Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:45:21 (2151)


[17:45]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að ræða hér um vaxtabreytingarnar því að þær breytingar sem hafa orðið þegar eru gríðarlega mikilvægar fyrir íslenskt atvinnulíf og verða það með vaxandi þunga á næstu mánuðum og missirum. Auðvitað vita menn það að fyrrv. ríkisstjórn talaði mikið um að lækka vexti, náði því ekki, gerði það ekki. Vextir á ríkispappírum á markaði, sem er hin raunverulega mæling, voru um 8% rúmlega þegar sú stjórn fór frá en eru núna á sambærilegum pappírum rúmlega 5%. Auðvitað hefði fyrrv. ríkisstjórn viljað ná þessum árangri. Hún gerði það bara ekki. Og það vita allir menn að hún gerði það ekki.
    Nú hefur það skipt sköpum eins og ég nefndi áðan að það hafa gerst breytingar í okkar efnahagslífi. Það er nefndur ríkissjóðshallinn, að ríkisútgjöld hafi verið skorin niður. En meginmáli skiptir þó að lánsfjárþörf hins opinbera hefur minnkað og er nú aðeins hluti af heildarsparnaði þjóðarinnar. En þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var hæstv. fjmrh., þá var lánsfjárþörf hins opinbera meiri en allur sparnaður landsmanna. Og það var þess vegna sem vextir m.a. gátu ekki lækkað. Þess utan eru aðrar forsendur nú traustar. Nú er viðskiptahallinn þannig að menn eru ekki að safna erlendum skuldum. Verðbólgan er traustari en áður hefur verið. Gengisöryggið er mikið, gengið er skráð hagstætt útflutningsatvinnuvegunum. Það er stöðugleiki, það er vinnufriður. Allir þessir þættir og það sem að hefur verið unnið á undanförnum árum gerðu það kleift að vextir lækkuðu og það eru sömu ástæður til þess að ykkur tókst aldrei, og sitjið uppi með sárt ennið, ykkur tókst aldrei að lækka vextina. Staðreyndin var sú að það hlóðust upp skuldir, ég hygg að það hafi verið nálægt 10 milljörðum kr. þegar hv. þm. fór úr fjmrn. vegna þess að ,,trikkið`` hjá honum heppnaðist ekki. Sú er staðreyndin, hv. þm., og þingmaðurinn hlýtur að vita það.