Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:49:02 (2153)


[17:49]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Meginmálið í þessum efnum er traust á markaðnum. Hv. þm. hafði orð um það í sinni fyrri ræðu hvort um væri að ræða varanlega lækkun vaxta eða aðeins stundarfyrirbæri. Boð í skírteini ríkisins, í bréf ríkisins, þriggja mánaða, sex mánaða, tólf mánaða og tveggja ára boð, sýna að markaðurinn treystir því að vaxtalækkunin sé raunveruleg. Boðin til 12 mánaða sýna það að menn eru þar að spá í 5% raunvexti til 12 mánaða og miðað við það að verðbólgan verði kannski 1--1,5%. Það er enginn vafi á því að bankarnir munu fylgja í kjölfarið. Að taka einn vaxtadag eins og þennan varðandi nafnvextina og dæma út frá því er rangt. Menn vita hins vegar það að í bankakerfinu hafa bækur bankanna verið bundnar fram að áramótum. Það lá fyrir þegar vextirnir lækkuðu. Og það er enginn vafi á því að lækkunin á nafnvöxtum bankanna mun koma fram, ekki síst eftir að jafnvægi kemst á og eftir að þessi binding losnar á bókum bankanna um áramótin.