlí 1992. Þá gaf menntmrh. svohljóðandi yfirlýsingu 28. sama mánaðar: ,,Það er ákvörðun menntmrh. í samráði við fjmrh. að kaupa tvær filmur af Hrafni Gunnlaugssyni í síðasta lagi á næsta ári. Kaupverð er 5,3 millj. kr. sem mun verða greitt beint til Íslandsbanka hf. til endurgreiðslu á láni að sömu fjárhæð sem Hrafn hyggst taka í nefndum banka.`` Samningur um kaup ráðuneytsins á myndunum Í skugga hrafnsins og Óðal feðranna var síðan gerður 9. febr. 1993.``
    Síðan segir í skýrslunni:
    ,,Samkvæmt upplýsingum frá Námsgagnastofnun átti stofnunin hlut að máli við samningagerð vegna kaupa menntmrn. á myndinni Kristnihald undir Jökli, m.a. varðandi tímalengd sýningarréttar. Þá mun stofnunin hafa gefið samþykki sitt til að taka fyrri myndir til dreifingar í skólum áður en gengið var frá kaupum á þeim. Hins vegar var ekki haft samráð við stofnunina áður en ráðuneytið gerði samninga um kaup á myndum Hrafns.``
    Í lok þessa kafla skýrslunnar segir á bls. 61, með leyfi forseta:
    ,,Að lokum gerir Ríkisendurskoðun athugasemd við greiðsluloforð sem menntmrh., með samþykki fjmrh., gaf með yfirlýsingu 28. júlí 1992 og getið er um hér að framan. Telja verður að ráðherra hafi brostið heimild til að gefa út óskilyrta yfirlýsingu sem þessa. Slík yfirlýsing, jafnvel þó hún hefði verið skilyrt, yrði samt sem áður að teljast óheppileg með tilliti til þess fordæmis sem með henni skapaðist. Í báðum tilvikum er um að ræða ráðstöfun fjármuna áður en ljóst er hversu háum fjárhæðum Alþingi þarf að veita til viðkomandi vekefna.``
    Og það er einmitt þetta sem er mergurinn málsins. Hér er á ferð mjög óheppilegt fordæmi. Hér er fyrst og fremst verið að liðsinna ákveðnum einstaklingi. Þetta er mjög óheppilegt fordæmi sem hér er á ferð og því er eðlilegt að Alþingi hafni þessu og felli út þennan lið frv.
    Að lokum, virðulegi forseti, til að draga saman það sem ég hef hér sagt, þá er að finna í þessu frv. ótal liði sem kalla á skýringar og ég ítreka þá spurningu mína: Hversu miklu hefur verið varið af milljarðinum sem samið var um í sumar og eins og hér hefur verið rakið er hægt að tengja marga liði þessa frv. við hann? Ég ítreka líka þá niðurstöðu mína að þetta frv. sýnir það einna best hve ónákvæmar áætlanir fjmrn. eru þó að auðvitað sé þar ýmislegt á ferð sem ekki var hægt að sjá fyrir og aðstæður hafa á ýmsan hátt gripið inn í, þá er staðreyndin sú að menn hafa gert óraunhæfar áætlanir. Sértekjur hafa verið ofáætlaðar eða brugðist og þar að auki er hér verið að eyða peningum án heimilda og síðasta dæmið sem ég nefndi um kaup menntmrh. á kvikmyndum Hrafns Gunnlaugssonar er mjög slæmt dæmi um það hvernig 41. gr. stjórnarskrárinnar er þverbrotin. Það þurfa að eiga sér stað breytingar á vinnubrögðun og það gildir ekki bara um þessa ríkisstjórn heldur alla þá sem hafa komið og eiga eftir að koma að ríkisfjármálunum í framtíðinni. Þessi mál eru í allt of föstu formi og ég er sannfærð um það að ætli menn sér að ná árangri í því að takmarka ríkisútgjöld í samræmi við þær slæmu horfur sem því miður blasa við okkur þá þurfa menn að fara út í ýmsar grundvallarbreytingar en ég sé ekki að þessi ríkisstjórn ætli sér að gera það.