Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 16:48:38 (2146)


[16:48]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja það að mér finnst dálítið mikið bera á því að hér séu ráðherrar spurðir um einstök efnisatriði frv. sem hafa verið rædd ítarlega í nefndinni og ég veit að allir flokkar eiga aðild að nefndinni. Og maður spyr sig að því hvort það þurfi að fara fram nefndarstarf ef það á síðan allt að endurtakast í 2. umr. En vegna sérstakra fyrirspurna hv. þm. sem auðvitað blasir við ef menn bera sig eftir því að lesa það sem fyrir þá er borið þá kemur í ljós varðandi ráðherrabústaðinn að á yfirstandandi ári eru 1.100 þús. til þessa verkefnis. 1994 er gert ráð fyrir 4,1 millj. og í þessum pakka, sem er hluti af einum milljarði, eru 10 millj. og aftast í sjálfu frv. er fskj. 2 á bls. 53. Þar er þetta sett niður mjög nákvæmlega og þar er yfirleitt að leita svara við yfirleitt öllum spurningum sem varða þetta efni nema þá spurningu sem hv. þm. kom með og snertir hve mikið er búið að eyða af þessum milljarði. Það get ég ekki sagt upp á hár á þessari stundu. Það veit enginn alveg nákvæmlega hve mikið fer út fyrir áramótin, en ég geri ráð fyrir því að það verði milli 600--700 millj. kr. Þetta vildi ég láta koma fram.
    Varðandi síðan fjáraukalög. Ég er alveg sammála þingmanninum að það er of mikið gert af því að koma með heimildir inn á fjáraukalögum. Ég vil bera lof á fyrrv. ráðherra sem var á undan mér sem gjörbreytti þessu því að þá var byrjað á þeim vinnubrögðum að koma með þetta inn á sama árinu og ætlunin var að greiða út fjárheimildirnar og það er ekki gert nema í undantekningartilvikum núna en um 50 ára skeið gerðist það stundum mörgum árum seinna. Og af því að það er minnst á 300 millj. og einn milljarð þá var sú lagaheimild fengin í sumar með bráðabirgðalögum og hér er einungis verið að staðfesta sundurliðunina.