Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:42:43 (2150)


[17:42]
     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Maður hélt nú að hér yrðu ekki sérlega skemmtilegar umræður frekar en fyrri daginn í þessu þjarki öllu saman, en þá bregður svo vel við að hér eru stórmerkilegar umræður í gangi sem vonandi halda áfram á meira en tveimur eða þremur mínútum. Hér segir t.d. á forsíðu Morgunblaðsins að það séu boðuð hallalaus fjárleg árið 2000 í Bretlandi sjálfu. Hér erum við að berjast við að hafa ekki hallalaus fjárlög. Ég hef sagt það margsinnis í þessum ræðustól og í mínum flokki núna í þessari baráttu okkar að hallalaus fjárlög ein sér þurfa ekki að vera til tjóns ef peningarnir eru notaðir í réttum tilgangi. Þetta sannar nú Mogginn minn, það ágæta blað, eitt besta fréttablað vestursins, hefur verið það lengi og vel stjórnað eins og menn vita og síðan er hér komið að því að það er sýnt fram á í þessu Morgunblaði að raunvextir hjá mikla spekingnum, fjárlagaspekingnum okkar, Jóni Sigurðssyni, hann áætlar þá verða 12--16%.
    Hér er vissulega um alvarleg umræðuefni að ræða. Ég ætla ekkert að fara að dæma einn mann eða annan án þess að við sameiginlega, sem þykjumst nú hafa eitthvert vit á stjórnmálum og fjármálum, getum rætt þetta niður í kjölinn. Það er þarna á ferðinni grundvallarágreiningur, tvenns konar ágreiningur sem við eigum að taka okkur tíma til þess að ræða miklu betur og taka þann tíma strax og held ég að ég þurfi ekki að rekja þetta nánar. Halli á fjárlögum getur verið í lagi og það er ekki endilega skaðvænlegt, annars vegar er það staðhæfing og síðan er nú komið á daginn að hér gætu raunvextir orðið allt að 16% og það er nú ekki ánægjulegt.